19.12.1951
Efri deild: 50. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (1519)

83. mál, Iðnaðarbanki Íslands hf

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki eyða miklum tíma af nóttinni, en ég vil þó taka það fram, að mér virðist, að þetta sé meira orðið metnaðar- en réttlætismál.

Hvað snertir þau ummæli hv. þm. Vestm., að allar brtt. við málið væru fleygar í það og einungis til að fella það, vil ég mótmæla því um mína till., að svo sé, og ég tel hana til bóta. Má vera, að hv. þm. eigi við tímaleysi þingsins, en nú er vitað, að þingið stendur fram yfir jól, svo að það ætti ekki að koma að sök, þó að málið þyrfti aftur til Nd. Mig langar til að vita, hvað það er í minni till., sem bregður fæti fyrir málið. Hvers vegna ætti ekki að stofna til samvinnu milli þessa banka og S.Í.S., sem er stór iðnrekandi, og auk þess fjölda iðnaðarmanna, er starfa á vegum þess og mundu beina viðskiptum sínum að þessum banka? Svona myrkfælni á ekki við í björtu. Það er gallaður góðvilji við málið, ef svona till. er felld.