12.11.1951
Neðri deild: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (1445)

83. mál, Iðnaðarbanki Íslands hf

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki ræða það, hvort ágreiningur hefur orðið á milli bankamálaráðh. og mþn. í bankamálum. Það skiptir ekki höfuðmáli. Hins vegar hef ég áður sagt, að sé hér um mismunandi skoðun að ræða, geti það stafað af því, að hæstv. ráðh. sé ekki fullkunnugt um, hvað n. hefur gert. Hv. þm. virðist undrandi yfir því, að ég skuli láta mér þetta um munn fara. Ég vil þá minna á það, að n. hefur enn ekki gefið ráðherra neina skýrslu um störf sín, og þess er ekki að vænta, að hann viti um þau til hlítar. Ég get skýrt frá því í þessu sambandi, að eitt af því, sem gert hefur verið í þessu máli, er það, að n. ritaði bréf til allra atvinnugreina í landinu, m.a. samtaka iðnaðarmanna, varðandi skipan þessara mála.

Í ræðu þess hv. þm., sem nú talaði síðast, kom ýmislegt fram, sem ástæða væri til að gera nokkrar aths. við. Sumt bar þess vott, að þessi hv. þm. hafði ekki kynnt sér þessi mál nógu vel. Hv. þm. lét m.a. þau orð falla, að landbúnaðurinn hefði mun meira fé handa á milli, að miklu meira hefði verið varið til hans en iðnaðarins. Ég held nú, að hv. þm. ætti að kynna sér það nánar. Ég skildi hv. þm. svo, en ef hv. þm. hefur ekki meint það, þá læt ég mér það vel líka. Hv. þm. fjölyrti um það, að litið hefði verið gert fyrir iðnaðinn í landinu. Það má vera, að svo sé, en ekki er ég viss um, að hv. þm. hafi skoðað þetta ofan í kjölinn. Það er talað um það, að iðnaðinn skorti almennt lánsfé, og út frá því er verið að draga þær ályktanir, að ekkert sé fyrir iðnaðinn gert. Það vill nú svo til, að einmitt nú er verið að verja stórfé til þess að auka nýtanlega orku á landinu, og á ég þar við hina nýju virkjun Sogs og Laxár. Þetta mikla átak mun fyrst og fremst koma iðnaðinum að notum, og það er frumskilyrði fyrir því, að iðnaðurinn eflist verulega, að nægileg raforka sé allajafna fyrir hendi. Geysimikið fé hefur þannig verið lánað úr mótvirðissjóði til iðnaðarins, þ.e.a.s. til þess að skapa orku, en hins vegar hefur einnig miklu fé verið ráðstafað til þess að koma upp stóriðnfyrirtækjum úr þeim sjóði. Sumum hefur meira að segja þótt hér fullmikið að gert að ráðstafa sjóðnum svo einhliða.

Hv. þm. virtist þeirrar skoðunar, að Útvegsbanki Íslands væri fyrst og fremst banki útvegsmanna og að Búnaðarbankinn væri eingöngu banki fyrir bændur. Hann gat ekkert um Landsbankann í þessu sambandi. Hv. þm. lét svo um mælt, að það væri undarlegt, að mér, sem ætti sæti í fulltrúaráði Útvegsbankans, skyldi ekki vera þetta kunnugt. Ég vil segja hv. þm., að þetta er ekki svona. Það er ekki þannig, að iðnaðarmönnum sé neitað um lán í Útvegsbankanum, þangað til búið er að fullnægja lánsfjárþörf útvegsmanna. Það er misskilningur, ef hv. þm. telur, að svo sé. Það kann að vera svo, að í Útvegsbankanum sé heildarupphæðin af lánum til útgerðar stærst, en annars er það svo, að Landsbankinn og Útvegsbankinn lána jöfnum höndum til útgerðar, iðnaðar og verzlunar. Þetta hélt ég satt að segja, að væri alkunna. Ef það er nú svo, að hlutur útgerðarinnar er hæstur í Útvegsbankanum, má líta á það, að útvegurinn er eldri atvinnugrein hér á landi en iðnaður, og er því ekki óeðlilegt, að hann fái mikið lánsfé. Þetta þarf þó ekki að þýða það, að bankinn láni sérstaklega til hans. Lánsfjárþörf útvegsins er að jafnaði mikil, því að það er þannig með útgerðina, að hún getur yfirleitt ekki selt afurðirnar jafnóðum, og stundum getur liðið á annað ár þangað til hún getur selt þær og fær greiðslu fyrir framleiðslu sína. Þess vegna er lánsfjárþörf útvegsins meiri en annarra atvinnuvega, sem geta selt sína framleiðslu jafnóðum, og ætla ég, að þannig hafi það verið með íslenzkan iðnað. Ég ætla, að á undanförnum árum hafi verið hér skortur á mörgum þeim vörum, sem íslenzkur iðnaður framleiddi. og þess vegna var eftirspurn eftir íslenzkri framleiðslu og iðnaðarvörum. Það hlýtur að vera skiljanlegt, að lánsþörf framleiðenda, sem geta selt vöruna þannig eftir hendinni, hlýtur að vera minni en þeirra, sem verða að liggja með sínar framleiðsluvörur. Hér er eingöngu talað um rekstrarlán, en ekki stofnlán, því að frv. fjallar um rekstrarlán, ekki stofnlánadeild fyrir iðnað heldur viðskiptabanka fyrir hann. Ég er hræddur um, að einhverjir þeirra, sem hafa unnið að frv., hafi litið svipuðum augum á starfsemi viðskiptabanka og hv. þm. Hafnf. En í þeirri hugsun gætir svipaðs misskilnings og hjá þeim hv. þm. Menn láta oft glepjast af orðum og nöfnum. Búnaðarbankinn heitir Búnaðarbanki og útvegsbankinn Útvegsbanki. Fljótt á litið mætti ætla, að þessir bankar lánuðu eingöngu til landbúnaðar og útvegs, en því er þó ekki þannig varið. — Þeir, sem unnið hafa að þessu frv., segja í grg., að „lánsstofnanir telji fyrir utan sinn verkahring að greiða sérstaklega úr lánsfjárþörf iðnaðarins“. Það kann að vera rétt, að þær telji fyrir utan sinn verkahring að gefa meiri gaum að lánsþörf iðnaðarins en annarra atvinnuvega. Ef þetta er meiningin, hafa þeir nokkuð til síns máls. Hitt er fráleitt, að þessar lánsstofnanir telji fyrir utan sinn verkahring að lána iðnaðinum, eins og sýnt hefur verið fram á hér í umr. og vikið að í nál. minni hl. og umsögn bankanna um málið. Á öðrum stað í grg. segir: „lðnfyrirtæki vantar sérstaka tryggingu fyrir því, að einhver viss lánsstofnun fullnægi lánsfjárþörf þeirra, þegar erfitt er að fá lán“.

Ef þeir, sem standa að frv., hafa gert sér vonir um, að þetta frv. gæti orðið til þess, að iðnaðurinn fengi tryggingu fyrir því, að einhver viss lánsstofnun fullnægði lánsfjárþörf hans, þegar erfitt væri að fá lán, er ég hræddur um, að þeir verði fyrir vonbrigðum. Með banka, sem settur yrði á stofn samkv. þessum l., er hætt við, að þessu yrði ekki fullnægt, jafnvel þótt hann yrði öflugri en hér er gert ráð fyrir og fengi ríkisábyrgð fyrir sparifé. Það er lánsfjárskortur hér á landi, ekki eingöngu hjá iðnaðinum, heldur öllum atvinnuvegum. Það kveður við úr öllum áttum, að þeir fái of lítil lán og verði að draga saman atvinnureksturinn, því að lánsféð sé ekki aukið í samræmi við hækkað verðlag og standi rekstrinum fyrir þrifum. Mér finnst ummæli eins og eru í grg., að lánsstofnun veiti tryggingu fyrir því að fullnægja lánsfjárþörf iðnaðarins, bera of lítinn blæ af veruleikanum. Þau bera þess ekki vott, að þeir menn, sem að frv. standa, hafi gert sér eins rækilega grein fyrir viðfangsefninu og nauðsynlegt er, ef þetta mál á að koma iðnaðinum að gagni.