12.11.1951
Efri deild: 27. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

50. mál, sauðfjársjúkdómar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hafði skilið orð hæstv. landbrh. svo í Sþ., er málið var þar til umr., að ráðstafanir hefðu verið gerðar til þess að ganga betur frá girðingunum á Vestfjörðum. En nú hefur verið upplýst, að þessar ráðstafanir hafa aðeins verið fólgnar í samþykktum, sem sauðfjárveikivarnan gerði, er hún sat á fundi. — Hæstv. ráðh. sagði einnig, að það hefði ekki verið hægt að ganga í það í september í haust að gera við girðingarnar. Nú má segja, að svo erfiða haustið hefðum við getað fengið, en með þeirri einmunatíð, sem við höfum haft í haust, hefði það verið lafhægt. Það hefði verið lafhægt að tvöfalda girðinguna frá Gilsfirði í Bitrufjörð, sem er aðeins 71/2 km, en það hefur ekki verið gert. Og þetta vil ég segja að sé bein vanræksla, því að féð sunnan við hana í Dalasýslu er heilbrigt. (PZ: Ég held, að sama og enginn gaddavír hafi verið til í landinu.) Ég held einmitt, að það hafi fengizt nógur gaddavír í sumar, eftir margra ára vöntun. (PZ: Já, í sumar.) Og ég veit meira að segja, að sum kaupfélög hafa eftir beiðni haldið eftir gaddavír til þessara nota í þeim tilgangi að nota hann við viðgerðir á girðingunum, ef með þyrfti, sem auðvitað var alveg rétt. Trúi ég ekki, að þessu hafi verið frestað vegna gaddavírsleysis, því að nú síðan í september hefði þetta verið lafhægt.

Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að það er auðvelt að vera klókur eftir á, en við megum ekki alltaf vera á eftir með framkvæmdir. Ef þetta hefði verið hégómamál, sem hér er um að ræða, þá hefði allt verið í lagi, þó að því hefði verið slegið á frest að tvöfalda girðinguna úr Bitrufirði í Gilsfjörð, en hér er um stórmál að ræða. — Það hefði líka fullvel verið hægt að laga og endurbæta girðinguna úr Berufirði í Steingrímsfjörð, þar sem gæzla hefur verið lítil undanfarið. (GJ: Gæzla látin falla niður.) Já, eða það. Óg það þýðir vítanlega það, að nú er allt í óvissu um það næstu 2–3 árin, hvort féð fyrir norðan hana er sýkt eða ekki. Það hefði verið auðvelt að koma í veg fyrir þessa áhættu, en það hefur ekki verið gert. Í stað þess að við hefðum átt að hrökkva ærlega við, þegar við heyrðum þessa andlátsfregn að norðan, að veikin væri komin þar upp, þá er það látið dragast mánuð eftir mánuð að gera við girðinguna og hún látin bíða, án þess að hreyft væri við henni. Til þess þurfti aðeins september, en í stað þess er hann látinn líða og allur október og ekkert gert. (GJ: Og er hægt enn.) Hæstv. ráðh. segir, að það eigi að vera búið að reisa hana og tvöfalda áður en sauðfé fer af húsi næsta vor. Þetta gæti rétt verið, en nú verður ekki búið að tvöfalda girðinguna sunnan Kollafjarðar: Þess vegna fer sauðfé af húsi næsta vor, þannig að girðingin verður öll ósauðheld, því að viðgerð verður ekki lokið fyrr en komið er fram í júní, löngu eftir að sauðfé er farið af húsi. Það er hörmulegt til þess að hugsa, að vitibornir menn hugsi þannig, að búið sé að gera nauðsynlegar ráðstafanir aðeins með því að setja fund í sauðfjárveikivarnan. og gera þar samþykkt. Með slíku áframhaldi verðum við alltaf á eftir sauðfjárveikinni sjálfri.