29.11.1951
Neðri deild: 35. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í B-deild Alþingistíðinda. (1293)

101. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja örfá orð. Ég get alveg leitt hjá mér umr. um það gamla heimili, sem einu sinni ríkti hér, og læt það alveg umtalslaust. Aðeins vegna þess, að hv. 2. þm. Reykv. taldi að með þessu frv. væri verið að uppræta það að vísa utanríkismálum til utanrmn., vil ég lesa upp 16. gr. þingskapa, sem hljóðar um utanríkismál. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Til utanrmn. skal vísað utanríkismálum. Utanrmn. starfar einnig á milli þinga, og skal ráðuneytið ávallt bera undir hana utanríkismál, sem fyrir koma milli þinga.“ Svona hljóðar 16. gr. um þetta, en í frv. hljóðar þetta svo: „Til utanrmn. skal vísað utanríkismálum. Utanrmn. skal kjósa 3 af nm. með hlutfallskosningu og jafnmarga til vara, er séu ríkisstj. til ráðuneytis um utanríkismál, jafnt milli þinga sem á þingtíma.“ Eina breyt. á þessu ákvæði er sú, að á milli þinga mundu 3 menn, sem kosnir yrðu, fjalla um þessi mál og vera ríkisstj. til ráðuneytis. Það er lagaleg skylda eftir sem áður að vísa málum til n. Ef hv. þm. óttast, að eftir ákvæðum þessa frv. verði ekki farið, bjargar það því ekki við, að ekki sé hægt að brjóta þau ákvæði þingskapa, sem nú eru í gildi. Það er fjarri öllu lagi, og skyldan er skýlaus. (EOl: Hún er alveg farin.) Hv. 2. þm. Reykv. ætti ekki að leika það hlutverk hér að segja, að skyldan sé ekki augljós. (EOl: Vill hv. þm. lesa seinni hlutann aftur?) Ég get gert það fyrir hv. 2. þm. Reykv., en ég býst við, að hann öðlist ekki frekari skilning á þessu við það. Hann mun hafa frv. við höndina, og vil ég ráða honum til að lesa það, ef hann telur, að ekki sé skylt samkvæmt þessum ákvæðum að bera utanríkismál undir utanrmn. (EOI: Milli þinga? Hvar stendur það? Það stendur hvergi.) Hann getur þráazt eins og hann vill, en þetta stendur skýlaust. Það breytir ekki neinu, þó að hann þræti um þetta efni.

Ég skal ekki fara frekar út í umr. um þetta mál, það getur hver haft sína skoðun á þessu eftir því; sem honum finnst ástæða til, en það er kátbroslegt að heyra af vörum sósíalista, að þeim hafi þótt góð stjórn utanríkismálanna í tíð nýsköpunarstjórnarinnar. Það er einmitt margs að minnast í sambandi við þann viðskilnað. (Atvmrh.: Þetta var heiðursstjórn.)