23.01.1952
Efri deild: 69. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (1203)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. n. var að halda því fram, að þetta frv. væri ekki flutt til þess að hækka álögur á þegna bæjarfélaganna, vegna þess að útsvarsuppbótin kæmi núna í staðinn fyrir þetta frv. En til hvers er þá verið að flytja þetta frv.? (KK: Til þess að lækka þá upphæð, sem þarf að jafna niður með útsvörum og er óþægilega há.) Hvers vegna er það óþægilegt, þessari upphæð er hvort sem er jafnað niður eftir efnum og ástæðum? Það hefur verið sýnt fram á það hér í d., að málið er óþarft. Það er bara til þess fallið að hafa meira ranglæti við álagningu skatta og útsvara en verið hefur. Þessir skattar eru ekki lagðir á menn eftir efnum og ástæðum og ekki tekið tillit til þess, hvort menn eru fátækir eða ríkir, hvort þeir eiga eignir, sem þeir skulda í, eða hvort þeir eiga skuldlausar eignir. Það er þetta, sem sérstaklega er ranglátt.

Hv. frsm. meiri hl. n. sagði, að það ætti að hjálpa mönnum til þess að eignast þessar fasteignir, og það er alveg rétt. En. þetta er undarleg rökfærsla, ef það er ekki til annars en að geta lagt á þetta sérstakan skatt á eftir. Fyrst á þá þjóðfélagið að hjálpa mönnum til þess að ná þessum réttindum, síðan að leggja á skatta til þess að reyna að svipta menn aftur þessum réttindum, þeim réttindum að hafa þak yfir höfuðið, og að því miðar frv. Hér er um að ræða ekki svo lítinn skatt. Skatturinn, sem hefur skipt hundruðum, skiptir nú þúsundum, eftir að þessi heimild hefur verið samþ. og notuð. Ég vildi taka það fram, að ég er á móti þessu frv. og vil láta fella það. En það, sem hér liggur fyrir, er beiðni frá einu bæjarfélagi í landinu um að mega hækka álögur sínar. Og það er sýnilegt, að meiri hl. alþm. vili verða við þeirri bón, en mér finnst, að ekki ætti að ganga lengra, því að það er rangt að vera að gera þessa heimild almenna, áður en nokkrar óskir eru fyrir hendi um það frá bæjarfélögunum. Það liggur nú fyrir sams konar beiðni frá öðru bæjarfélagi, þ.e. Ísafjarðarkaupstað, og eru það því tvö bæjarfélög, sem óska þessarar hækkunar.

Ég vil af þessu tilefni bera hér fram brtt. við brtt. hv. þm. Barð. á þskj. 763, þess efnis, að þessi heimild nái ekki til Akureyrar einnar, heldur líka Ísafjarðar, og þá finnst mér, að Alþ. hafi orðið við óskum manna í þessu efni, því að ekki liggja beiðnir fyrir frá öðrum aðilum. Ég vil svo afhenda forseta þessa brtt.