19.12.1951
Efri deild: 50. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (1518)

83. mál, Iðnaðarbanki Íslands hf

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég sagði það í upphafi máls míns við þessar umr., að ég byggist við að hv. þm. hefðu þær skoðanir á þessu máli, að ekki þýddu rökræður um það. En það er eitt atriði, sem ég sé ástæðu til að leiðrétta í ræðu hv. þm. Vestm. Það kemur þráfaldlega fram, sem kom fram í ræðu hans. að það sé sérstaklega verið að ívilna Búnaðarbankanum eða gera eitthvað fyrir landbúnaðinn, sem ekki sé gert fyrir aðra atvinnuvegi í landinu. Þetta er svo endurtekið, þar til menn trúa því, en ég trúi því varla um hv. þm. Vestm., að hann sjái ekki hið rétta í málinu. Það er talað um 15 milljón króna lán til Búnaðarbankans, og það er eins og mönnum vaxi í augum, að þessi fjölmennasta atvinnustétt, sem framleiðir meira en nokkur stétt önnur, fái 15 millj. kr. í stofnlán á þessu ári. En ég skal geta þess, að það, sem erlendir sérfræðingar undruðust mest og töldu sérstaklega eftirtektarvert, er það, hve bændur leggja sjálfir fram mikið fé til endurbyggingar sveitanna. Og við, sem erum landbúnaðarmenn, teljum það aldrei eftir, að 100 millj. voru teknar frá til togarakaupa á sínum tíma. Og ég skal taka eitt fram enn, og það er það, að vextir af stofnlánum eru 1–11/2% hærri til landbúnaðarins en til sjávarútvegsins. Og hvað kosta þessir 10 togarar til viðbótar? Ætli það verði ekki um 80 millj.? Það eru nú hristar fram úr erminni 8 millj. til 4 togara og 5 millj. í frystihús á Siglufirði, og telur enginn eftir. Svona gæti ég haldið áfram að telja og dettur ekki í hug að telja eftir, en þetta eru alveg hliðstæður við það, sem verið er að telja eftir til landbúnaðarins. Svo er verið að tala um þessa smámuni, sem falla til landbúnaðarins. Stofnlánadeildir landbúnaðarins eru Byggingarsjóður og Ræktunarsjóður. Stofnlánadeild sjávarútvegsins er samsvarandi stofnlánádeild fyrir þann atvinnuveg, og hún fékk 100 millj. Enn fremur er Fiskveiðasjóður, sem er líka stofnlánadeild og hefur satt að segja meiri tekjur en flesta grunar. Hliðstæða þessa er iðnlánasjóður í Útvegsbankanum. Ef hann væri efldur svipað því, sem ég hef lýst um landbúnaðar- og sjávarútvegsstofnlánadeildirnar og tel sjálfsagt, væri iðnaðinum borgið. Og með því að efla iðnlánasjóð er iðnaðurinn réttur við á hliðstæðan hátt og hinir tveir aðalatvinnuvegir þjóðarinnar. Það mætti alveg eins segja, að þyrfti að stofna verzlunarbanka. Mér finnst, að samt liggi skýr rök fyrir því að efla iðnlánasjóð hliðstætt stofnlánadeildum hinna atvinnuveganna, því að sérstakan rekstrarbanka hefur engin atvinnugrein hér og hvergi í neinu landi. Þarf ekki annað en líta á nöfnin á bönkunum í nágrannalöndum okkar. — Það, sem ég vildi sérstaklega taka fram, er þetta, að með þeim peningum, sem eru lánaðir Búnaðarbankanum, er ekki verið að gera annað en það, sem gert hefur verið fyrir sjávarútveginn í miklu stærri stíl og eftir er, en á að gera fyrir iðnaðinn að mínu áliti.

En hvað því viðvíkur, sem hv. þm. Vestm. sagði, að hann tryði því ekki um nokkurn bankastjóra, að hann neitaði um örugglega tryggt lán, vil ég benda á, að það er vísað tugum manna frá öllum bönkunum daglega, þótt þeir hafi tryggingu í boði, sem er gullsigildi, og jafnvel eignir, sem eru gulli betri. Þessum mönnum er neitað tugum saman um rekstrarlán á degi hverjum, vegna þess að peningar eru ekki til. Því er ég hræddur um, að cf þessi bankí er stofnaður, geti svo farið, að hinir hankarnir neyðist til að kippa að sér hendinni gagnvart iðnaðinum. Þetta eru hinar bláköldu staðreyndir, og því er ég hræddur um, að þetta frv., þótt álitlegt sé í fyrstu, bjargi ekki iðnaðinum, því að þeir peningar, sem eiga að bjarga, eru ekki til. Ef svo væri, að þetta frv. yrði iðnaðinum til bjargar, þá teldi ég hins vegar rétt að samþ. það og stofna þennan banka.

Vona ég svo, að ég þurfi ekki frekar að svara þeim misskilningi, sem komið hefur hér fram vegna þessa láns til stofnlánadeildar Búnaðarbankans.