17.12.1951
Efri deild: 45. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

145. mál, vegalög

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Fyrst eru það örfá orð um Engjaveginn. Hv. n. hefur skeikað þar um prinsipmálin, því að þetta getur ekkert prinsipmál verið. Þjóðvegurinn frá Ísafirði — eins og þetta hefur verið praktíserað nú — hefur alls ekki verið látinn byrja á landamörkum kaupstaðarumdæmisins. Þetta er byggt á misskilningi hjá n. Hins vegar er hér um það að ræða, hvort á að slá föstu, að Ísafjarðarvegur sé látinn byrja einhvers staðar á Seljalandsvegi eða við kaupstaðartakmörkin. Þessu hefur n. neitað, þó að hún hafi fengið góðar upplýsingar um þetta frá hv. þm. Barð. Svona á n. ekki að starfa, á móti gefnum upplýsingum og margstaðfestum. Hins vegar hefur ágreiningur verið og er um þetta, en honum er hægt að eyða með því að miða þarna við ákveðinn punkt.

Svo er það viðvíkjandi Arnarfjarðarveginum. Ég upplýsti, að eftir að n. lauk störfum hefði verið rætt við vegamálastjóra, og hæstv. fjmrh. ræddi við hann og hv. þdm. hér voru viðstaddir þetta samtal, einnig hv. þm. S-Þ., ef ég man rétt. Og vegamálastjóri taldi gerlegt að setja þetta á vegalög, ef ákveðið orðalag væri haft, þannig að opið lægi fyrir að velja um það, hvort vegurinn væri lagður á Rafnseyrarheiði eða í Arnarfjarðarbotni. Þetta er orðalag vegamálastjóra, sem er á till. um þetta. (KK: Það er rétt.) Hann taldi ekki óeðlilegt, að afgreiðslu málsins væri frestað nú, og ef nefndin tekur þetta ekki trúanlegt, þá legg ég til, að meðferð þess verði nú frestað og hún athugi það á meðan í því hléi, sem þá verður.

Hv. 11. landsk. þm. talaði um, að það væri óþarfi að tala um að taka þessa vegi í þjóðvegatölu. Ef það er, þá er óþarfi að vera að tala um að taka ýmsa aðra vegi í þjóðvegatölu. Menn hafa þó hingað til sótzt eftir því, og það kemur til af því, að fá fæst þó frekar fé í þá, og ég er ekki viss um, hvernig það gengi að fá fé í þá, ef þeir verða ekki teknir í tölu þeirra nú. Hins vegar hefur engu verið slegið föstu um, hve miklu verði varið í þá nú, og yrði það að sjálfsögðu borið undir vegamálastjórnina, hve mikið yrði til þeirra lagt.

Það er Arnarfjarðarvegurinn, sem mest kappsmál er lagt á af öllum Vestfirðingum að verði tekinn inn, og í viðræðum við vegamálastjóra hafði hann góð orð um, að það væri eðlilegt, að það næði fram að ganga.