26.11.1951
Neðri deild: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

114. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. tók fram, hefur landbn. tekið frv. til athugunar aftur. — Ég er samþykkur brtt. á þskj. 295 og tel, að þar hefði átt að ganga lengra, en skal ekki að öðru leyti tala um það atriði. En svo hef ég lagt fram brtt. á þskj. 299 í tveimur liðum. Fyrri liðurinn er um það að hækka um eina millj, kr. hið árlega framlag ríkisins til landnámssjóðs. Í 4. gr. laga um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum er svo til tekið, að leggja skuli til landnámssjóðs 21/2 millj. kr. á ári í 10 ár. Nú eru 5 ár liðin af þeim 10, og mikið hefur breytzt á þeim tíma. Þegar þetta var samþ., voru útgjöld fjárl. innan við 200 millj. kr., og þá var hin almenna vísitala innan við eða um 200 stig. Nú eru fjárlög sýnilega að komast í 380 millj. kr. með útgjöldin, og hin almenna vísitala mundi nú vera komin í 60.0 stig, miðað við þann útreikning, sem áður var. Hér er um svo mikinn mun að ræða, að þetta fjárframlag, 21/2 millj. kr., er hlutfallslega miklu minna að verðgildi en áður. Þó hefði ég ekki flutt brtt. um þetta, ef ég hefði ekki talið gefast alveg sérstakt tilefni til þess með þeirri breyt., sem samþ. var hér við 2. umr. málsins, þegar gert var ráð fyrir að greiða nýbýlastyrkinn lengra fram í tímann en áður var. Áður var miðað við, að nýbýli væru ekki samþ. nema tvö ár fram í tímann. Nú er í frv. gert ráð fyrir, að þau séu samþ. átta ár fram í tímann, en verði brtt. n. samþ., er gert ráð fyrir, að þau verði samþ. fimm ár fram í tímann, og verður þá eðlilega að greiða styrki til þeirra samkvæmt því. Þetta mun því kalla á meiri greiðslur en áður, að minnsta kosti er mjög hætt við því. Og eins og ég gerði grein fyrir við 2. umr., getur verið mikil hætta á því, þó að sú hætta minnki nokkuð, ef samþ. er brtt. á þskj. 299, — það getur þó verið nokkur hætta á því, að nokkuð af þessum greiðslum verði aldrei til framkvæmda á nýbýlum og það geti orðið erfitt að innheimta það fé aftur, ef um slíkt yrði að ræða. Þess vegna legg ég til, að þetta tillag verði hækkað um eina millj. kr. á ári í þau fimm ár, sem eftir eru af þeim tíu ára tiltekna tíma, sem lögin taka til í þessu efni. En áður en þau fimm ár eru liðin, verður að framlengja þessi ákvæði. Ég vænti þess, að að tíu árum liðnum frá því l. voru sett verði komin sú reynsla á framkvæmd þeirra, að mönnum verði ljóst, að framkvæmd þessarar löggjafar eigi þá einnig að halda áfram.

Síðari brtt. mín er um það, að ríkisstj. skuli vera heimilt að greiða landnámssjóði af tekjuafgangi ríkissjóðs 1951 þá 1 millj. kr. af lögbundnu framlagi ríkissjóðs, er frestað var greiðslu á samkvæmt 3. tölul. 1. gr. laga nr. 50 5. apríl 1948, um bráðabirgðabreyt. nokkurra laga o.fl. Þá var nokkuð deilt um þetta atriði, og ég vænti, að sumir hv. þm, muni eftir því, að þá var það ráð tekið vegna þess, að þá þótti erfitt að koma fjárl. saman og ekki nauðsyn á að leggja þá einu millj. kr. fram á því ári. Það var frestað með lögum greiðslu á einnar millj. kr. framlagi í þessu skyni 1948 um 10 ár, þannig að það ætti aftur að greiðast 1957. Nú virðast mér ástæður ríkissjóðs vera það góðar, að ekki sé ástæða til að fresta þessari greiðslu lengur og ekki ástæða til að ætla, að betra verði að greiða þetta árið 1957. Þess vegna álft ég bezt, að þessu verði breytt með tilliti til þess, hve fjárhagsafkoma ríkisins er góð á þessu árí, því að eins og ég hef sagt, virðast líkur ekki benda til, að fjárhagsafkoma ríkissjóðs verði neitt betri árið 1957 en nú er. Ég tel mjög sanngjarnt að vænta þess, að hæstv. Alþ. sjái sér fært að samþ. þetta.