29.11.1951
Neðri deild: 35. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í B-deild Alþingistíðinda. (1287)

101. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. minni hl. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Það var ekki ýtarlega fram talið hjá hv. frsm. meiri hl., en frá hans sjónarmiði sennilega bezt að hafa sem fæst orð.

Það er óneitanlega dálítið einkennilegt að fara að breyta 1. mgr. 16. gr. l. um þingsköp þannig, að utanrmn., sem nú er skipuð 7 aðalmönnum og 7 til vara, verði látin vera nokkurs konar millinefnd, sem á að kjósa úr sínum hópi 3 aðalmenn og 3 til vara, er séu ríkisstj. til ráðuneytis um utanríkismál, jafnt milli þinga sem á þingi. Þannig á 7 manna n. að kjósa úr sínum hópi á menn, því að varamenn verða auðvitað að taka þátt í störfum n. til að kynna sér öll mál sem bezt, ef þeir eiga raunverulega að gegna þeim störfum, sem n. er ætlað. Ég býst við, að þetta sé algert einsdæmi, og þar að auki er málið þannig vaxið, að það virðist hreinn barnaskapur. Utanrrh. hefur kallað utanrmn. á sinn fund, þegar honum hefur sýnzt, og virðist því ekki þurfa lagabreytingu til þess að útiloka, að fulltrúi Sósfl. í utanrmn. fjalli um viðkvæm utanríkismál. Þetta hefur verið gert þrátt fyrir það, að skýr ákvæði séu um það í þingsköpum, að öll utanríkismál skuli lögð fyrir n., jafnt milli þinga sem á þingi. Það er vissulega einkennilegt, að farið skuli vera á flot með annað eins mál og þetta og annað eins orrustuskip og hæstv. atvmrh. skuli vera settur til að fylgja því fram, og eins og ég sagði áðan, er það næsta einkennilegt að koma með þetta frv. til að útiloka fulltrúa sósíallsta í utanrmn. og útiloka þann rétt, sem þingstyrkur flokksins veitir honum.

Það væri gaman að vita, til hvers þetta mál er flutt. Eins og ég hef áður sagt, þá hefur sú venja tíðkazt undanfarin ár, að utanrmn. hefur alveg verið hunzuð af utanrrh., og ég get ekki séð annað en að frv. sé flutt til að sýna mönnunum, sem borga dollarana til baráttunnar við kommúnista í hinum ýmsu löndum, að það sé nú einnig barizt á Íslandi. Og þegar farið var að leita að einhverju baráttuefni hér, var rekizt á þessa gr. í þingsköpum og frv. flutt um það hér á Alþ. að bola þessum eina fulltrúa Sósfl. úr utanrmn. Þetta er nú gott og blessað, ef hægt er að slá út á það dollara.

En þetta mál hefur einnig sínar alvöruhliðar. Þetta er skref í þá átt, sem byrjað er á í U.S.A. og þeim ríkjum, sem hlýða kalli þaðan. Það er verið að ganga lengra og lengra í þá átt að afnema lýðræðið, og allt á þetta að vera gert til að vernda lýðræðið. Það er einstæður viðburður í sögu Alþ., þegar verið er að bola þessum eina manni úr utanrmn. og það manni, sem er ekki einu sinni flokksbundinn í Sósfl., heldur hefur flokkurinn falið honum þetta trúnaðarstarf. Þetta er mjög alvarlegt brot á lýðræðisreglunum, og ég verð að láta í ljós undrun mína á því, að flm. skuli auglýsa svona afstöðu sína til lýðræðisins í svona máli, og ég efast ekki um, að ef þeir teldu meira í húfi, þá bæru þeir ekki mikla virðingu fyrir lýðræðinu. Ég hef áður bent á, að það hefur aldrei komið fyrir áður í sögu Alþ., að þingflokkur hafi verið sviptur þeim rétti, sem þjóðin hefur veitt honum, og það á jafnklaufalegan hátt og ráð er fyrir gert í þessu frv.

Það var ekki hægt að greina annað en að hæstv. atvmrh. væri dálítið feiminn, er hann flutti framsöguræðu sína í þessu máli. Ég lái honum það ekki, því að mér finnst þetta mál ekki samboðið honum. Hann sagði í framsöguræðu sinni, að flm. hefðu ekki séð ástæðu til að breyta afstöðu sinni til Sósfl. Ekki veit ég, hvað liggur í þessum orðum, en ef maður athugar nú afstöðu hæstv. atvmrh. til þessara ódáðamanna, þá kemur ýmislegt fram. Ég man ekki betur en að hann árið 1942 í sambandi við gerðardóminn talaði um, hvers konar svín kommúnistar væru. En hann breytti nú aftur um skoðun, eins og allir vita, og sat í stjórn með þeim í tvö ár við mikinn orðstír, og nú hefur hann aftur breytt um skoðun. Ég vil leyfa mér að kalla þessi skoðanaskipti hæstv. atvmrh. línudans. Þegar Bandaríkin eru í samvinnu við Rússa, þá eru sósialistar alls ekki svo slæmir. Þetta sýnir vel, hvernig íslenzkir stjórnmálamenn eru undir áhrifum erlendis frá. Það má segja um aðra flm., að þeir séu ekki saklausir heldur. Ég man ekki hefur en hæstv. fjmrh., sem er 2. flm. þessa frv., hafi skrifað heila bók til að afsaka, að það væri ekki sér að kenna, að Framsfl. hefði ekki myndað stjórn með Sósfl. Eins ef maður tekur 3. flm., hv. 8. landsk. Hann er að vísu ekki viðstaddur, en ég býst við, að hann sé sá eini, sem sómir sér vel. Hann hefur ekki tekið nein hliðarspor, og það var víst þess vegna, sem hæstv. atvmrh. og hæstv. fjmrh. lögðu hann í einelti í síðustu útvarpsumræðum. Þó hefði það ekki gefið tilefni til umr., ef hv. 8. landsk. hefði verið einn með þetta frv. En hæstv. atvmrh. og hæstv. fjmrh. flytja frv. með honum, og mér finnst nokkuð mikið í borið að hafa svo mikla flm. á ekki stærra máli.

Ég ætla ekki að ræða frv. neitt frekar, það er búið að ræða það áður, og það mun ákveðið, að það verði samþ., enda tjáði hæstv. atvmrh. mér, að hann væri ábyrgur fyrir málinu. Ég vil því bara undirstrika afstöðu okkar sósíalista til málsins.

Með þessu frv. er verið að þverbrjóta eðlilegar lýðræðisreglur. Á þennan hátt mætti svipta sósíalista störfum í öðrum n., t.d. í fjhn., með því að ákveða, að þeir fimm menn, sem þar eiga sæti, skuli kjósa fjóra til þess að fjalla um málin, og í fjvn. með því að ákveða, að þeir níu menn, sem þar eiga sæti, skuli kjósa átta menn til þess að fjalla um fjárl.

Hv. flm. segja, að sósíalistum sé ekki trúandi í utanríkismálum. En í fyrsta lagi er það nú á valdi hæstv. ríkisstj., hvaða mál hún leggur fyrir utanrmn., þó að eðlilegra væri, að það væri ákveðið í l., og í öðru lagi er það ekki hlutverk hæstv. ríkisstj. að dæma um það, hvort einhverjir þm. séu þannig gerðir að ekki sé hægt að treysta þeim. Á meðan við höfum þingræði, ákveður þjóðin, hvaða fulltrúa hún sendir á þing, og þeim fulltrúum, sem hún kýs, veitir hún um leið skýlausan rétt til að sitja í n. og gegna öðrum skyldustörfum sínum á Alþ.

Hundakúnstir eins og óbeinar kosningar í sambandi við n. eru ólýðræðislegar, og þeir, sem vilja koma slíku skipulagi á, ættu sem minnst að tala um einræði, þar sem þeir þverbrjóta þær reglur, sem þeir sjálfir telja að einkenni hið eina sanna lýðræði. Ef meiri hl. á þingi á að geta útilokað minni hl. frá því að sitja í n., þá er þingræðið orðið hjóm. Frv. bendir til þess, að ætlunin sé að gera þetta, og má þá væntanlega búast við frekari tíðindum.

Báðir hæstv. ráðh. töluðu mikið um ást sína á lýðræðinu, en töldu, að Sósfl. væri einræðisflokkur. Ég býst nú við því, að flestir muni dæma þá frekar eftir gerðum þeirra en því, sem þeir segjast vera. Í þessu máli erum við á móti því, að einn flokkur, sem á 9 menn af 52 á þingi, sé sviptur rétti til að hafa fulltrúa í n. Sósíalistar hafa alltaf verið á móti því, að minni hl. væri beittur bolabrögðum. Það hefur verið prinsip Sósfl., og þess vegna hefur flokkurinn alla tíð barizt gegn hverri skerðingu á lýðræðinu. Hins vegar hafa nú forustumenn hinna svokölluðu lýðræðisflokka beitt sér fyrir því að gera form lýðræðisins innantóm með því að koma á óbeinum kosningum.

Það virðist vera skoðun hv. flm., að ef ætlunin er að semja við eitthvert erlent ríki, þá megi enginn koma þar nærri nema þeir, sem vilja gera samninga. Nú er það eðli þingræðisins, að hlustað sé á minni hl. í hverju máli, sem til umr. kemur. Og það er hvergi eins þýðingarmikið, að þessari reglu sé fylgt, og einmitt í utanríkismálum. Ég gæti trúað því, að hæstv. atvmrh., sem stendur í miklu pólitísku þrasi, hafi lítinn tíma til að kynna sér erlend stjórnmál, en hann ætti að kynna sér nánar þá stefnubreytingu, sem nú er að verða í Englandi. Hver sá, sem fer með utanríkismálin, er skyldugur til að hlusta á, hvað stjórnarandstaðan hefur að segja. Eins og nú er, er afstaða okkar til Bandaríkjanna stórhættuleg, og það eru tveir eða þrír menn, hæstv. atvmrh., hæstv. utanrrh. og ef til vill hæstv. fjmrh., sem öllu ráða um hana. Þegar þeir hafa tekið ákvörðun, eru málin lögð fyrir þingið, og þá eru hendurnar á lofti eða þm. fá leyfi til að vera heima. Að greiða atkv. á móti kemur ekki til mála.

Það segir sig sjálft, að þetta er hættulegur línudans. Það er hættulegt að líta á Bandaríkin sem góðgerðafélag, sem sjálfsagt sé að Íslendingar njóti góðs af. Þegar forustumenn þjóðarinnar halda, að í utanríkismálum ráði góðgerðasjónarmið, þá er komið út á hálan ís. Þar er fyrst og fremst um hagsmunasjónarmið að ræða, og gildir í því efni hið sama um öll ríki. Íslendingar verða því að vera kaldir og ákveðnir og mega ekki falla í stafi af hrifningu yfir því, að verið sé að gefa þeim eitthvað. Það er miskunnarlaust haldið í spottann og ekkert gefið án þess að annað komi á móti. Ég býst við því, að Bandaríkjamönnum þyki hag sínum vel borgið með þeim vígstöðvum, er þeir hafa fengið á Íslandi, ekki sízt þar sem Churchill virðist vera á móti atómstöðvum í Bretlandi. Þeir telja sig efalaust hafa fengið þær „billega“, þó að þeir hafi kastað hingað nokkrum hundruðum millj. kr. Það hefur ekki verið nein góðgerðastarfsemi, þeir hafa t.d. borgað miklu meira til Breta, og nú vilja Bretar, að þeir flytji burt atómstöðvar þær, sem þeir hafa haft í Bretlandi, þar sem þeir óttast, að atómsprengjum verði kastað þaðan án leyfis brezku stj.

Það er full þörf á því, að utanrmn. starfi öll og að hæstv. ríkisstj. geri sér það ljóst, að hyggilegt sé að hlusta á allar mótbárur. Hvað það .snertir, er þetta frv. óhyggilegt og hefur það í för með sér, að afstaða okkar til Bandaríkjanna verður enn einstrengingslegri, þar sem ekki má einu sinni hlusta á, hvað sósíalistar hafa að segja.

Við sósíalistar höfum alltaf lagt áherzlu á það, að landið verði ekki um of háð neinni erlendri þjóð. Þetta er þýðingarmeira fyrir smáþjóðir en stórþjóðirnar. Ef þess er ekki gætt, er stórkostleg hætta á ferðum, því að aðstaða okkar er ekki sterk. Því miður hefur þessa ekki verið gætt. Bandaríkin hafa fengið allar óskir sínar uppfylltar, ég veit ekki til þess, að þau hafi farið fram á neitt, sem þau hafa ekki fengið. Við erum orðnir aðilar að Kóreustríðinu, og við höfum samþ., að Grikkir og Tyrkir fengju inngöngu í Atlantshafsbandalagið. Ef til átaka kemur við landamæri þessara ríkja, geta því Bandaríkin sent héðan flugvélar með atómsprengjur til þess að skakka leikinn. Hvaða vit er í þessu? Það er einmitt þetta, sem brezka íhaldsstjórnin er orðin hrædd við. Hún vili nú ekki taka þátt í Evrópuhernum og vill ekki, að Bandaríkjamenn hafi bækistöðvar í Bretlandi fyrir kjarnorkusprengjuflugvélar sínar. Íslendingar ættu að halda sér utan við deilur stórveldanna. Ef þeir gera það ekki, getur það leitt til stórkostlegra vandræða. Það er ekki einhlítt að fylgja í einu og öllu línu Bandaríkjanna, það gæti farið illa, þó að við verðum að vona, að þrátt fyrir það dragi ekki til stórkostlegra átaka hér á landi. En þjóðir, sem telja hundruð milljóna, mundu efalaust ekki telja það mikið, ef til átaka kemur, þótt íslenzka þjóðin minnkaði um helming. Það eina, sem við getum gert, er að reyna að halda okkur utan við. Ef við reynum það, þá erum við að minnsta kosti ekki móralskt ábyrgir, en enginn gæti krafizt þess, að við hefðum styrk til að verja okkur. Með þessu frv. er verið að þagga niður þá einu rödd, sem hreyft hefur andmælum gegn stefnu hæstv. ríkisstj. í utanríkismálum. Þessi stefna hefur verið hlægilegur linndans eftir tónum frá Bandaríkjunum, og það er efalaust met á heimsmælikvarða, hvernig Bandaríkin hafa „dírígerað“ ráðamönnum á Íslandi.

Ég vil beina því til hæstv. atvmrh., að hann fylgist með því, sem nú er að ske í Bretlandi. Þar er nú komin til valda stj., sem hann efalaust telur sér skylda í skoðunum, og það er ekki ólíklegt, að einmitt frá Bretlandi megi vænta till. í þá átt að leysa þann hnút, sem vigbúnaðarkapphlaupið hefur riðið. Hæstv. atvmrh. ætti því að hafa vakandi auga á því, hvernig Bretar reyna að stinga við fótum; ég býst við, að þeir hafi nú bezta aðstöðu til að miðla málum og minnka spenninginn milli Ráðstjórnarríkjanna og Bandaríkjanna. Vígbúnaðarkapphlaup hafa aldrei endað nema með stríði. Þau hafa ekki tryggt varanlegan frið, en þegar þau eru hafin, er tilgangurinn aldrei talinn sá að stofna til styrjaldar, heldur varanlegs friðar. Þannig er það með Atlantshafsbandalagið. En ef þetta vígbúnaðarkapphlaup er ekki stöðvað, er ég hræddur um, að það endi með stríði, og Íslendingar hafa þá brugðizt ætlunarverki sínu og sjálfum sér með því að gerast dautt atkvæði og leiksoppur, í stað þess að standa utan við og reyna að stuðla að því í samvinnu við önnur smáríki að fyrirbyggja vígbúnaðarkapphlaupið. Því miður hafa þeir stjórnmálamenn okkar, sem með þessi mál hafa farið, reynzt smápeð. Og þetta er gremjulegt, þar sem vitað er, að sumir þeirra eru gáfumenn, sem hefðu getað látið gott af sér leiða, ef þeir hefðu gert það, sem þjóðinni var fyrir beztu, og aldrei hvikað frá því að setja íslenzkan málstað ofar öllu.