07.12.1951
Efri deild: 39. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

37. mál, heimilishjálp í viðlögum

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég ætlaði, þegar frv. væri til umr., að mótmæla þeirri breytingu að takmarka framlag ríkisins. Úr því að ríkið á annað borð er að leggja fram fé til þessa, verður það að koma að einhverju gagni. En með frv. svona breyttu er aðeins verið að leggja fyrir sveitarfélögin fjárhagslega gildru. Fyrst verið er að bjóða fram fé ríkisins, verður að vera svo um hnútana búið, að það verði ekki þeim, sem eiga að njóta þess, til byrði. En framlag ríkisins eins og gert er ráð fyrir með þessari takmörkun verður öllum sveitarfélögum á landinu harla lítils virði. Þess vegna vildi ég flytja þá brtt., að takmarkanirnar, sem eru í 7. gr., falli niður, og óska að fá tíma til að semja till. um það.