05.11.1951
Efri deild: 24. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (1648)

37. mál, heimilishjálp í viðlögum

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. var til umr. hér í d. á síðasta Alþ., og var þá lagt til, að því yrði vísað frá til frekari undirbúnings, samkv. till. frá minni hl. n., en umr. varð ekki lokið. Heilbr.- og félmn. hafði þetta mál til meðferðar einnig í fyrra og hefur nú kynnt sér málið á ný og var sammála um, að þetta mál væri svo mikils virði, að það væri rétt að láta það ganga fram á þessu þingi. Það er ljóst, að atvinnuháttum Íslendinga er nú svo komið, að viðhorf og aðstaða á heimilum er allt önnur en hún var fyrir hálfri öld, þar sem heimilin gátu valið úr vinnuafli svo að segja eins og þau vildu. Nú er svo komið, að heimilinum, bæði í bæjum og sveitum, er oft ekki annað en húsmóðirin sjálf með mismunandi stóran barnahóp, sem verður að hafa heimilisstörfin með höndum, og forfallist hún vegna veikinda eða fjarveru, þá er sýnilegt, hvaða voði steðjar að slíku heimili og þá sérstaklega, ef einnig eru á heimilinu gamalmenni, misjafnlega heilsugóð. Einkum er þetta þó tilfinnanlegt, ef slíkt ástand er í sveitum, sem eru strjálbýlar, og erfitt er að leita hjálpar. Þess vegna leggur n. einróma til, að þetta mál nái fram að ganga, en þó með þeim breyt., sem prentaðar eru á þskj. 154.

Fyrsta breyt. n. er sú, að hún leggur til, að meginefni 1. og 3. gr. frv. verði dregið saman í eina grein og 1. mgr. þeirrar gr. orðist svo: „Sveitarstjórnum og sýslunefndum er heimilt að ákveða, að setja skuli á fót í umdæmum þeirra heimilishjálp í viðlögum samkvæmt lögum þessum.“ Meginefni þessarar málsgr. er tekið upp úr 1. gr. frv. — Síðan heldur 1. liður brtt. áfram: „Hlutverk hennar er að veita hjálp á heimilum, þegar sannað er með vottorði læknis aða ljósmóður eða á annan hátt, sem aðilar taka gilt, að hjálparinnar sé þörf um stundarsakir vegna sjúkdóma, barnsburðar, slysa, dauðsfalla eða af öðrum óviðráðanlegum ástæðum, sem kunna að setja heimili í hættu.“ Þessi málsgr. er aftur meginefni 3. gr. frv., sem lagt er til að verði sameinuð 1. gr. frv. í eina grein, og er þar nokkru nánar skilgreint, hver tilgangur þessara laga er. Í 3. gr. frv. er talað um, að hjálp skuli veita húsmæðrum á heimilum þeirra, þegar þess sé þörf um stundarsakir vegna sjúkdóms eða sængurlegu, en hér í brtt. er gert ráð fyrir, að þörfin geti einnig verið vegna slysa eða dauðsfalla eða annarra óviðráðanlegra ástæðna. N. var sem sagt sammála um að orða 1. gr. þannig.

Þá hefur n. gert breyt. við 2. gr. og leggur til. að í stað orðanna „skuli tekin upp forfallahjálp til húsmæðra“ komi: skuli komið á fót heimilishjálp í viðlögum. — Þarna er aðeins um að ræða orðalagsbreytingu.

3. till. n. er um það, að 3. gr. frv. skuli falla niður og er það eðlilegt, þar sem efni hennar yrði þá tekið upp í 1. gr. — Við 4. gr. hefur n. gert lítils háttar orðalagsbreyt.

Við 5. gr., sem verður 4. gr., gerði n. nokkra breyt. Hún leggur til, að gr. orðist þannig: „Heimilishjálp veitist gegn endurgjaldi samkvæmt gjaldskrá, er sveitarstjórn eða sýslunefnd setur og ráðherra staðfestir. Heimilt er sveitarstjórn eða sýslunefnd að gefa eftir hluta af greiðslu fyrir veitta heimilishjálp eða fella greiðslu alveg niður, þegar efnalítið fólk á í hlut eða aðrar sérstakar ástæður til slíkrar ívilnunar eru fyrir hendi. Þetta er aðalefni 5. gr. frv. með nokkrum breyt., en síðasta mgr. 5. gr., sem fjallar um það, hvað gera skuli, ef ágreiningur yrði um, hvort hjálpina skuli veita eða ekki, er felld niður, en n. þótti ekki ástæða til að hafa það ákvæði í gr. eftir þá breyt., sem hún hafði gert á henni.

Við 6. gr., sem verður 5. gr., gerði n. lítils háttar breyt. Hún leggur til, að greinin orðist svo: „Heimilt er sveitarfélögum að gera með sér samning um sameiginlega heimilishjálp í umdæmum sínum.“ Í frv. er gr. orðuð þannig: „Heimilt er sýslufélögum og sveitarfélögum, tveimur eða fleiri saman, að gera með sér samning um sameiginlega forfallahjálp húsmæðra í umdæmum sínum.“ N. þótti heppilegra að gera þessa breyt. á gr.

Við 7. gr., sem verður 6. gr., er um nokkra breyt. að ræða. N. leggur til, að gr. hljóði þannig: „Á þeim tíma, sem húsmæðraskólarnir starfa, skulu þeir halda uppi kennslu, ef húsrúm og aðrar aðstæður leyfa, til leiðbeiningar konum, sem taka vilja að sér að stunda heimilishjálp samkvæmt lögum þessum. Fer um kostnað við kennslu í þeim greinum á sama hátt og annan rekstrarkostnað húsmæðraskólanna.“ Í frv. er ætlazt til, að efnt verði til sérstakra námskeiða í þessu skyni og ríkissjóður greiði kostnað við þessi námskeið að nokkru leyti. N. leit svo á, að þessari kennslu mætti koma fyrir í sambandi við skólastarfsemina á hentugan hátt. M.a. er það vitað, að kvennaskólar hér í Reykjavík hafa yfir kennslutímann efnt til námskeiða fyrir konur, sem vildu læra matreiðslu. Á þennan hátt mundu námskeiðin verða ódýrari og koma að sömu notum, og það þótti eðlilegt, að staðið yrði undir kostnaðinum á sama hátt og rekstrarkostnaði húsmæðraskólanna.

8. gr. frv. leggur n. til, að felld verði niður, en hún fjallar um sérstaka reglugerð um starfskjör þeirra kvenna, sem taka að sér heimilisstörfin í forföllum húsmæðra. Þetta ákvæði kemur fram fyrr í frv., þar sem kveðið er á um, að sveitarfélögin skuli setja sérstaka reglugerð til framkvæmdar þessu máli og fá staðfestingu félmrn. á henni, og þarf því ekki að taka þetta fram í nýrri gr.

Við 9. gr., sem verður 7. gr., hefur n. gert allmiklar breyt. Hún leggur til, að fyrsta málsgr. þeirrar gr. hljóði þannig: „Ríkissjóður endurgreiðir 1/3 hluta af halla þeim, sem sveitarsjóðir og sýslusjóðir kunna að verða fyrir af starfsemi heimilishjálpar, þó eigi yfir 100 þús. kr. á ári.“ Það er alveg ókunnugt um það, hve mikinn kostnað framkvæmd þessara laga hefði í för með sér. Það fer bæði eftir því, hvað þessi starfsemi verður tekin upp víða og hvað þarf að gefa eftir af greiðslum, sem heimilin eiga sjálf að greiða. Skoðun n. var sú, að fyrst um sinn mundi halli af þessari starfsemi ekki verða meiri en svo, að 100 þús. kr. framlag ríkissjóðs mundi nægja til að greiða 1/3 hluta hans, og auk þess væri rétt að kveða á um hámark þessa framlags. Það kann að vera, að reynslan sýni, að þessari gr. þurfi að breyta seinna, en um þetta hámark varð samkomulag í n., og það var rætt um þetta við fjmrh., sem féllst á þessa breyt. fyrir sitt leyti og kvað mundu vera hægt að taka þessa upphæð inn í fjárlög þau, sem nú liggja fyrir, ef þetta mál næði fram að ganga. — Seinni hluti gr. hljóðar svo: „Þegar reikningar hvers starfsárs eru að fullu uppgerðir og endurskoðaðir, skal senda þá til félmrn., sem úrskurðar hluta ríkissjóðs til greiðslu á hallarekstri sveitarfélaganna. Nægi ekki framlag ríkissjóðs samkvæmt fyrirmælum þessara laga til þess að greiða að fullu 1/3 hluta af sameiginlegum rekstrarhalla sveitarfélaganna, ber að greiða sveitarfélögunum hallann hlutfallslega miðað við framlagið.“ Það þótti rétt að taka þetta fram, svo að sveitarfélögunum yrði ekki misgert í þessu efni.

Þá leggur n. til, að 10. gr. falli niður. Sú gr. hljóðar þannig: „Félmrh. er heimilt að fela sérstökum ráðunaut að leiðbeina sveitarstjórnum og sýslunefndum við að setja á stofn forfallahjálp húsmæðra og hafa eftirlit með starfsemi þessari, þar með talin námskeið þau, sem í 7. gr. getur.“ N. leit svo á, að fyrst um sinn a.m.k. væri ekki ástæða til að stofna nýtt embætti í þessu skyni. Það mundi hafa í för með sér töluverðan kostnað, en vafasamt, hversu brýn þörfin væri. Þetta væru heimildarlög, og væri því rétt að bíða og sjá, hvernig þetta mál færi af stað, og mætti þá að fenginni reynslu breyta l., ef þörf þætti á.

11. brtt. n. er svo sú, að fyrirsögninni verði breytt og frv. heiti: Frv. til laga um heimilishjálp í viðlögum. — Þetta þótti heppilegra orðalag, og var n. sammála um að taka það upp.

Ég skal svo enda mína framsöguræðu með því að taka fram, að það var enginn ágreiningur innan n. um þau atriði, sem ég hef hér drepið á, og hún væntir þess, að d. samþ. frv. endanlega með þeim breyt., sem ég hef nú gert grein fyrir.