11.12.1951
Efri deild: 41. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

141. mál, fiskveiðisjóður Íslands

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Það verður að skoðast sem lofsverð viðleitni ríkisstj. að hafa borið þetta mál fram og þá sérstaklega þess ráðh., sem það gerir, hæstv. atvmrh. Það er gert til þess að greiða eitthvað úr fyrir þeim mönnum, sem hafa verið svo óheppnir að kaupa báta með vélum, sem eru svo lélegar, að þær svíkja sína eigendur. Ég vil ekki fara að gagnrýna þörfina, sem á þessu ér, en mér þykir hlýða að minnast nokkuð á gang þessa máls.

Það hefur oft heyrzt og komið fram mikil gagnrýni á því, að sjómenn hér á landi væru með margbreytilegar óskir hvað snerti vélar og vildu vera með margar tegundir af vélum. Þetta er sjálfsagður réttur, sem engin ástæða er til að láta af hendi. En engu að síður hafa komið fram raddir um það, að réttast væri að taka hann af með lagavaldi og lögbjóða, hvaða vélar skyldu fluttar til landsins. Hér er að mínum dómi hættuleg stefna, ef það opinbera ætlar af takmarkaðri þekkingu að fara að vasast í þessum málum:

Hér eru nú enn í dag á dagskrá þær bátabyggingar, sem fóru fram í tíð utanþingsstjórnarinnar. Einn af þeim mönnum, sem þar voru ráðherrar, er nú ráðherra í þeirri stjórn, sem nú situr. Í tíð þessarar stjórnar var í það ráðizt að kaupa báta frá Svíþjóð og samið við vélaverkstæði þar um vélar í þá. Síðar voru þessir bátar keyptir, þessir rándýru bátar, sem voru svo dýrir, að það eru ekki nokkur dæmi þess, að svo dýrir bátar hafi verið keyptir til landsins. Og það var ekki nóg með það. Það voru tekin ráðin af kaupendunum, hvaða gerð skyldi vera á skipunum og enn fremur hvaða gerð véla skyldi vera í þeim. Þarna voru fengnir til sérstakir skipabyggingafræðingar, og allt skyldi fara fram eftir kúnstarinnar reglum, sem einstakir kaupendur gátu ekkert við ráðið. En ég ætla, að það megi segja í einu orði, að þarna hafi verið framkvæmd þau verstu skipakaup, sem gerð hafa verið fyrir landið. Þarna voru byggðir tveir flokkar báta, 90 og 50–60 tonna, og vélarnar valdar í þá fyrir menn af sérfræðingum ríkisstj., svo að ekki átti nú að koma neinn kjánaskapur til greina, heldur skyldi for. sjá ríkisstj. stýra þessum málum. Hins vegar er nú svo komið, að núverandi ríkisstj. telur rétt að gera leiðar ráðstafanir til þess að skipta um vélar í þessum bátum og hjálpa eigendum þeirra til þess að fá nýjar vélar í þá. Ég skal játa, að þetta er nauðsynlegt fyrir þá menn, sem fyrir þessu hafa orðið og ráða ekki við vélarnar, en hins vegar tel ég, að leiðin, sem valin hefur verið, sé miður heppileg, og í því velgengnistekjuári, sem nú er, skil ég varla, að ekki hefði mátt fara aðra leið en þessa.

Hæstv. atvmrh. segir, að það eigi að bæta þessar ráðstafanir á kostnað fiskveiðasjóðs, en það verður þá á kostnað annarrar aðstoðar. Ég vísa þar til 8. gr. laga um hann, en þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Við fiskveiðasjóð skal stofna sérstaka deild, er hefur það hlutverk að veita 2. og 3. veðréttar lán til byggingar fiskibáta innan 150 smálesta. Til þessarar deildar ganga frá 1. jan. 1943 331/3% af tekjum fiskveiðasjóðs af útflutningsgjaldinu. Úr sjóði þessum skal veita lán til kaupa og byggingar nýrra fiskiskipa, sem minni eru en 150 smálestir brúttó.“

Þennan möguleika á nú af brýnni nauðsyn að skerða og klípa af því lánsfé, sem stofnlánadeildin hefur látið útvegsmenn fá, til þess að bæta úr villu þeirra framkvæmda, sem gerðar voru, þegar þessar vélar voru keyptar, og utanþingsstjórnin stóð fyrir.

Ég veit ekki, hvort það er öllum hv. þm. ljóst, að sú ráðstöfun, sem gerð var í tíð nýsköpunarstj., að láta byggja báta hér innanlands var mjög þörf. Ég skal játa, að á þeim tíma, sem það var gert fyrir atbeina þáverandi atvmrh., hv. þm. Siglf., var ég ekki sannfærður um, að það væri rétt, eins og ég svo varð, þegar ég sá, hvernig framkvæmdirnar urðu á þessu. Þeir bátar hafa allir reynzt mjög vel og sumir alveg prýðilega. En það er annað, að þeir menn, sem byggðu þessa báta, urðu persónulega fyrir tjóni, og það er nú verið að sækja það mál í sameinuðu þingi að líta á nauðsyn til að bæta þeim mönnum, sem smíðuðu báta á vegum nýsköpunarstj., og vona ég, að á það mál verði réttilega litið.

En nú hefur þessi smíði verið lögð niður illu heilli, og hefur nú á síðustu árum ekki verið smíðaður einn einasti bátur hér á landi, svo að ég viti til. Það kann að vera, að það sé erfitt með eik, en í tíð nýsköpunarstj. var keypt í einu lagi mikið af eik til þessara bátasmíða, en hún er hins vegar dýr nú, enda hefur enginn bátur verið smíðaður.

En svo er annar þáttur, og hann er sá, að mótorbátar ganga úr sér á ýmsan hátt. Þeir eldast, farast og verða fyrir ýmiss konar óhöppum, svo að það þarf alltaf að endurnýja flotann árlega. Sjálfur hef ég starfað að því undanfarið að fá leyfi fyrir dönskum bátum handa mönnum í mínu kjördæmi. Ég skal nú ekki fara að lasta fjárhagsráð né telja fram það, sem því kann að vera til minnkunar, en það verð ég að segja, að það er fyrirhöfn og erfiðleikar á því að fá það og hæstv. yfirvöld til þess að leyfa þennan innflutning. En þá kemur það, að þeir, sem nú eru að kaupa báta erlendis frá, eiga ekki von á sama styrk frá fiskveiðasjóði og verið hefur, og það er full ástæða til, að þessi sjóður verði að draga saman seglin, ef það á að ganga á hann með að kaupa þessar vélar.

Hæstv. atvmrh. sagði, að forstjóri sjóðsins teldi, að hann mundi vel þola þetta. En hefur hann gert sér ljóst, hver þörfin er á að endurnýja bátaflotann?

Ég sé nauðsynina á, að mönnunum með ónýtu vélarnar verði hjálpað til að kaupa nýjar vélar, en ég hefði óskað, að hjálpin hefði komið í einhverju öðru formi, og ég efast ekki um, að það hefði mátt finna aðra leið. Og ég verð að segja það við hæstv. ráðh., að mér finnst tími til kominn, að menn athugi möguleika á því að skapa skilyrði fyrir bátabyggingar innanlands að nýju. Þó að ekki væri hægt að aðstoða þá á sama hátt, þá gæti verið ýmislegt í því, svo að þeir gætu hafið bátabyggingar að nýju, því að það er fengin full vissa fyrir því, að það er einmitt mikil þörf fyrir endurnýjun á bátum milli 30 og 60 tonna á hverju ári.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál, það fer til nefndar, sem ég á sæti í, en ég hygg, að það væri ekki óeðlilegt, þó að menn athuguðu möguleika á því að skerða ekki getu fiskveiðasjóðs um of.