26.11.1951
Neðri deild: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (1371)

114. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Frsm. þessa máls gat þess í lok ræðu sinnar, að ég mundi ekki vera að öllu leyti sammála öðrum nm. um málið og hefði mínar aths. að gera við það. Þetta er alveg rétt. Þegar frv. var tilbúið og ákveðið að flytja málíð, taldi ég mig hafa óbundnar hendur um afstöðu til þess eins og það var í fyrstu, en ég lagði þó ekki á móti flutningi þess. Nú hefur landbn. gengið frá nokkrum brtt. við frv, og prentað á þskj. 249, og gekk hún frá þeim á fundi, sem ég gat af óviðráðanlegum ástæðum alls ekki mætt á, þar sem ég var þá á ferð í Vestmannaeyjum, og við þessar brtt. hef ég sitt hvað að athuga, ekki síður en frv. sjálft. Mér þykir það ekki vera rétt af hinum fjórum meðnm. mínum að gefa út þskj. með brtt. í nafni allrar n., þegar þær till. eru afgreiddar á fundi, sem ég hafði engin tök á að mæta á og mér var ekki einu sinni boðaður.

Þá skal ég víkja lítillega að frv. sjálfu. Það er flutt í þeim tilgangi að vinna að fjölgun býla í landinu og hindra það, að byggilegar jarðir standi í eyði. Tilgangurinn út af fyrir sig getur verið ágætur. En hér er gert ráð fyrir því, að stofnun, sem nýbýlastjórn heitir, hafi með höndum að annast framkvæmd l., og sýnist mér, að þá eigi að fara að blanda henni inn í mál, sem hún eigi mjög erfitt með að framkvæma. Það er gert ráð fyrir því, að nýbýlastjórn geti og henni beri að skipta sér af því, hvort í eyði falla jarðir, sem eru í eigu ýmissa einstaklinga. Það eru til önnur l. um þetta efni, þ.e. ábúðarlögin, þar sem það er sett í verksvið einstakra hreppsnefnda að líta eftir þessum málum. Því er ég algerlega mótfallinn að fara nú að blanda nýbýlastjórn inn í þetta atriði. Þau rök, sem færð hafa verið fram til stuðnings þessu atriði, eru þess efnis, að þarna þurfi að koma annað til en hreppsnefndirnar, vegna þess að persónulegar aðstæður geti oft komið í veg fyrir, að hreppsn. hafi tök á að hindra, að jarðir falli í eyði, þar sem þær geti með því lent í andstöðu við eigendur jarðanna, sem geti verið óþægilegt. Ég vil segja það, að ég álít mjög vafasamt að ætla að fara að skella þessum vanda á herðar nýbýlastjórnar, og það muni einungis verða til þess að gera hana óvinsæla. Í öðru lagi tel ég, að ekki sé rétt að gera jafnmikið úr því og ýmsir hafa gert og gert er í frv., að góðar jarðir megi alls ekki leggjast í eyði. Ég álít tvímælalaust, að góðar jarðir standi yfirleitt ekki í eyði. Það hefur að vísu komið fyrir, að þær hafa lagzt í eyði um tíma, en þær hafa þá byggzt aftur. Ég veit t.d. um eina góða jörð, sem lagðist í eyði um tveggja ára skeið, en nú er hún byggð aftur.

Þetta vildi ég segja um frv. sjálft, og nú vil ég minnast fáum orðum á brtt. þær, sem meiri hl. n. hefur nú lagt fram. Hv. frsm. lýsti því, að brtt. væru gerðar í þeim tilgangi að skapa mönnum möguleika á að fá styrk til ræktunar nýbýlanna, áður en hafizt yrði handa um byggingarnar, og rökin, sem hann færði fyrir þessum brtt., voru í þá átt, að nauðsynlegt væri í mörgum tilfellum að ljúka jarðræktinni áður en byrjað yrði að reisa byggingarnar. Nú vil ég benda á, að erfiðasta viðfangsefnið í sambandi við stofnun nýbýlis er að koma upp byggingunum, en ekki jarðræktin. Auk þess hafa þeir, sem byrja á ræktuninni, rétt til að fá venjulegan jarðræktarstyrk, og álít ég, að sá styrkur muni nægja þeim, unz þeir leggja í byggingar. Í öðru lagi tel ég, að langt sé frá því, að ákvæðin, sem felast í a—d-lið á þskj. 249, geti tryggt það, að misnotkun í þessu efni eigi sér ekki stað. Hér er verið að skylda nýbýlasjóð til að greiða nýbýlastyrk til aðila, sem er ekki skyldugur til að byggja á jörðinni fyrr en að 8 árum liðnum. Ég tel mjög auðvelt að misnota þetta atriði. T.d. gætu bændur látið sonu sína hafa hluta af jörðum sínum, án þess að synirnir hefðu ákveðið í huga að reisa nýbýli, og væri þannig hægt að fá styrk úr nýbýlasjóði út á ræktun jarðarinnar. Það mun vera auðvelt og nokkuð algengt, að jörð sé skipt á milli föður og sonar, án þess að sonurinn hafi gert það upp við sig, hvort hann skuli halda búskapnum áfram. Þá er sá varnagli sleginn hér í brtt. n., að ef stofnandi nýbýlis hljóti styrkinn, áður en hann byrjar á byggingum, skuli hann setja landið að veði fyrir þeim styrk, sem nýbýlastjórn hefur veitt honum, og skuli hann endurgreiða styrkinn með 5% vöxtum, hafi hann ekki reist nauðsynlegar byggingar á jörðinni að 8 árum liðnum. Það gæti því farið svo, að nýbýlastjórn þyrfti beinlínis að standa í málaferlum við að innheimta sínar kröfur, og álít ég mjög hæpið að blanda henni inn í slíkt. Og ég vil undirstrika það, sem ég sagði áðan; að sá maður, sem hefur tök á því að útvega sér land til ræktunar, getur auðveldlega unnið að ræktuninni með hjálp þess styrks, sem hann hefur samkvæmt núgildandi lögum rétt á að fá, en þarf ekki að fá greiðslur frá nýbýlastjórn, fyrr en hann fer að reisa hús á jörðinni. Reynslan hefur verið sú, að þeir, sem hafa reist nýbýli á síðari árum, hafa svo til allir viljað byrja á byggingunum, enda hefur ekki verið opinn sá möguleiki, sem hér á að fara að samþ., möguleiki, sem skapast við það, að nýbýlastjórn er skylduð til að greiða styrk til nýbýla, án þess að fullvíst sé, hvort hús verði nokkurn tíma reist á jörðinni, og ef það skyldi bregðast, þá kemur hún til með að standa í alls konar stímabraki og ef til vill málaferlum við að ná í styrkinn aftur. Það gæti verið rétt, að nýbýlastjórn greiddi einhvern styrk fyrir byggingarframkvæmdir, t.d. tveimur árum áður eða svo, en að skylda hana til að greiða styrkinn átta árum fyrir byggingarframkvæmdir er ég mótfallinn.