12.11.1951
Efri deild: 27. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (1242)

50. mál, sauðfjársjúkdómar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. mikið, en vildi þó segja nokkur orð.

Fyrst vildi ég segja það, að það liggur fyrir, að þessar þrjár ær, sem sýktust á Hólmavík og var slátrað, hafa að minnsta kosti sýkt tvær ær aðrar, sem aðrir áttu. Hins vegar er vitað, að á þessu svæði gengur slæðingur af fé annars staðar að, en hvort það hefur smitazt, vitum við ekki.

Það hafa komið til mín menn, sem vilja fyrirskipa niðurskurð, en ég hef sagt þeim, að það mundi ég ekki vilja gera, því þó að það sé ekki útilokað, að einhverjar aðrar kindur en þessar tvær hafi smitazt, þá er þess að gæta, að úr þessu hólfi hafa verið seld lömb, svo að nú eru tvö hólf á landinu, sem ekki hefur komið í lambfé af þessu svæði. Hvort fleira sýkt fé er í þessu hólfi, vitum við ekki, og það er ekki heldur vitað, hvort einhver lömb kunna að vera smituð. Það er þess vegna nauðsynlegt, að öllum girðingum sé haldið vel við.

Nú er það svo með þau lömb, sem seld eru úr hólfinu, að enginn þarf að reikna með því, að veikin komi fram fyrr en eftir 2–4 ár. Þegar svo er, fer fólk að halda, að öllu sé óhætt, og árveknin slappast bæði hjá almenningi og n.

Það er nauðsynlegt að halda girðingarhólfunum eins hreinum og hægt er, svo að ekkert samband sé milli þessa hólfs og annarra, og það þarf að brýna fyrir mönnum að gæta varúðar í þessum efnum.

Þess ber að gæta, að við lifum hér við allt önnur skilyrði en tíðkast í öðrum löndum. Sauðfé gengur hér saman á afrétt, og þetta þekkist bara hér og í Noregi. Annars staðar, þar sem ég þekki til, kemur fé manna ekki saman við annarra fé, og er því smithætta hér margfalt meiri og ekki sambærileg við neitt annað. Það eru svipaðar samgöngur í öðrum löndum milli sauðfjár og hér milli nautgripa innbyrðis, og þó minni, því að algengt er hér, að nautgripir komi saman um allt land, en svo er ekki um fé í öðrum löndum, þar sem ég þekki til. Svo er hitt, að þar eru dýralæknar á hverju strái. Um leið og veikinda verður vart, þá er sóttur dýralæknir, og hann gerir sínar ráðstafanir og skepnan einangruð. Það er eins og um sjúkdóma hjá mannfólkinu. Við höfum ekki nema svo fáa dýralækna, að það er sjaldan hægt að vitja þeirra. Það er skiljanlegt, að maður, sem á veika kind norður á Hólmavík, fari ekki að vitja læknis suður í Borgarnes. Hefði aftur á móti verið dýralæknir á Hólmavík, þá hefði þetta komizt upp um leið og sá á kindinni. Þess vegna er það auðséð, að aðstæður hér eru allt aðrar en í öðrum löndum, a.m.k. þar, sem ég þekki til.

Annars er það ekki nema að nokkru leyti rétt, að þessi sjúkdómur berist aðeins frá kind til kindar. Það er rétt, að Dungal reyndi eða gerði tilraun til að smita nautgripi með því að gefa þeim sýkt lungu úr fé og tókst það ekki. Og þó er það ekki víst, því að nautgripirnir voru ekki látnir lifa nógu lengi. Það hefði ekki komið í ljós fyrr en eftir 4–5 ár, hvort smitun hefði átt sér stað, en svo gamlir urðu kálfarnir ekki. Hitt er víst, að áður var gerð tilraun með fé. Það voru hafðir 2 hópar, annar sýktur frá Reykjavík og nágrenni, en hinn ósýktur, og var hann keyptur austan úr Skaftártungu og látinn vera á rimlalofti yfir sýkta fénu. Enginn samgangur var milli þessara hópa; það var ekki einu sinni sami hirðir, en lömbin í efra hólfinu sýktust, og gat það ekki borizt með öðru en loftinu. Á sömu leið er óhætt að segja um kindur, sem tilraun var gerð með á Keldum. Enginn samgangur átti sér stað milli þeirra; nema sami hirðirinn, sem hirti þær, og sýktust kindurnar, svo að ef lungu hafa verið fryst og notuð svo til fóðurs fyrir refi, sem hirtir hafa verið af sama manni og kindurnar, þá er það skiljanlegt, að veikin geti hafa borizt þannig í þessar 3 ær. Sérstaklega vil ég segja þetta, að það er höfuðnauðsyn að halda vel við öllum girðingum, svo að samgangur milli þeirra sé enginn, og ef veikin kemur upp í einu hólfinu, þá sé öruggt, að fé hafi ekki gengið þar á milli, og á þessu má enginn slappleiki vera. Í þessu hólfi verður sennilega ekki vart við veikina næstu 2 árin, en hvað verður þriðja árið, er ekki vitað enn þá. Það má heldur enginn slappleiki vera með það að brýna fyrir mönnum að fara nákvæmlega eftir þeim reglum, sem settar eru, en á því vill oft verða misbrestur og að menn sniðgangi þær, eins og hæstv. ráðh. sagði áðan.