04.12.1951
Efri deild: 37. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (1570)

138. mál, búfjárrækt

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er flutt af landbn. og er að nokkru leyti flutt að beiðni nýstofnaðs sambands hrossaræktarfélaga Suðurlands, sem stendur í sambandi við Búnaðarsamband Suðurlands. Í l. um búfjárrækt er kafli, sem hljóðar um hrossarækt, 3. kafli í þeim 1. frá 1948. Þar er gert ráð fyrir, að hrossaræktarfélög séu að mestu innan hreppa, en í þeim er ekki gert ráð fyrir, að til sé samband, sem nái yfir stór svæði. Nú hefur verið stofnað samband á sambandssvæði Búnaðarsambands Suðurlands, árið 1949. Eins og kunnugt er, er þetta svæði nokkuð stórt, og í þessu sambandi eru flest eða öll áður starfandi hrossaræktarfélög. — Þetta frv. fer í þá átt, að í l. sé tekin heimild til að stofna slík sambönd sem hér um ræðir og í öðru lagi styrkja þau til stóðhestahalds. Ég skal fara nokkrum orðum um þetta samband á Suðurlandi.

Það var stofnað árið 1949 og keypti þá 9 stóðhesta til notkunar í öllum hreppum á þessu svæði. Þátttakendur í sambandinu lögðu fram, fé, sem nam 40 þús. kr., til að kaupa þessa hesta. Það hafði s.l. ár 9 hesta og 2 á leigu. Þegar búið var að kaupa þessa 9 hesta, var það fé þrotið, sem lagt var fram sem stofnfé sambandsins. Nú sér sambandið fram á, að það muni verða erfitt að halda við þessum hestastofni, og fór fram á það við landbn., að hún flytti frv. líkt og flutt var á síðasta þingi, en náði þá ekki fram að ganga. Það frv. gekk í líka átt, en var þó nokkuð öðruvísi. Ég fer ekki í einstök atriði í sambandi við þetta, það vinnst tími til þess við 2. umr. málsins. Það er tilgangurinn með þessu að slá saman hinum ýmsu hrossaræktarfélögum. Það hefur viljað vera svo, að hestarnir eru misjafnir. Þegar sami hesturinn hefur verið lengi í sama félaginu, hefur komið fram skyldleiki og ýmsir annmarkar. Nú er hugmyndin sú að hafa sama hestinu aldrei lengi á sama stað. Styrkurinn, sem farið er fram á, er miðaður við það, að hann nægi til þess, að hver hestur sé endurnýjaður á 10 ára fresti, og er upphæðin miðuð við það. — Ég held, að ég þurfi ekki að hafa þetta meira við þessa umr., en óska eftir því, að frv. fái góðar undirtektir í hv. d., því að það er nokkuð mikils virði, að það nái samþykki á þessu þingi.