27.11.1951
Neðri deild: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (1464)

83. mál, Iðnaðarbanki Íslands hf

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. talaði áðan, og virtist hann lita svo á, að ósamræmi væri í 3. gr. frv., ef tveim félögum, Landssambandi iðnaðarmanna og Félagi íslenzkra iðnrekenda, er lögð sú skylda á herðar að leggja fram 11/2 millj. kr. hvoru um sig í hlutafé til stofnunar iðnbanka, en við í minni hl. iðnn. höfum lagt til, að þriðja aðilanum, S.Í.S., verði veitt heimild til að gerast hluthafi. Þetta er ofur eðlilegt, ef málið er athugað. Frv. þetta er undirbúið af fulltrúum frá tveim fyrrnefndum félögum og flutt á Alþingi eftir beiðni þeirra. Þau hafa sjálf gengið frá þessu atriði. Hins vegar liggur ekkert fyrir um það, hvort S.Í.S. sé reiðubúið til að leggja fram fjárhæð þessa eða ekki, þar sem það átti engan hlut að undirbúningi þessa frv., og það er ekki hægt fyrir hv. Alþ. að skuldbinda neinn til þess að leggja fram ákveðna fjárhæð í hlutafélag, nema fyrir liggi hans vilji. Ég gæti á það fallizt, að sú breyting verði gerð, að í staðinn fyrir skyldu hinna aðilanna verði sett heimild. Þá tel ég eðlilegt, að 3. gr. verði látin standa og S.Í.S. verði veitt heimild til þátttöku, ef það sjálft óskar þess.

Mér kemur það á óvart, að meiri hl. iðnn. skuli leggja á móti till. okkar. Ég hefði frekar haldið, að bæri að fagna því að fá þátttöku S.Í.S. í bankastofnuninni. Eins og ég benti á, þá er S.Í.S. einn stærsti iðnrekandi landsins. Í sambandinu eru 55 félög í öllum sýslum og kaupstöðum landsins, og tala félagsmanna mun vera um 30000. Mörg þessara félaga hafa talsverðan iðnrekstur, auk þess sem S.Í.S. hefur sjálft mjög mikinn iðnrekstur, og virðist þá eðlilegt, að þessum aðila verði gefinn kostur á að gerast þátttakandi, ef á annað borð bankinn verður stofnaður.

Um frv. að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að ræða, en við 2. umr. gerði ég grein fyrir skoðun okkar í minni hl. n., og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það.