19.12.1951
Efri deild: 50. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (1514)

83. mál, Iðnaðarbanki Íslands hf

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það er nú svo með þetta mál sem mörg önnur, að þm. eru alveg rökheldir. Það þýðir því ekki að rökræða málið við hvern og einn. Ég vil þó ræða þetta mál lítillega.

Það er vitanlegt, að iðnaðinn skortir tilfinnanlega lánsfé. Hins vegar er þessu þó svo háttað með fleiri aðila, t.d. verzlunina. Þá hefur komið fram þetta sjónarmið til þess að ráða bót á þessu, og er þá látið líta svo út að minnsta kosti. Ég viðurkenni, að lánsfjárþörfin er vitanlega tvenns konar. Þegar athuguð er bankastarfsemi hér og annars staðar mun reynslan vera sú, að ekki hefur þýtt að starfrækja sérstakan banka fyrir sérstaka atvinnugrein að því er snertir rekstrarlán. Það hefur orðið reynslan hér og annars staðar, að allt hefur farið í annan farveg. Bankinn hefur orðið almennur viðskiptabanki og lánað atvinnugreinum almennt til rekstrar, eins og við höfum séð. Það þarf ekki annað en benda hv. þm. á þetta, til þess að þeir átti sig á því. Þessi reynsla er ekki aðeins hér, heldur einnig annars staðar. Þess vegna var það, þegar gerð var tilraun með að stofna iðnaðarbanka hér, þar sem Sparisjóður Reykjavíkur var, að hann er vaxinn í annað. Ef menn nenna að fletta því upp, þá sjá menn fljótt, að það átti að verða iðnaðarbanki. Það dylst engum, þegar athugað er, hverjir voru í stjórn. Það voru þeir Jón Þorláksson, sem stóð framarlega í iðnaðinum, Jón Halldórsson, Helgi H. Eiríksson og Guðmundur Ásbjörnsson. Það var safnað fé úr ýmsum áttum til að stofna sérstaka lánsstofnun fyrir iðnaðinn, en þetta hefur vaxið í allt annað. Þegar athugað er, hvernig því er háttað með rekstrarlán til iðnaðarins, þá er það oft sagt hér, að bankinn hafi lánað 80 millj. kr. til hans. Það hefur ekki verið gerð skýrsla um þetta, en ég hygg, að iðnaðurinn hafi ekki orðið afskiptur og að honum hafi ekki verið sýnd hlutdrægni að því er rekstrarlán snertir. Ef stofnaður verður sérstakur banki fyrir iðnaðinn, þá óttast ég það fyrir iðnaðarins hönd, sem alltaf gætir á fyrsta stigi þegar stofnaður er sérstakur bauki fyrir sérstaka iðngrein, að aðrar lánsstofnanir telji sér ekki skylt að lána þeirri atvinnugrein. Í þessu sambandi get ég bent á þá reynslu, sem fékkst af Búnaðarbankanum. Að vísu hefur reglan með Búnaðarbankann verið sú, að sparisjóðsdeild hans lánar svo lítið fé til landbúnaðarins, að það er blátt áfram hlægilegt. Viðskiptavíxlar, sem landbúnaðurinn fær, ganga gegnum aðrar lánsstofnanir ekki síður en þennan banka. Að því er snertir stofnlán hefur reynslan orðið sú. að Iandbúnaðinum er neitað svo að segja undantekningarlaust um lán annars staðar, og hefur það verið þýðingarlítið fyrir bændur að leita lána annars staðar, enda er Búnaðarbankinn fyrst og fremst hans stofnun til að fullnægja stofulána- og fjárþörf hans. Nú er það svo með iðnaðarbankann. að hann á að fullnægja viðskiptaþörf iðnaðarins, og henni getur hann ekki fullnægt nema með því að fá sparifé. Það er ekki auðvelt að sjá, hvar á að taka það, nema úr hinum bönkunum. Hættan er því sú um leið, að þetta fé dragist út og hinir bankarnir, sem fyrir eru, líti svo á, að þeim sé ekki skylt að fullnægja þörf iðnaðarins og draga að sér hendurnar á sama hátt og þegar Búnaðarbankinn var stofnaður. Þess vegna virðist mér. að það geti farið svo, — það er mín sannfæring, ég vildi nærri óska, að ég hefði rangt fyrir mér, — að iðnaðinum sé ekki greiði gerður með þessu, heldur þvert á móti. Það, sem þarf fyrir hverja atvinnugrein, eru stofnlánadeildir. Landbúnaðurinn hefur Ræktunarsjóð og Byggingarsjóð. Vitanlega þarf stofnlánadeild, til þess að menn geti keypt jarðir. Í öðru lagi er svo sjávarútvegurinn með Fiskveiðasjóð, og ef hann er ekki nógu voldugur, þá er hlaupið undir bagga með honum og tekið lán, og jafnframt hefur ríkið hlaupið undir bagga með því að útvega ný stofnlán. Í þriðja lagi er svo iðnlánasjóður við Útvegsbankann, en hann er allt of veikur. Til þess að gerðar séu hliðstæður, þá eru Ræktunarsjóður og Byggingarsjóður í Búnaðarbankanum, Fiskveiðasjóður í Útvegsbankanum og stofnlánadeildin í Landsbankanum. Það ætti að efla iðnlánasjóð og það stórkostlega, og þá er komin hliðstæða við hinar atvinnugreinarnar, sem fá sín rekstrarlán í hinum bönkunum. Ef iðnlánasjóður væri efldur, væri komin hliðstæða við Ræktunarsjóð, Byggingarsjóð, stofnlánadeildina og Fiskveiðasjóð. Ég efast um, að þeir hv. þm., sem standa að þessu frv., og þeir iðnaðarmenn, sem hafa mikinn áhuga á að stofna þennan banka, geri sér ljóst, hvaða fjármagn þarf til að fullnægja nokkurn veginn rekstrarlánaþörf iðnaðarins. Í mínum augum er þetta eins og hjá heylitlum bónda, sem ætlar að ráða fram úr heyvandræðunum með því að byggja fjórðu hlöðuna, þó að hann eigi þrjár hálftómar. Þannig hugsa ég, að verði það úr, að þessi banki verði stofnaður í öllum þessum skorti á fé þá verði þetta jafnhaldgott úrræði og hjá bóndanum. — Ég skal ekki rökræða þetta meira, en þannig vildi ég gera grein fyrir atkvæði mínu.