18.01.1952
Neðri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð út af því, sem hæstv. forsrh. sagði um þetta mál. Hann sagðist álita rétt að verða við óskum bæjarstjórna um að fá þá tekjustofna, sem þær færu fram á og þeim væru nauðsynlegir. Mér fannst þetta eftirtektarverð yfirlýsing. Við þekkjum það allir, að það hefur oft komið fyrir, að bæjarstjórnir hafa farið fram á sérstaka tekjustofna .sér til handa, en verið neitað. Og ég held, að ef það er meiningin að fara að taka þetta upp sem prinsip, þá sé réttast að hafa það þannig að veita aðeins þeim heimildina, sem sækja um tekjustofnana, en ekki öllum öðrum bæjar- og sveitarstjórnum sams konar heimild um leið, sem alls ekki hafa um hana sótt. Menn muna eftir því, er Vestmannaeyjakaupstaður sótti um að fá rétt til að hafa tekjur af uppskipun á vörum í bænum, en var neitað. Hæstv. forsrh. sagði, að þegar Akureyri sækti um slíka tekjustofna, væri sjálfsagt að verða við þeim óskum. Þó að ég liti svo á, að rétt sé að veita Akureyri þessa heimild nú, þá finnst mér ekki rétt að gera þetta að almennu prinsippi. Ég mun því flytja brtt. um þetta fyrir 3. umr.