04.12.1951
Neðri deild: 36. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (1693)

87. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur legið hjá landbn., og eftir að hafa leitað umsagnar framleiðsluráðs, hefur n. orðið ásátt um að mæla með því, að frv. verði samþ.

Það skal tekið fram, að sá dráttur, sem orðið hefur á málinu, stafar af því, að í undirbúningi er frv., sem er stærra í sniðum, og þótti rétt, að það yrði samferða þessu frv. Nú hefur hins vegar ekki náðst samkomulag um það mál, svo að það verður að bíða, og er því ekki rétt, að afgreiðsla þessa frv. dragist lengur.

N. leggur fram brtt. við frv., og er hún í tveimur liðum. Úr því að þetta mál er fram komið, taldi n. rétt að fella inn í það nýjan lið. Hann er um það, að bráðabirgðaákvæði jarðræktarlaganna um nokkru hærri styrk til að slétta túnþýfi verði framlengt um tvö ár. Er þetta gert til þess að hvetja menn til þess að koma túnum sínum í það lag, að hægt sé að koma við fullkomnum tækjum. Ákvæði jarðræktarlaganna varðandi þetta falla úr gildi á næsta ári, en þrátt fyrir það þótt vélakostur hafi vaxið, er það þannig í ýmsum sveitum, að bændur hafa ekki átt kost á vélum til þess að breyta túnunum í sléttlendi og gera þau véltæk. Þess vegna er það nokkuð harkalegt gagnvart þeim að taka nú þegar af þeim þennan viðbótarstyrk. N. hefur því lagt til, að hann verði veittur til ársins 1955.

Ég hef svo ekki meira um þetta að segja að svo stöddu, en skal aðeins geta þess, að einn nm., hv. 5. landsk., var fjarstaddur, þegar gengið var frá brtt.