18.12.1951
Neðri deild: 49. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (1591)

153. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Það er alveg rétt, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði, að skemmtanir, sem haldnar hafa verið undanfarið á vegum þessara aðila, hafa verið mjög fjölsóttar og dregið mjög úr þeim styrk, sem aðilar skemmtanaskattsins eiga að fá, en í l. stendur, að undanþegnar öllum skemmtanaskatti séu skemmtanir, sem haldnar eru í góðgerðarskyni eða til styrktar málefni, er miðar að almenningsheill. Ég geri nú ráð fyrir því, að þótt endurskoðun fari fram á l., yrði þetta ekki fellt niður og þessi tvö félög, sem hér eiga hlut að máli, njóti þessara fríðinda, því að starf þeirra er alveg óneitanlega til almenningsheilla, og komi því undir þessi ákvæði. Hins vegar mætti kannske hugsa sér það, að þegar þetta væri rekið í mjög stórum stíl, eins og hér hefur verið gert, þá yrðu settar í l. einhverjar skorður við þessu eða að það yrði ákveðin fjárhæð, sem þessi félög gætu aflað árlega, sem væri undanþegin skattinum.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um þetta. En út af því, sem hv. þm. sagði, þá vil ég benda á, að þetta frv. kemur frá nefnd og fer því að sjálfsögðu ekki til nefndar.