23.01.1952
Efri deild: 69. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (1202)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil ekki lengja þessar umr. úr þessu, en vil vekja athygli hv. þm. Vestm. á því, af því að hann er nýkominn hér inn í d., að hér liggur nú fyrir brtt. við 1. gr. frv., sem gæti haft einhverja þýðingu fyrir skilning hans á því, hvað rétt er að gera í þessum efnum fyrir Akureyri og aðra. Hann heldur því fram, að það sé ekki rétt að samþykkja þessa heimild til annarra en þeirra, sem beðið hafa um hana. Nú hefur Akureyri beðið um þessa heimild. En ég vil benda á það, að önnur sveitarfélög hafa, síðan málið kom hér fram, ekki haft aðstæður til þess að láta til sín heyra. Og þótt nú sé áformað að breyta skattalöggjöfinni og endurskoða hana, þá er þörf margra bæjar- og sveitarfélaga svo brýn, að þau komast ekki hjá því að hækka sína skatta, áður en þau lög verða afgreidd, svo sem hæstv. félmrh. hefur skýrt frá. Meiri hl. n. leggur til, að ekki þurfi að biðja um þessa heimild hverju sinni eða á hverju ári, heldur verði öl] bæjar- og sveitarfélög hér samferða með sama rétti.

Hv. þm. Vestm. tók það fram, að frv. fæli það í sér, að sveitarfélögunum væri gefin heimild til þess að hækka gjöld á fólkinu, og afleiðingarnar mundu verða gjaldahækkanir einu sinni enn. Eins og sýnt var fram á í gær, þá er það ekki ætlunin með þessu frv. að gefa sveitarstjórnum tækifæri til þess að afla meiri tekna, en það á að vera til þess að létta á útsvörunum, því að sú upphæð, sem jafnað hefur verið á almenning í útsvörunum, hefur verið óþægilega há, miðað við þær losaralegu reglur, sem um niðurjöfnun þeirra gilda. Sá mælikvarði, sem fasteignaskatturinn er, var upp tekinn 1937, og þótti þá ástæða til þess að gefa sveitarstjórnunum heimild til þess að hækka hann síðar. Og nú eru enn breyttir tímar og það miklu meira en þá, og tilkostnaður bæjarfélaganna er farinn fram úr öllum tekjum þeirra, þó að heimildin frá 1937 sé notuð til fulls. Það, sem frv. felur í sér, er ekkert annað en að setja nokkra vísitöluhækkun á grunntölurnar frá 1937, en ekki er einu sinni farið yfir hálfa vísitöluhækkunina, ef miðað er við þær verðbreytingar, sem orðið hafa síðan. En það, að þessi mælikvarði var upp tekinn, byggðist á þeirri skoðun, að þeir, sem eignast fasteignir, standi betur að vigi en aðrir og megi greiða nokkuð til samfélagsins sérstaklega. Það er sanngjarnt, að menn greiði eftir efnum og ástæðum, og það eru ástæður að að eiga hús eða eiga ekki hús.

Ég tel ekki rétt að lengja umr. meira, þó að mikið væri hægt að tala um þetta mál. En ég vil leggja áherzlu á það, að mér finnst ekki ná nokkurri átt að gefa heimild til hækkunar þessara gjalda hjá einu eða tveim sveitarfélögum, en ekki hjá öðrum, af því að þau hafi ekki beðið um hana, og með þeirri brtt., sem hér liggur nú fyrir, er séð fyrir því, að öll sveitarfélög geti notfært sér þessa heimild.