11.10.1951
Efri deild: 10. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (1646)

37. mál, heimilishjálp í viðlögum

Flm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir og prentað er á þskj. 41, var borið fram á síðasta þingi, en því lyktaði svo, að það náði ekki afgreiðslu. Hins vegar hafði heilbr.- og félmn. unnizt tími til þess að gefa út nál. Það var að vísu ekki samhljóða, en var mjög vinsamlegt hvað varðar þann hluta n., sem ekki vildi afgr. málið sem lög á því þingi. Þær till., sem felast nú í frv., eru í samræmi við það, sem meiri hl. heilbr.- og félmn. lagði til í nál. Hér er um heimildarlög að ræða, þar sem sveitarstjórnum og sýslunefndum er gefin heimild til þess að koma á fót og reka forfallahjálp til húsmæðra, þannig, að forfallahjálpin geti haft á sínum vegum konur til þess að koma á heimilin, þegar svo háttar, að húsmóðirin getur ekki sinnt störfum sínum vegna sjúkdóms eða sængurlegu. Þá er gert ráð fyrir, að félmrn. setji með sérstakri reglugerð reglur um starfssvið þeirra kvenna, sem gegna forfallahjálp.

Þetta mál er nýmæli í löggjöf. Það hefur ekki enn náð fótfestu, en hefur þó verið reynt nokkuð, en sá styrkur, sem með hefur þurfi, hefur ekki verið bak við það, til þess að þessi aðstoð gæti haldið áfram. Þessari hjálp til heimilanna undir erfiðum kringumstæðum mun verða bezt borgið með því að fela sveitarfélögum að starfrækja slíka hjálparstarfsemi og halda heimilinu í horfinu, en með því móti einu er það tryggt í mörgum tilfellum, að starfskraftar fyrirvinnu heimilisins haldist óskertir.

Ég skal nú ekki fjölyrða um þetta. Frá því að málið var borið fram hér fyrst í þáltill., þá er þetta ekki í fyrsta skipti, sem þessu er hreyft hér á Alþ., og vænti ég þess, að þeim, sem vilja á annað borð kynna sér málið, sé þegar orðið það kunnugt. — Leyfi ég mér svo að mælast til þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.