05.11.1951
Neðri deild: 22. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

28. mál, aðstoð til útvegsmanna

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta mál var flutt af ríkisstj. til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út 30. júní s.l., um breyt. á l. nr. 120 frá 1950, um aðstoð til útvegsmanna. Samkvæmt þeim lögum var svo ákveðið, að stjórn skuldaskilasjóðs væri skipuð til 1. júli 1951, en þá skyldi hún hafa lokið störfum. Þetta reyndist ekki framkvæmanlegt, og þótti því nauðsynlegt, að l. yrði breytt á þá leið, að starfstíminn væri lengdur um einn mánuð, eða til 1. ágúst. Um þetta atriði fjalla 1. og 2. gr. frv.

Í 3. og 4. gr. frv. eru ákvæði um breyt. á 22. og 24. gr. l., sem lúta að kröfulýsingum og atkvæðisrétti lánardrottna. Ákvæði laganna voru ekki talin nægilega glögg, og þótti því rétt að breyta þeim á þennan veg.

Þriðja breyt., sem brbl. fela í sér, er varðandi sérstaka eftirgjöf á lánum, sem ýmsir umsækjendur um aðstoð höfðu fengið á sínum tíma gegn síðari veðrétti í skipum hjá ríkissjóði, framkvæmdasjóði ríkisins og styrktar- og lánasjóði, sem er sérstök deild í Fiskveiðasjóði Íslands. Ákveðið er í brbl., að stjórn skuldaskilasjóðs skuli hafa heimild til„ ef hún er sammála um það, að gefa eftir eitthvað af þeim lánum, ef ástæða þykir til, og hækka þá skuldaskilasjóðslánin sem því nemur, að hægt sé að greiða upp eftirstöðvarnar. Þetta ákvæði brbl. var framkvæmt þannig, að þeim, sem skulduðu að loknum skuldaskilum yfir 80%, var gefið eftir af þessum lánum, en þó ekki meir en svo, að skuldin færi ekki niður fyrir 80% af eignum, en þetta er sem næst því að vera meðaltal alls þorra skulda þeirra útvegsmanna, sem aðstoð hafa fengið.

Sjútvn. hefur orðið sammála um að mæla með þeim breyt. á l., sem í frv. felast, en auk þess leggur n. til, að gerð verði breyt. á 26. gr. l. Það hefur komið í ljós, eftir að brbl. voru sett, að fyrir sumum aðstoðarlánunum til útvegsmanna, sem ætlunin var að gefa eftir að meira eða minna leyti, var sérstök persónuleg trygging, sem ekki þótti heimilt að gefa eftir samkvæmt bókstaf laganna, en að sjálfsögðu var það ætlun Alþingis, að eftirgjöf trygginga fyrir aðstoðarlánum tæki til slíkra ábyrgða. Hér mun vera um vangá að ræða, sem nefndin telur rétt að ráða bót á með breyt. á 26. gr. laganna.

Fleira þarf ekki að taka fram, að undanskildu því, að í stað „bátaútvegsmanna“ í fyrirsögn frv. komi: útvegsmanna. Lögin eru um aðstoð til útvegsmanna, en af vangá hefur heiti frv. misritazt. Má skoða þetta sem leiðréttingu á fyrirsögn frv. — Ég hef þá gert grein fyrir till. nefndarinnar varðandi mál þetta.