16.10.1951
Neðri deild: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

50. mál, sauðfjársjúkdómar

Ingólfur Jónsson:

Þetta frv., sem hv. þm. Mýr. hefur flutt á þskj. 71, er sanngirnismál. Ég flutti sams konar till. við meðferð málsins á þingi 1949, þegar þessi breyt. var gerð á l. um sauðfjársjúkdóma og bætur vegna þeirra. Þegar hugsað var að gera þessa breyt. og greiða bændum í skuldabréfum mikinn hluta af bótunum, hafði frv. komið þannig úr garði gert inn í Alþ., að ekki var gert ráð fyrir, að neinir vextir væru greiddir af bréfunum. Virtist, að sumir hv. þm. og landbrh. gætu sætt sig við að bjóða slíka kosti. Þó höfðu allir bændur, sem búnir voru að fá niðurskurð, fengið greiðslu í peningum. Var óskiljanlegt misræmið, sem þarna átti að verða milli þeirra og hinna, sem voru að bíða eftir niðurskurði og misstu mikinn hluta af fjárstofni sínum. Niðurstaðan varð því sú, að þessi lagasetning var gerð með því að ákveða 4% í vexti af þessum bréfum. Þegar þetta mál var til umr., benti ég á, að bændur yrðu að nota þessi skuldabréf til þess að fá lán út á þau eða að þeir hefðu ekki efni á að liggja með bréfin í handraðanum og yrðu undir mörgum kringumstæðum að veðsetja þau og greiða mun hærri vexti, a.m.k. 6% og í mörgum tilfellum 7 eða 8%, ef um víxillán og framlengingu er að ræða. Er þess vegna mjög eðlilegt, að frv. eins og þetta sé nú fram komið, þegar staðreyndirnar eru farnar að tala og augljóst er orðið, að menn verða að nota þessi skuldabréf strax. — Ég vil þess vegna eindregið mæla með því, að frv. verði samþ. Vil ég benda á, að það er styttra skref nú að stíga frá 4% upp í 6%, eftir að reynsla er fengin á þessum hlutum, heldur en var, þegar þetta var flutt í hv. d. fyrst, frá engu upp í 4%.

Ég ætla svo ekki meira um þetta að segja, en vænti þess, að þetta fyrsta mál, sem hv. þm. Mýr. flytur og er þarft og gott, nái nú samþykki.