22.01.1952
Efri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forsetl. Ástæðurnar fyrir því, að ég er á móti þessu máli, eru tvær. Í fyrsta lagi, að með þessu frv., þótt að l. yrði, er ekki að neinu leyti bætt úr fjárþröng sveitarfélaganna. Í öðru lagi er skatturinn ranglátur. Nú virðast sumir hv. þm. halda, að hér sé verið að bæta úr fjárþörf sveitarfélaganna, en sumir vita þó, að frv. hefur enga þýðingu. Ég býst við því, að þegar sveitarfélögin framvegis koma til Alþ. með vandamál sin, verði öruggast fyrir þau að vísa til þessa frv. En vandamál sveitarfélaganna stafa ekki af því, að þau skorti heimildir til álaga, heldur af hinu, að gjaldþol skattþegnanna í bæjarfélögunum er á þrotum. Það hefur einnig verið á það bent, að sama árangri geti bæjarfélögin náð með því að taka sérstakt tillit til fasteignamatsins, er útsvörum er jafnað niður. Þessi skattur verður ekki lagður á eftir því, hvort menn hafa efni á að borga hann eða ekki. Hann verður lagður jafnt á, 'hvort sem húseignin er að mestu í skuld eða skuldlaus, og hann er svo hár, að hann getur riðið baggamuninn, hvort menn missa húseign sína eða ekki. Alþ. er með þessu að draga úr því, að menn leggi fé sitt í húsbyggingar. Sem sé, hér er um ranglátan skatt að ræða og á engan hátt þess að vænta, að hann leysi vandamál sveitarfélaganna, og er ég af þessum ástæðum á móti honum. Ég er líka alveg undrandi á yfirlýsingu hv. 1. þm. N-M. um, að hann muni fylgja þessu, þegar hann hefur viðurkennt, að hægt sé að ná þessu markmiði, sem að er stefnt, á réttlátari hátt. Aðeins eitt bæjarfélag hefur farið fram á þessa heimild, sem sé Akureyri. Virðist því nægilegt ranglæti framið með því að láta heimildina ná til hennar einnar, en óþarft að bjóða heimildina fram til þeirra, er ekki hafa óskað hennar.