10.10.1951
Efri deild: 7. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (17)

39. mál, lántaka vegna landbúnaðarframkvæmda

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Með l. nr. 43 frá 1951 var ríkisstj. veitt heimild til 15 millj. kr. lántöku til framkvæmda í þágu landbúnaðarins. Ég hef við 1. umr. fjárlaganna gefið skýrslu um aðgerðir ríkisstj. í þessu efni, og skal ég ekki endurtaka hana hér. Niðurstaða þessara mála hefur orðið sú, að Alþjóðabankinn hefur gengizt inn á að lána til virkjananna sem svarar 40 millj. ísl. kr. og til landbúnaðarframkvæmda og áburðarverksmiðju rúmar 32 millj. kr. Það er ekki ákveðið til fullnustu enn, hvernig þessar 32 millj. skiptast, en gera má ráð fyrir, að til áburðarverksmiðjunnar gangi 15–16 millj. kr. og til landbúnaðarins 17–18 millj., en þessi lánsupphæð gæti þó ef til vill orðið lítið eitt hærri. Nú er ekki hægt að nota sér lánsheimildina til landbúnaðarins eins og hún er í l., og því er þetta frv. flutt, þar sem farið er fram á heimild fyrir ríkisstj. til að taka allt að 20 millj. kr. lán, og mundi þá við samþykkt þess falla úr gildi heimildin frá í fyrra um 15 millj. kr. lán til landbúnaðarframkvæmda. Hins vegar er hér um að ræða nokkra hækkun á heimildinni, þar sem tækifæri hefur gefizt til að fá ofur lítið hærri upphæð en 15 millj. og jafnvel hærri en 18 millj., þótt það sé enn ekki vitað að fullu. Þetta frv. er að langmestu leyti endurtekning á l. um þetta efni frá í fyrra, og vildi ég því mælast til, að hér yrði hafður sami háttur á og í hv. Nd., að málinu yrði ekki vísað til nefndar, og mundi málið þá geta gengið fljótar gegnum þingið. Ég vil því ekki gera það að till. minni, að málinu verði vísað til nefndar, og vonast ég til, að hv. dm. geti fallizt á afgreiðslu málsins á þennan hátt.