23.01.1952
Efri deild: 69. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Það er lengi hægt að segja, að allar reglur um útsvör séu ranglátar og að aldrei finnist réttlát leið. En ég held, að hv. flm. þessarar brtt. hafi ekki hitt á það, sem er lausn í þessu máli. Hann leggur hér til, að það megi leggja fimmfalt gjald á þann hluta eigna, sem er fram yfir skuldir, samkv. fasteignamati. Þetta hlýtur að missa marks. Ég þekki mann, sem á fjögur hús, hvert þeirra er metið nálega á 20 þús. kr., og hann rekur verzlun. Hann veðsetur húsin til að fá rekstrarfé. Hann skuldar meira en fasteignamatsverðið út á húsin. Þessi maður er raunverulega vel efnaður. Það eru einmitt þeir menn, sem eiga slíkar fasteignir, sem ég álít fullkomlega réttlætanlegt að hækka fasteignagjaldið hjá. Það væri fjarstæða. að hann kæmist undan þessum skatti, eins og till. felur í sér. Enn fremur eru til menn, sem ekki hafa getað fengið veðlán út á fasteignir, en skulda stóra víxla. Hvers ættu þeir að gjalda? Réttlæti næst ekki með tillögunni — því miður.

Til eru fjöldamörg dæmi svipuð þessu. Það er auk þessa óframkvæmanlegt að greina menn 3 flokka við skattlagninguna eftir því, hvort þeir skulda út á fasteignirnar sem veð eða ekki. Hvílík skriffinnska mundi vera því samfara frá ári til árs! Lánahreyfingarnar mundu valda sífelldum villum og fyrirhöfn í skrám og reikningum sveitarfélaganna.

Að öllu þessu athuguðu undrast ég, ef hv. þm. Vestm. telur skynsamlegt að samþykkja þessa tillögu eða hefur hjartalag til þess að gera það.