17.12.1951
Efri deild: 45. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (1548)

145. mál, vegalög

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég flyt þrjár brtt. á þskj. 464 við þetta frv., og er fyrsta brtt. við 80. tölul. í B-lið frv. Þar er lagt til, að upphafsorð liðarins breytist á þann veg, að í staðinn fyrir að nú stendur í frv. „Frá Ísafirði“ komi: Frá Engjavegi, Ísafirði. — Þannig stendur á um veginn frá Ísafjarðarkaupstað vestur yfir til Önundarfjarðar og yfir Gemlufallsheiði, að þessi brtt. er eiginlega leiðrétting til þess að fyrirbyggja, að deilt sé um það, hvar hugtakið Ísafjarðarvegur skuli takmarkast, en ósamkomulag nokkuð hefur verið um það. Ég tel eðlilegt, að þessi vegur sé talinn enda við þessi vegamót, eins og gert er ráð fyrir í brtt. Og tel ég, að þessi breyt. geti ekki raskað frv. En ég tel, að nauðsynlegt sé, að svo sé um búið, að ekki sé hægt að deila um, hvar þessi vegur byrji.

Ég tel, að næstu brtt. megi skoða nánast sem leiðréttingu á prentvillu. Þar stendur í frv.: „Fjarðarvegur“, en á að vera Fjarðavegur. Það er vegur, sem sennilega í framtíðinni verður lagður frá Seyðisfirði, inn fyrir Hestfjörð, Skötufjörð, Mjóafjörð og Ísafjörð á veginn til Arngerðareyrar.

Þriðja brtt. er sjáanlega efnislega þýðingarmest frá mínu sjónarmiði. Fyrir hv. n.till. um að taka í þjóðvegatölu veg af Rafnseyrarheiði og suður á Barðastrandarveg á Þingmannaheiði. Í þessari till. felst það að tengja byggðina sunnan Ísafjarðardjúps í nágrenni Ísafjarðarkaupstaðar og við firðina vestur til Arnarfjarðar við þjóðvegakerfið. En hv. n. varð ekki sammála um það og hefur ekki tekið þessar brtt. upp í sínar till. Nú er mér kunnugt um það, að síðan n. lauk störfum hefur þetta mál verið rætt við vegamálastjóra, og hefur vegamálastjóri fallizt á, að það væri ekki óeðlilegt að afgr. breyt. nú á þessu þingi í sambandi við vegalögin á þá leið, sem hér er orðað í brtt., og vil ég taka fram, að orðalagið er vegamálastjórans sjálfs um það, að þessi umbeðni vegur heiti Arnarfjarðarvegur og verði ekki nánar ákveðinn en svo, að hann skuli liggja frá Barðastrandarvegi á Þingmannaheiði norður til Arnarfjarðar í samband við Þingeyrarveg, en hitt látið liggja á milli hluta, hvort hann liggur af háheiðinni eða kannske frá sunnanverðum botni Arnarfjarðar. — Ég vænti þess, að þó að brtt. þessi væri samþ., þá yrði það ekki frv. að fótakefli, þar sem vegamálastjórinn hefur fallizt á, að þetta væri mjög eðlileg leið, en að það færi síðar eftir till. vegamálastjórnarinnar, hvort talið yrði heppilegra að leggja þennan veg inn í Arnarfjarðarbotn eða yfir á Þingeyrarveg á Rafnseyrarheiði. — Það er lögð mjög mikil áherzla ú það af mörgum á Vestfjörðum, að þessi vegur gangi fram og verði tekinn í þjóðvegatölu og þannig gert mögulegt að tengja byggðirnar sunnan Ísafjarðardjúps við þjóðvegakerfið, eins og byggðirnar vestan Arnarfjarðar eru tengdar vegakerfi landsins með vegi frá Patreksfirði til Brjánslækjar og þaðan um Þingmannaheiði áleiðis til Þorskafjarðar.