18.12.1951
Neðri deild: 49. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (1590)

153. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það er eitt atriði í sambandi við þetta mál, sem ég vildi vekja athygli á, án þess að fara inn á efnishlið þessa máls, og það er skipting á skemmtanaskattinum. En það, sem ég vildi leggja til, er það, að nauðsynlegt er, að n. sú, sem fær þetta mál til meðferðar, fái nánari upplýsingar um, hvernig varið er með innheimtu skattsins eins og nú er og hvernig þau lagaákvæði séu, sem um þennan skatt gilda. Það er í l. ákveðið, að þeir, sem vinna að mannúðarstarfsemi, skuli ekki greiða skemmtanaskatt. Af þessum orsökum eru ýmsir aðilar, sem greiða ekki skemmtanaskatt. Mér er ókunnugt um, eftir hvaða reglum er farið í þessari mannúðarstarfsemi, en vegna þessa verða þeir, sem eiga að hljóta greiðslu af skattinum, að fara á mis við styrkinn. Tveir aðilar, sem hafa verið mjög upphafnir á þessu hausti og reka mikla mannúðarstarfsemi, hafa haft tvö skemmtiatriði, sem eru Cirkus Zoo og sjómannadagskabarettinn. Í báðum tilfellunum er verið að vinna fyrir málefni, sem menn almennt hafa mikinn áhuga fyrir og vilja styðja. Þessir aðilar eru S.Í.B.S., sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar, og svo dvalarheimili aldraðra sjómanna. Nú hefur þjóðin mjög vel styrkt margvíslega tekjuöflun þessara aðila, en ég er ekki viss um, að menn yfirleitt hafi gert sér það ljóst, að með því að fara inn á þær brautir í svo ríkum mæli eins og farið hefur verið, þá er í raun og veru verið að afla styrks úr félagsheimilasjóði og frá þjóðleikhúsinu, sem hefur verið styrkt með skemmtanaskattinum, því að það er ekki vafi á því, að þeir styrkir, sem þessir aðilar, félagsheimilasjóður og þjóðleikhúsið, hafa fengið, hafa af þessum ástæðum verið stórum minni á þessu ári. Ég vil alls ekki, að orð mín verði skilin þannig, að ég vilji víta starfsemi þessara aðila. Og það má kannske segja, að þetta sé óskylt því, sem þetta frv. fjallar um, sem hér liggur fyrir, og ég mun ekki verða til að leggja stein í götu þess. En ég vil, að hv. d. og hv. n., sem um málið fjallar, athugi þetta vel.