26.11.1951
Neðri deild: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (1370)

114. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Við þetta frv., sem hér liggur fyrir, flytur landbn. nokkrar brtt., og er það sökum þess, að þegar n. barst frv. í hendur, var orðið alláliðið þings, og taldi n. rétt að fresta ekki afgreiðslu þess, en á hinn bóginn voru brtt. ekki fullgerðar, og þótti þá rétt að bera þær ekki fram fyrr en við 2. umr., og fengist þá betri tími til að ganga frá þeim. Þetta er ástæðan fyrir því, hvað þessar brtt. koma seint fram.

Um breytingarnar sjálfar er það að segja, að í núgildandi l. er gengið út frá því, að maður, sem hyggst reisa nýbýli og fær samþykki hlutaðeigandi aðila til þess, fái ekki styrk úr nýbýlasjóði, fyrr en hann hafi reist byggingar á jörðinni. Þetta leggur landbn. til að verði fært í betra horf. Af þessum ástæðum hefur ekki verið hægt að veita mönnum styrk til að byrja á nýbýlum sínum, ef þeir hafa byrjað á að rækta jörðina; m.ö.o. hefur ekki verið hægt að veita mönnum styrk til að gera það býli, sem væntanlega bæri íbúðarhús. Það má segja, að með l. hafa menn verið knúðir til að byrja á öfugum enda, þ.e., í stað þess að byrja á að rækta jörðina hafa menn orðið að byrja á að reisa íbúðarhús. Nú er það svo víða, að ungir menn hugsa sér að fá hluta af jörð föður síns til þess að reisa nýbýli á. Þessir menn hafa oft góða aðstöðu til að byrja þegar á ræktuninni, áður en þeir geta lagt í byggingar; geta með öðrum orðum verið búnir að koma upp lífvænlegu býli, þegar hægt er að fara að leggja í byggingu íbúðarhúss. Höfuðbreyting n. á frv. stefnir í þá átt að leiðrétta þetta, þ.e. að gera mönnum kleift að verða aðnjótandi styrks til að koma upp nýbýli, áður en lagt er í byggingar á jörðinni. En það, sem veldur einkum erfiðleikum í sambandi við þetta ákvæði, er það, að ef til vill má gera ráð fyrir, að ýmsir mundu misnota þessa aðstöðu þannig, að þeir muni kannske aldrei byggja á þeirri jörð, sem þeir hafa fengið styrk til að rækta. Til þess nú að reyna að koma í veg fyrir það, að slík misnotkun eigi sér stað, leggur n. til, að lögfest verði nokkur ákvæði í þessu skyni, og eru þau prentuð í liðunum a–d á þskj. 249. Þar eru jafnframt þau viðurlög, sem við liggja, ef út af yrði brugðið, og eru þau í þá átt, að styrkþegi skuli endurgreiða ræktunarstyrkinn með 5% vöxtum, ef hann hafi ekki reist nauðsynlegar byggingar á landinu innan ákveðins tíma frá því að styrkurinn var fyrst greiddur, og í öðru lagi, að stofnandi nýbýlisins skuli setja land sitt að veði sem tryggingu fyrir því, að staðið verði við þessar skuldbindingar. Þessi atriði, sem ég hef nú drepið á, eru meginefni brtt. þeirra, sem landbn. leggur nú fram.

Þess skal að lokum getið, að þegar gengið var frá þessu frv., gat einn nm., Ásmundur Sigurðsson, þess, að hann gæti ekki fellt sig við öll atriði frv. og hann hefði sínar aths. að gera við það. Aðrir nm. voru sammála um afgreiðslu þess. Ég óska svo, að málið verði látið ganga áfram.