20.11.1951
Neðri deild: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (1282)

101. mál, þingsköp Alþingis

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég þarf fá orð um ræðu hv. þm. að hafa. Það undrar mig ekkert, þó að hann hreyfi andmælum, og vil ég þó taka fram, að hann skoðar þessa breytingu ekki annað en lögleysu, og skal ég ekki fara að rífast við hann út af því. Hins vegar skal ég minnast lítillega á það, sem hann taldi sig færa fram af rökum.

Hann óttast, að samningar við erlend ríki verði vanhugsaðir, ef aðstoðar sósíalista njóti ekki við. Ég ætla nú ekki að fara að halda því fram, að hér eigi við þetta gamla orðtæki, „að því verr gefast heimskra manna ráð, sem þeir koma fleiri saman“; það mun nú ekki vera algild regla hvað þessu viðvíkur. En hitt er hygginna manna háttur, að athuga sem bezt sínar gerðir, áður en þeir láta til skarar skríða, og það er því góð regla, að sem flestir viti bornir menn fjalli um öll mál, áður en frá þeim er gengið. Ég verð að játa það, að þótt ég vanvirði ekki þekkingu formanns sósíalista á öðrum sviðum, þá þykjumst við færir um það einir að sjá bag Íslendinga borgið í þessum stjórnarefnum án hans aðstoðar, en ég furða mig ekkert á því, þó að hann dragi það í efa. Og ef hann hefur rétt fyrir sér, þá er skaði að geta ekki notið hans á þessum sviðum. Það er sorglegt að mega ekki bera sama traust til hans og flokks hans á þessum sviðum eins og við þó þorðum að gera á öðrum sviðum.

Ég veit, að hv. þm. langaði ekkert til að segja annað eða verra um mig en inni fyrir bjó, en þó sagði hann, að með þessum hætti kæmu til með að semja um utanríkismál menn, sem væru með hugann fullan af pólitísku fylgi við þann aðila, sem verið væri að semja við. Ég neita því, að nokkur okkar, sem að þessu frv. stöndum, hafi nokkurn tíma gengið að samningaborðinu með þvílíku hugarfarl. Við höfum samið um hagsmuni Íslands við þær þjóðir, sem við viljum ekki sýna fjandskap, en viljum ekki heldur láta hlut okkar fyrir að neinu leyti. Ég tel því, að hér sé um misskilning að ræða. En þessi misskilningur lýsir því engu að síður, að hv. þm. telur, að til geti verið þeir menn á Íslandi, sem gangi að samningaborði við erlendar þjóðir með hugann fullan af pólitískri fylgispekt við þær. Þetta veitir nokkra innsýn í huga hv. þm., hvernig hann hugsar þegar um það er að ræða að semja um hagsmuni Íslendinga við erlendar þjóðir. Það er þessi hugsunarháttur, sem ég harma að skuli hafa fest rætur í huga hans, og það er vegna þessa hugsunarháttar, sem við þorum ekki að treysta honum og hans skoðanabræðrum til að standa á verði um hagsmuni Íslands gegn erlendum þjóðum.

Með þessu er þó ekki allt sagt, sem segja má um þetta mál. Ég man það enn, þegar við hv. þm. unnum saman og þá líka í utanríkismálum. Ég man það líka, að ég spurði hann þá, hvort ég mætti treysta einlægni hans á því sviði. Hann lofaði mér því. En reynsla mín af honum hefur bannað mér að gera það framar. Hv. þm. spurði að því, hvað hefði skeð síðan þá. Ég er alveg sami maðurinn og ég var þá, og ég veit, að hann er enn sami gæðamaðurinn og hann var. En ég hef bara bilað í trúnni, að honum megi treysta á þessu sviði; mynd hans hefur breytzt hvað það snertir.

Ég endurtek það, að ef svo er, að við sem skipum forustu þessa þjóðfélags, getum ekki ráðið fram úr vanda þess, þá er það ekki af því hugarfari, sem hv. þm. gat um. En við viljum ekki heldur láta spilla fyrir hlut þess með óvönduðum fréttaburði, meðan á samningum stendur.

Ég vil minnast á það til gamans, sem hv. þm. sagði, að ég hefði sagt um sósíalista 1940, að þeir væru óalandi. Það sagði ég nú reyndar aldrei. Ég er nú ekki vanur að leggja á minnið, hvað ég segi, en það vill nú svo vel til, að ég man, hvað ég sagði í þessu tilfelli. Ég sagði, að það gleddi mig, að sósialistar skyldu vera til, því að einhvers staðar yrðu vondir að vera. En þeir breyttu um skoðun. Það þarf ekki að vitna til þess, hvernig þeir breyttu um skoðun við það, að Hitler samdi við Rússa, og svo aftur eftir að Rússar og Þjóðverjar voru komnir saman í stríð. Ef þeir vildu nú taka sömu sinnaskiptum og þeir gerðu þá, skyldi ég verða fyrstur til að bjóða þessa glötuðu syni velkomna heim.

Ég man ekki svo glöggt, hvað ég kann að hafa sagt um kommúnista á árunum 1939–44, þegar hv. þm. segir, að mig hafi farið að langa til að semja við þá. En ég man ekki heldur glöggt, hvað þessi hv. þm. sagði um mig á þessum sömu árum. Mig minnir, að þá væri herra Ólafur Thors Kveldúlfsþorpari og þjófur ekki sérlega hátt skrifaður, en svo urðu þessir sömu menn til að setja mig í forsætisráðherrastól, og enn þá er ég sá sami Ólafur og ég var þá. Ég hugsa nú, að þetta yrði nokkuð kaup kaups, ef allt yrði saman tínt.

Það er alveg rétt, að ég kvaddi ekki kommúnista til ráða, þegar ég gerði Keflavíkursamninginn, og ég harma, að ég skyldi ekki geta gert það. En þá var vaknaður grunur minn um það, að við þá væri ekki hægt að hafa samstarf um utanríkismál. Það má vel vera, að hann þyrfti um margt að breytast, en einmitt fyrir þá ástæðu, að þeir voru ekki þar til ráða kvaddir, er honum þó um minna ábótavant.

Önnur atriði í ræðu hv. þm. voru um það, hvað hafi gerzt á fundi utanrmn. 1945, hverjir þá hafi verið bjartsýnir um verðlag og hverjir ekki. En það hugsa ég að verði mér aldrei til aldurtila, að ég verði talinn um of svartsýnn, heldur hef ég þótt bjartsýnni en efni stæðu til.

Þá má geta þess, sem hv. þm. var að tala um, að vel gæti svo farið, að sósíallstar bættu við sig tveimur þm. Ég held, að fjölgunin yrði nú að verða nokkuð ör til þess, að þær vonir gætu staðizt. — Ég held það hafi verið lagaprófessor, sem sagði við nemanda sinn: Hvað segðir þú, ef þú t.d. lánaðir mér 10 krónur, svo færum við til altaris saman, svo þegar við erum að bergja á kaleiknum, þá rétti ég þér 10 krónur og borgaði þér skuldina? Er það þá lögformlegt tilboð um greiðslu skuldarinnar? Nemandinn gaf þá hið fræga svar: „Ég held, að maður verði að vona, að þetta komi ekki fyrir.“ Ég skal ljúka þessum orðum mínum með því að segja: Ég held, að maður verði að vona, að þetta komi ekki fyrir, að sósíallstar vaxi svo á þingi, að þeir bæti við sig manni.