20.12.1951
Efri deild: 53. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

153. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. Vestm. sagði í ræðu sinni, þá heyrir þjóðleikhúsið ekki undir mig. Hins vegar get ég fullyrt, að mál þetta hefur ekki verið til afgreiðslu í ríkisstj., og hef ég ekki heyrt un þetta fyrr. Ég spurði hæstv. fjmrh., hvort hann hefði nokkuð heyrt um þetta mál, en hann kvaðst ekki annað hafa heyrt en það, að hæstv. menntmrh. hefði skrifað bréf til þjóðleikhússtjóra og farið þess á leit við hann, að hann gerði allt sem hægt væri til þess að koma á sparnaði í rekstri leikhússins. Það má telja mjög ósennilegt, að hæstv. ráðh. hafi hlutazt nokkuð til um það, á hvaða rekstrarliðum ætti að spara. Ég geng út frá því, að það, sem hv. þm. talaði um, verði tekið til athugunar, og mun ég bera hæstv. menntmrh. þau boð, sem ræða hans fjallaði um.