11.12.1951
Efri deild: 41. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

141. mál, fiskveiðisjóður Íslands

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tala langt mál. — Ég tel það eðlilegt, að ráðh. fari þessa leið. Þessi mál tilheyra fiskveiðasjóði, og það þess vegna fullkomlega eðlilegt, að hann sé látinn sinna þeim. — Annars stóð ég upp út af ræðu hv. þm. Vestm. Hann benti á þá sorglegu reynslu, sem af þessum vélakaupum er fengin, og benti á, hvað það er hættulegt, að ríkisvaldið sé að vasast í þeim málum. Ég vil leyfa mér að benda honum á önnur rök en þau, sem hann gat um.

Þegar lögin um ákvæði við íslenzkar siglingar voru sett, var uppi deila um það, hvort veita ætti mótoristum aukinn rétt við siglingar, án þess að þeir hefðu aukna fræðslu, og niðurstaðan varð sú, að þessi réttur var veittur. Mín skoðun í þessu máli hefur hins vegar reynzt rétt, en ég hélt því þá fram, að í þessu væri fólgin aukin hætta, að láta menn, sem ekki hafa kunnáttu til að fara með stórar vélar, fá rétt til að stjórna þeim. Þá vil ég einnig benda á, að þegar þessi l. voru rædd 1948, þá átti enn að hækka réttindi þessara manna, og það var eingöngu vegna samstarfs við forseta sameinaðs þings, að hægt var að koma í veg fyrir þá samþykkt. Þá var það ákveðið að setja milliþinganefnd til að fjalla um þetta mál, og það var einmitt vélfræðingur fiskveiðasjóðs Íslands, sem klauf nefndina, með því að hann vildi berja enn fram aukin einkaréttindi fyrir mótorista. En þetta mál þarf nauðsynlega að leysa með því að stíga sporin til baka, sem stigin hafa verið í þessu máli. — Ég vildi láta þetta koma fram, vegna þess að hv. þm. virðist hafa aðra skoðun á málinu og til að benda á það, að þannig ber ekki að fara með mál hér á Alþ. Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að þessar vélategundir eru heimskunnar, en vélarnar krefjast ákveðinnar sérþekkingar, sem hefur ekki verið látin í té vegna afskipta Alþ. af málinu og sérstaklega hv. þm. Vestm.