23.01.1952
Efri deild: 69. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég fékk skilaboð frá hv. þm. Barð. um, að hann hafi lagt hér fram brtt. um, að þessi heimild nái aðeins til Akureyrar. Vegna þess að þessi hv. þm. forfallaðist, þá bað hann mig að rökstyðja þessa till. sína. Hv. þm. fór nokkrum orðum um þetta við 2. umr., og var það þannig, að mig minnir, að hér væri um að ræða, að verið væri að troða heimild upp á þá aðila, sem ekki hefðu óskað eftir henni, ef Alþ. og ríkisstj. ætluðu að veita öllum sveitarfélögum þessa heimild, sem Akureyri hefði ein óskað eftir. Ég held, að till. sé komin fram af þessari ástæðu. Nú hafa einnig komið fram brtt. frá meiri hl. n., sem hv. frsm. mælti með.

Mér fyrir mitt leyti finnst sanngjarnt að verða við óskum Akureyrar í þessu efni, en takmarka heimildina við það. Ég hef áður látið í ljós ugg um, hvernig með heimild þessa yrði farið. Hv. frsm. vildi eyða honum og sagði, að svona tekjustofnar gæfu eðlilegan grundvöll fyrir útsvör bæjanna. Þá er rétt, að ég rökstyðji þetta, en því er nú svo farið, að meðferð þessara mála er ekki alltaf í höndum manna, sem hafa jafngóða reynslu og þekkingu á sveitarstjórnarmálum og hv. frsm. Ef svo væri, þá mætti vera, að málum þessum yrði hagað rétt og skynsamlega, en vegna þess að svo er ekki, heldur veljast til þessa menn með misjafna þekkingu og reynslu, þá álit ég nokkra áhættu að samþ. þetta svona. Með þessu er verið að gefa heimild til að afklæða borgarana enn betur en verið hefur, og veit ég satt að segja ekki, hvað er eftir nema þá húseignir fólksins.

Hv. þm. S–Þ. sagði, að þeir, sem yrðu fyrir barðinu á þessum skatti, væru þeir, sem fest hefðu fé sitt í fasteignum. Ég veit ekki, hvort það er nema eðlileg þörf og náttúrleg, að menn byggi húskofa yfir sig og sína nánustu. Hv. 1. landsk. benti einnig á það, að menn svíkja undan skatti. Maður þarf ekki annað en að lita í útsvarsskrá Reykjavíkur, sem kemur út á hverju ári, til þess að sjá, að sumir menn hafa ekki gefið neitt upp á skattskýrslu og auglýsa sig þannig eignalausa menn. Þetta þekki ég vel, og ég hef fyrir löngu veitt þessu athygli. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. S-Þ. að segja mér þetta nú, þegar verið er að ræða um það hér að beinlínis siga sveitaryfirvöldum á almenning í landinu til þess að útvega þeim enn nýjar leiðir til þess að ná peningum frá skattgreiðendum. Það er verið að ganga þarna á allan fjölda almennings, jafnvel þá, sem með miklum erfiðismunum hafa komið sér upp einhverri húseign. Það er hvergi tekið tillit til þess, hvort skuldir hvíli á eignunum eða hvort menn hafa verið svo þjóðlegir að koma peningum sínum í fasteignir, eins og hv. þm. S.-Þ. sagði.

Það er bezt að inna þá kurteisisskyldu af hendi að koma því á framfæri hér, sem einn flokksbróðir hv. 6. landsk. bað mig um að skila til flokksbræðra sinna í Ed., að þeir væru að vega að millistéttinni í landinu með því að samþ. þennan skatt. Þessi maður er mjög vel þekktur öllum þingmönnum.

Að öllu þessu athuguðu er ég þeirrar skoðunar, að hér sé að óbreyttu ástandi verið með óþarfa löggjöf hvað snertir önnur bæjarfélög en þau, sem beðið hafa um hana. Ég minni á það, að það er búið að samþ. hér á Alþ. mjög eindregna áskorun til hæstv. ríkisstj. um það að láta fram fara gagngera endurskoðun á skattalöggjöf landsins, bæði til ríkisins og bæjarfélaganna. Og ég vil benda á það, að meiri hl. hv. alþm., sem nú stendur að því að samþ. þetta frv., hefur neitað bæjarfélögunum um lítinn hluta af söluskattinum á þann raunalegasta hátt, sem hægt er, með því að hóta stjórnarslítum og ráðherraburtför. En í sömu andránni segjum við hér á Alþ. bæjar- og sveitarfélögunum að taka þessa hækkun af húseignum fólks og með viðbótum við útsvörin.