23.11.1951
Efri deild: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

121. mál, ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkisjóðs til vinnuheimila

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Þetta mál getur ekki talizt nýmæli hér í þessari hv. d. Því hefur verið hreyft hér áður á ýmsan hátt, en hefur aldrei fyrr verið borið fram á sama hátt og hér er gert.

Tala öryrkja hér á landi mun nú vera eitthvað nálægt 3 þúsund manns, og er þá aðeins miðað við þá, sem eru 16 ára eða eldri. Talsvert af þessu fólki, nokkur hundruð, dvelst nú á hælum og sjúkrahúsum, sumpart til langframa og sumpart um stundarsakir, en um 2500 manns njóta nú bóta hjá almannatryggingunum vegna örorku, annaðhvort fulls lífeyris eða örorkustyrks. — Þessum öryrkjum má skipta í tvo aðalflokka. Annars vegar eru þeir, sem eru óvinnufærir með öllu og telja má líklegt eða vist, að verði algerðir öryrkjar til æviloka. Margt af því fólki, sem dvelst á hælum eða sjúkrahúsum, fellur einmitt undir þennan flokk, og er þó enginn vafi á því, að enn þá er mikil þörf á sérstökum stofnunum, þar sem þetta fólk gelur dvalizt, og er þetta sennilega mest aðkallandi í sambandi við geðbilað fólk og öryrkja, sem nú dveljast í heimahúsum til mikilla óþæginda og við mismunandi aðbúð. Frv. um að leysa vandamál þessa fólks hefur verið lagt fyrir þessa hv. d., og skal ég því ekki fjölyrða um það, en um þennan stóra flokk öryrkja, sem eru óvinnufærir með öllu og telja má víst að verði það til æviloka, er það í skemmstu máli að segja, að þeim verður ekki á annan veg hjálpað en annaðhvort með hælisvist, eins og þegar er byrjað nokkuð á, eða með því að séð sé fyrir þörfum þeirra með lífeyrisgreiðslum, þegar þeir dveljast utan hæla. Þetta er baggi, sem hlýtur að hvíla á þjóðfélaginu og ekki er hægt að skjóta sér undan.

Um hinn meginflokkinn, alla þá mörgu, sem teljast öryrkjar, en hafa þó nokkra vinnugetu, eða gætu haft, ef skilyrði væru fyrir hendi, gegnir að minni hyggju allt öðru máli. Þar er það fyrirkomulagsatriði, hvort og að hve miklu leyti vinnugeta þess fólks kemur að notum þannig, að það geti séð fyrir sér að meira eða minna leyti og þannig um leið létt byrðar þess opinbera. — Nú er náttúrlega ekki rétt að taka allan þennan stóra hóp sem samstæða heild, því að vissulega er mjög ólíkt á komið um margt af þessu fólki. Mikill hluti þess fólks, sem telst öryrkjar — hefur misst meira en 50% af starfsgetu sinni —, vinnur nú ýmiss konar störf og vinnur fyrir sér að einhverju leyti, t.d. giftar konur, sem sinna húsmóðurstörfum að verulegu leyti, þó að þær teljist öryrkjar að einhverju leyti. Talsverður fjöldi af þessu fólki vinnur sér einnig inn nokkrar tekjur með alls konar lausavinnu, innan heimilis og utan heimilis. Það af þessu fólki, sem er svo vel sett, — sem margt af því er, — að það getur aflað sér nokkurra tekna og fær svo fullan eða skertan örorkulífeyri eða styrk í viðbót, getur komizt nokkurn veginn af, samanborið við annað fólk. Þó er enginn vafi á því, að mjög mætti greiða fyrir ýmsu þessu fólki, einkum ef það á ekki fast heimili, með því að auðvelda því að fá vinnu, sem er í samræmi við þá vinnugetu, sem það hefur, og yfirleitt við þess hæfi. En sem sagt, verulegur hluti þeirra öryrkja, sem einhverja vinnugetu hafa, vinnur nú ýmis gagnleg störf, en þó að til þess sé tekið fullt tillit, er ekki unnt að loka augunum fyrir því, að gífurlega stór hópur af svona fólki á þess lítinn kost eða engan að hagnýta þá vinnugetu, sem það hefur, þar sem því er ekki séð fyrir þeirri vinnu, sem þess fatlaði líkami getur innt af hendi. Hér er því að minni hyggju mjög stórt verk að vinna með tilliti til mannanna sjálfra og líka með tilliti til þjóðfélagsheildarinnar.

Þessi flokkur manna, sem hafa nokkra vinnugetu, en geta ekki notað hana vegna þess að skilyrði vantar, er þó ekki að öllu leyti samstæður. Margt at þessu fólki, sennilega meiri hlutinn, gæti dvalizt á heimilum sínum og stundað vinnu á ákveðnum vinnustað, ef því væri séð bæði fyrir verkefni, sem því hentaði, og jafnframt fyrir húsakynnum, sem væru þannig, að tekið væri tillit til heilbrigði þess og líkamskrafta. Þessu fólki má að minni hyggju mest hjálpa með því að byggja hentugar vinnustöðvar eða vinnustofur með nokkuð margbreytilegum verkefnum. Þá gæti þetta fólk dvalizt á sínum heimilum, gengið á sinn vinnustað og fengið þar vinnu við sitt hæfi. — Nokkuð var byrjað á þessu í Reykjavík fyrir nokkrum árum, en sú starfsemi hefur nú lagzt niður. Af þeirri reynslu, sem þá fékkst, má ýmislegt læra, og það er tvímælalaust, að þessar litlu tilraunir hafa sýnt, að með því móti má sjá ýmsum fyrir vinnu, sem þeim hentar, sem hefðu ekki nokkra möguleika til þess að ganga á hinn opna vinnumarkað, sem svo er kallaður. Aftur eru aðrir, sem af heilsufarsástæðum eða öðrum ástæðum trauðla geta nokkuð unnið utan sins heimilis. Þar þarf dvalarstaður og vinnustaður að vera hinn sami, eins og t.d. vinnuheimilið að Reykjalundi, þar sem vistmenn verða að vinna á sama stað. Sú reynsla, sem fengizt hefur af Reykjalundi til þessa, bendir að minni hyggju eindregið til þess, að þar sé sú rétta leið farin fyrir þá öryrkja, sem svo ástatt er um sem ég nú hef lýst. Það geta orðið nokkrir örðugleikar á því að sjá vinnustofum og vinnuhælum fyrir verkefnum við hæli þeirra manna, sem þar dvelja, þannig að hægt sé að tryggja sölu varningsins með réttu verði, án þess að veita þessum stofnunum einhverja sérstöðu um framleiðslu og sölu á þessum varningi, en engar till. hafa verið gerðar um það nú, og verður það þá seinna tekið til athugunar.

Meginefni frv. er að gera ráðstafanir til þess, að nokkru fé verði safnað í því skyni að koma upp vinnuhælum og vinnustofum fyrir þennan takmarkaða hóp af öryrkjum, en á því er enginn vafi, að í sambandi við þessar vinnustofur og vinnustöðvar mætti koma upp námskeiðum og alls konar kennslu og þjálfun fyrir þá öryrkja, sem að fenginni slíkri menntun gætu tekið að sér ákveðin störf. En ég hygg, að heppilegri leið í þessum efnum væri sú, að fyrirtæki og stofnanir, sem þegar eru starfandi, taki slíka menn til menntunar og þjálfunar. Tryggingastofnunin hefur gert nokkuð að því að hjálpa slíkum mönnum með fötlun til náms, bókkennslu og verkkennslu, og á þann hátt hefur þeim orðið kleift að afla sér þeirrar menntunar, að þeir gátu tekið að sér störf, þar sem líkami þeirra var ekki til baga. Og þetta er að minni hyggju eitt af því, sem leggja má sérstaka áherzlu á og að nokkru leyti má leysa í sambandi við vinnuheimili, þó að ég telji, að þessu námi verði að verulegu leyti að koma fyrir á annan hátt, þ.e. í gegnum fyrirtæki og stofnanir, sem þegar eru starfandi.

Einnig er nokkuð stór hópur öryrkja, sem gætu innt af hendi eins og fullhraustir menn ákveðin störf, ef þeim aðeins lánaðist að ná í þau störf. Þó að maður eða kona hafi misst fót, geta þau unnið t.d. skrifstofustörf eins og aðrir, og mörg önnur dæmi mætti nefna um það, að fatlaðir menn geta unnið ýmis störf á við fullhrausta menn, aðeins ef þeir geta fengið starf, þar sem fötlun þeirra er ekki þeim til baga. Það er því ákaflega rík þörf á sérstakri vinnumiðlun fyrir öryrkja, stofnun, sem hefði það verkefni á hendi að finna störf handa mönnum með ákveðna líkamsfötlun. Það er t.d. þannig í Bretlandi, að hverju fyrirtæki af vissri stærð er lögboðið að taka til vinnu ákveðinn fjölda öryrkja í hlutfalli við þann starfsmannafjölda, sem fyrirtækið hefur í vinnu. Byggist þetta á þeirri skoðun, að við hvert stórt fyrirtæki séu alltaf nokkur störf, sem menn með líkamsfötlun gætu innt af hendi eins og fullhraustir menn, og þá sé rétt að tryggja slíkum mönnum þannig vinnu við þeirra hæfi. Er þetta mjög athyglisvert. — Meginefni frv. er að skapa þeim mönnum, sem teljast öryrkjar og eru það, en gætu unnið viss störf, ef þeir fengju þau, verkefni við sitt hæfi, þannig að þeir gætu unnið fyrir sér að meira eða minna leyti, orðið sjálfstæðir að meira eða minna leyti og þar með létt kostnaði af því opinbera. Þetta er ekki eingöngu fjárhagsatriði fyrir þessa menn. Maður, sem er öryrki, er útskúfaður maður, hann lítur á sig sem annars flokks mann, sem ölmusumann. Um leið og hann fær gagnlegt starf, sem hann sjálfur finnur og aðrir viðurkenna að hann getur innt af hendi, eykst sjálfstraust hans, og lífið verður allt annað fyrir hann af þessari ástæðu. Þetta hefur því stórkostlega þýðingu hæði fyrir sjálfan einstaklinginn og þjóðfélagið í heild, og orkar því ekki tvímælis, að þetta er það verkefni, sem nú er mest aðkallandi.

Samkv. þessu frv. er til þess ætlazt, að erfðafjárskattur og erfðafé það, sem nú fellur til ríkissjóðs samkv. erfðal., verði lagt til hliðar til þess að koma upp slíkum vinnustofum og vinnuhælum. Í fjárlfrv. þessa árs er þessi upphæð áætluð 300 þús. kr., svo að hér er ekki um neina upphæð að ræða, sem ríkissjóð munar um, þegar heildarupphæð fjári. nálgast 400 millj. kr. Hins vegar held ég, að þessi upphæð muni reynast hærri en áætlað er, og mætti ætla, að hún yrði um 1/2 millj. kr. á ári. Þó að hér sé ekki um stóra fjárhæð að ræða, held ég, að mikið megi gera á þessu takmarkaða sviði, ef þessi tekjustofn er öruggur frá ári til árs. Ætlazt er til, að Tryggingastofnunin megi lána um 12 millj. kr. til elliheimila og stofnana fyrir öryrkja, en að sjálfsögðu má búast við, að elliheimilin taki mjög stóran hluta af þessu. Sé hægt að tryggja tekjustofn, sem sé kannske 1/2 millj. kr. á ári, mætti undirbúa þegar mjög verulegar framkvæmdir í þessum efnum. álætti þá fyrst koma upp vinnustofum og vinnuhælum, það mundi leysa vandræðin fyrst í byrjun með tiltölulega litlum fjármunum, og siðan mætti hefja vinnuheimilisbygginguna, eftir því sem getan leyfði. Ef Tryggingastofnunin verður ekki rúin að fé, gæti hún kannske lagt dálitið fram í bili, og mætti þá kannske flýta dálítið fyrir málinu á þann hátt.

Í þessu frv. eru ekki nein ákvæði um það, hverjir skuli reka þessar stofnanir, fram yfir þau ákvæði, sem nú eru í eldri l., l. um almannatryggingar og hæli og sjúkrahúsbyggingar, að svo miklu leyti sem þau taka til þessa máls. N. lítur svo á, að þetta sé atriði, sem ekki sé ástæða til að binda fastar en nú þegar er gert. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. setji reglur um starfsemi þessara stofnana og rekstur þeirra, og kæmu þá að sjálfsögðu inn í þær reglur ákvæði um þessi atriði, sem ég hef nefnt, ef ástæða þætti til að víkja frá því, sem nú er samkv. l. Ég álít að ýmsu leyti heppilegt, að það sé ekki alls staðar sami aðilinn, sem hafi rekstur þessara stofnana með höndum. Ég álít, að sú stefna, að almannatryggingarnar og sveitarfélögin eigi yfirleitt að reka þessi hæli, sé rétt. Þá eru tveir aðilar um þetta, annars vegar Tryggingastofnunin, sem sér um hag öryrkjanna, og hins vegar bæjarfélögin, sem einnig hafa hag af því að létta af sér þessari byrði og koma rekstrinum í gott horf.

Ég sagði í upphafi máls míns, að þetta mál væri ekki nýtt hér á Alþ., en á síðustu 3 árum hefur málið verið flutt hér þrisvar sinnum áður. Það var fyrst flutt 19I9, þegar erfðal. var síðast breytt. Þá bar hv. þm. Barð. fram till. í þá átt að auka erfðafjársjóð og verja honum í sama tilgangi og hér er gert ráð fyrir. Á haustþingi sama ár bar heilbr.- og félmn. þessarar d. fram till. um breyt. á tryggingalöggjöfinni sama efnis. Og á síðasta þingi bar hv. þm. Barð. fram frv. um breyt. á erfðal. með það fyrir augum að auka arfhluta ríkissjóðs og verja erfðafjárskattinum í sama skyni.

Ég vil mega vona, að þessi hv. deild, sem er vel kunnugt um þetta mál, geti afgreitt það einhuga og fljótlega, þannig að Nd. gæti tekið afstöðu til þess innan skamms tíma. Ég held, að ómögulegt sé að hugsa sér, að mál allra öryrkja á landinu verði leyst með einum og sama hætti. Það er nauðsynlegt að taka fyrir ákveðna hópa og leysa vandræði hvers hóps fyrir sig. Og sá hópur, sem er mestur, eru þeir, sem hafa nokkra starfsgetu og gætu haft hana meiri, ef sérstakar ráðstafanir yrðu gerðar fyrir þá. Það er rétt að láta þetta ganga fyrir, bæði vegna mannanna sjálfra og vegna þjóðfélagsins í heild, sem með því sparar fé og fær gagnlega og góða borgara í stað ölmusumanna.

Ég hef ekki rætt við meðnefndarmenn mína um það, en ég sé ekki ástæðu til þess, að frv. fari til nefndar. Það var flutt af heilbr.- og félmn., en ég skal hins vegar ekki mæta gegn því, að það fari til nefndar, ef þess er óskað.

Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari 1. umr.