27.11.1951
Neðri deild: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (1466)

83. mál, Iðnaðarbanki Íslands hf

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það, sem gefur mér tilefni til að kveðja mér hljóðs, eru nokkur orð, sem hv. 7. þm. Reykv. lét falla um það, sem ég sagði við 2. umr., er ég ræddi þetta mál nokkuð. Hv. 7. þm. Reykv. svaraði því engu þá, sem ég sagði við þá umr., og ætla ég, að hann hafi verið farinn af fundi, er ég lauk máli mínu. Við 3. umr. hefur hann svo gert að umtalsefni það, sem ég sagði við 2. umr., og er mér ekki grunlaust um, eftir því að dæma sem hv. þm. sagði, að hann hafi verið farinn af fundi, er ég ræddi sumt af þessu, eða gleymt því milli umr., enda er nokkuð um liðið. Hann virðist ekki muna það, sem ég sagði, eða ekki hafa heyrt það, þegar ég ræddi um almenna lánastarfsemi Landsbankans, Útvegsbankans og Búnaðarbankans. Þá tók ég fram alveg sérstaklega, að ég ætti eingöngu við bankana sem almenna viðskiptabanka, en ekki við stofnlánasjáði þeirra. Þegar ég sagði, að Búnaðarbankinn lánaði jöfnum höndum til ýmissa atvinnugreina, þá átti ég við, að hann lánaði úr sparifjárdeild, en ég sagði ekki, að hann lánaði jöfnum höndum úr þeim sjóðum sínum, sem sérstaklega eru ætlaðir til stofnlána fyrir landbúnaðinn. Það er þess vegna á misskilningi byggt, þegar hv. þm. segir, að ég hafi gefið í skyn, að lögin um Búnaðarbanka Íslands hafi verið brotin. Því fer vitanlega fjarri. Búnaðarbankinn er hvort tveggja sparifjárdeild með almennum baukaviðskiptum og sjóðir, sem sérstaklega eru ætlaðir til stofnlána til landbúnaðarins, og eru hinir helztu þeirra Byggingarsjóður og Ræktunarsjóður, en þessir sjóðir voru stofnaðir sérstaklega fyrir landbúnaðinn, svo sem kunnugt er. Þegar talað er um, að eitthvað sé gert jöfnum höndum, er ekki átt við, að það þurfi endilega að vera nákvæmlega jafnt, heldur að hvort tveggja sé gert nokkurn veginn jafnhliða. Hv. þm. var að lesa hér upp tölur, og ég held, að hær séu þannig, að taka megi þær með varúð. Ég veit ekki, hvaða heimild hv. þm. hefur, þegar hann er að gera sundurliðun á útlánum bankanna 30. sept. s.l. En hvaðan sem hv. þm. hefur heimildir sínar, þá er ég hræddur um, að þær séu ekki alls kostar nákvæmar, enda voru sumar þeirra talna, sem hann nefndi, nokkuð einkennilegar. Þar sem þetta kemur ekki fram fyrr en nú við síðustu umr., þá er að sjálfsögðu ekki ráðrúm til þess að afla nánari heimilda, en ég vil þó vekja athygli á því, að samkvæmt síðustu hagskýrslum voru útlán hina þriggja fyrrnefndu banka í september s.l. fram undir 1300 millj. kr., eða nákvæmlega 1288 millj. kr. Þetta eru útlán aðalbankanna þriggja, og eru sparisjóðirnir þar ekki taldir með. Sömuleiðis eru undanskilin útlán úr veðdeild Landsbankans og stofnlánadeild sjávarútvegsins og Ræktunarsjóði og öðrum hliðstæðum sjóðum. Nú virtist mér af þeim tölum, sem hv. þm. las upp, að bar kæmi ekki fram nema um 700 millj. kr. Það virðist því vanta nærri helming til, að þessi sundurliðun þm. sé tæmandi. Af því má ráða. að bessar tölur séu ekki sérstaklega nákvæmar og að nokkuð muni skorta á. að sú heimild, sem hv. þm. notaði, hafi verið nægilega traust. Ég held líka; án þess að ég hafi fyrir því nokkur gögn í höndum, að það komi ekki til greina, að útlán til landbúnaðarins hafi verið milli 80 og 60 millj. kr. í þessum tveim bönkum. Þetta kemur naumast til greina. Ég get ekki gert mér í hugarlund, á hverju þessi misskilningur kunni að byggast, en ég held, að það sé mjög hæpið, að það geti átt sér stað, að útlán úr þessum tveimur bönkum, Landsbankanum og Útvegsbankanum, til landhúnaðarins hafi verið það, sem hv. þm. nefndi, í septembermánuði s.l. Hv. 7. þm. Reykv. sagði, að útlán til iðnaðar mundu hafa verið 60–80 millj. kr. úr þessum tveimur bönkum. Hann gat þess, að þar mundu ekki hafa verið með talin lán til iðnfyrirtækja Sambands ísl.

samvinnufélaga, en upplýsti það hér áðan, að S.Í.S. væri stærsti iðnrekandi landsins. Í fyrra komu upplýsingar frá bönkunum í sambandi við þetta mál, eða um lán til iðnaðarins eins og þau voru þá talin, en það var þá tekið fram, að sú áætlun væri lauslega samin eins og allar slíkar áætlanir um skiptingu lána milli atvinnuveganna. Er ónákvæmni í sundurliðun bankanna á útlánum til atvinnuveganna og mun sérstaklega í því fólgin, að sumt af því fé, sem raunverulega er lánað til iðnfyrirtækja, er talið lánað til annarra fyrirtækja. Þannig er hlutur t.d. sjávarútvegsins talinn of stór, en hlutur iðnfyrirtækja, sem vinna úr sjávarvörum, talinn of lítill, og þetta stafar af því, að útgerðarfyrirtæki og iðnfyrirtæki, sem vinna úr sjávarafurðum, eru oft rekin af sama aðila. Það er oft sami maðurinn, sem rekur iðnfyrirtæki og sjávarútveg og jafnvel landbúnað, og það er því erfitt að greina þetta sundur, og niðurstaðan verður því talin sú, að lánið sé að mestu leyti veitt til útgerðar. — En svo að ég viki að því aftur, sem upplýst var í fyrra, þá var talið, að lán til iðnaðarins næmu um 80 millj. kr., og má með tilliti til þess, sem ég sagði um sundurliðun bankanna, ætla, að sú tala sé of lág. Það var tekið fram í fyrra og upplýst, að þarna væru ótalin lán til nokkurra stórra iðnfyrirtækja í landinu, þar á meðal lán, sem bankarnir veittu til síldarverksmiðjanna, en síldarverksmiðjurnar eru eins og kunnugt er einhver allra stærstu iðnfyrirtæki landsins.

Ég hef séð ástæðu til þess að rifja þetta upp út af því, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði áðan, og bað er rétt að hafa það, sem satt reynist í þessu efni. En tilefnið til þess að fara inn á það að gera grein fyrir því í þessum umræðum, hversu mikið fjármagn iðnaðurinn hafi í bönkum landsins, er það, að ýmsir, sem vilja vinna að vexti iðnaðarins í landinu, eru í nokkrum vafa um bað, hvort hlutur iðnaðarins yrði nokkuð betri, þótt hann fengi banka, sem héti Iðnaðarbanki Íslands. hví að starfsemi bankanna og árangur af starfi þeirra er ekki kominn undir nöfnum þeirra, heldur undir öðru meira. Því aðeins gæti iðnaðinum bætzt veltufé við stofnun bessa banka, að hann héldi þeim lánum, sem hann þegar hefur, og honum bættist þar að a nýtt fé inn í hinn nýja banka. En ýmsir hafa verið í nokkrum efa um, að hægt væri að ganga út frá því sem öruggu, að það yrði. En verði það ekki, er vandi að sjá, hvaða hagnað iðnaðurinn hefði af þessari bankastarfsemi.

Hitt er auðséð, eins og tekið var fram af hv. þm. Borgf., að í sambandi við slíka stofnum sem nýr viðskiptabanki er — og það vita allir — er mjög mikill stofnkostnaður og rekstrarkostnaður. Þennan kostnað þarf að taka af því fé, sem bankanum er ætlað, og bað hlýtur að verða nokkuð tilfinnanlegt í fyrstu fyrir stofnun. sem ekki hefur sérlega mikil fjárráð. Það virðist vera lítill vafi á því, að hað sé rétt, sem sami hv. þm. sagði, að af því fé, sem áætlað er að verja í þarfir iðnaðarins og nú er ákveðið, hvort sem þetta frv. verður samþ. eða ekki, — að af því fé verði miklu minni afföll ef því yrði ráðstafað úr iðnlánasjóðnum en ef setja þarf upp nýja stofnun til þess að ráðstafa fénu. Ég held, að eitt af því, sem þjóðina vantar sízt, séu nýir, hálaunaðir embættismenn. Víst er um það, þótt bankarnir hafi mörgum hæfum og duglegum mönnum á að skipa, að þeir embættismenn, sem starfa við bankana, eru með dýrustu starfskröftum þessa þjóðfélags. Nú vil ég engan veginn með þessu segja, að það sé alls ekki rétt að stofna iðnaðarbanka, þótt ég hins vegar hafi talið rétt að fresta málinn og gefa með því mþn. starfsfrið til að athuga málið. En ef ég kemst að þeirri niðurstöðu, eftir að málið hefur verið athugað, að rétt sé að stofna sérstakan iðnaðarbanka, þá verður það byggt á öðrum forsendum en þeim, sem formælendur frv. hér á Alþingi hafa byggt á. Sé slíkur banki stofnaður, verður það að byggjast á því, að skynsamlegt reynist að haga starfsemi viðskiptabankanna þannig, að hver fyrir sig starfi fyrir eina atvinnugrein. Þetta yrði nýmæli og mundi byggjast á því, að með því mætti velja að þessum stofnunum menn, sem sérstaklega hafa áhuga fyrir þessum atvinnuvegi, sem bankinn hefur með að gera, og yrðu því mjög kunnugir í sinni sérstöku atvinnugrein. Ég vil ekki á þessu stigi málsins fullyrða, að það væri rangt að taka upp þetta nýmæli, en ég held, að það þurfi að liggja fyrir athugun á málinu bæði hér og erlendis og að mþn. í bankamálum beri að vinna að því að afla slíkra upplýsinga.

Hv. 7. þm. Reykv. vék nokkuð að erindisbréfi bankamálanefndar, sem viðskmrh. skipaði. Hann sagði, að þeirri n. væri ætlað fyrst og fremst að athuga um stofnun sérstaks seðlabanka, hvort nauðsyn bæri til þess að koma upp slíkri stofnun. N. er einnig í sínu erindisbréfi falið að athuga sérstaklega um stofnun sérstakrar fjárfestingarstofnunar, og það má vera, að hv. þm. hafi getið þessa í sinni ræðu. En þar að auki er n. falið að athuga gildandi löggjöf um banka og sparisjóði, þ.e. þau lög. sem sett hafa verið um einstaka banka og starfsemi þeirra, og lög um sparisjóði, yfirleitt alla löggjöf, sem lýtur að bankastarfsemi. Ég fyrir mitt leyti get ekki séð, að orðalag erindisbréfs hafi getað verið rýmra en þetta, og ég veit ekki, hvað rúmt þetta orðalag þyrfti að vera til þess, að menn almennt yrðu sammála um, að bankanefndin ætti að taka til athugunar mál eins og stofnun iðnaðarbanka.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég þarf að taka fram í sambandi við þetta mál, en það er leitt, ef til þess kæmi, að þetta mál yrði samþ. í þessari hv. d., að frv. skuli ekki hafa verið tekið til rækilegri athugunar í einstökum atriðum. Til þess mun nú naumast vera ráðrúm, en það verk hefði átt að framkvæma í þeirri hv. n., sem fjallaði um þetta mál.