20.12.1951
Neðri deild: 51. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (1598)

153. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Þar sem nú er mjög liðið á þingtímann, en aftur á móti mjög mikil nauðsyn á því að fá þetta frv. samþ. áður en þingi verður frestað nú fram yfir hátíðar, þá vil ég mælast til þess, að frv. fái afgreiðslu sem allra fyrst í þessari hv. d. og það helzt strax í dag.

Ég flyt hér brtt. á þskj. 516, þar sem farið er fram á ráðstafanir til að tryggja rekstur þjóðleikhússins. — Um brtt. á þskj. 525 er það að segja, að hér er komið inn á allt annað svið en frv. fjallar um, og ég vil mælast til þess við hv. flm., hvort hann væri ekki fáanlegur til þess að taka hana til baka, svo að hún verði ekki til þess að tefja fyrir framgangi málsins. Annars get ég upplýst það, að nú sem stendur er verið að endurskoða l. um skemmtanaskatt, og ef hv. flm. vill verða við þeim tilmælum mínum að taka till. sína aftur, skal ég lofa honum því, að efni hennar mun verða athugað í sambandi við þessa endurskoðun, sem ég áðan gat um.