26.11.1951
Efri deild: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

121. mál, ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkisjóðs til vinnuheimila

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hef hingað til verið fremur stirður í taumi um þetta mál á fyrri þingum. Og þó að málið sé nú komið í það horf, að miðað er að því, að þetta fé gangi beint til þessa fólks, sem kannske þarf þess fremur með en flestir aðrir að fá þennan tekjustofn, þá hefði mér samt sem áður þótt viðkunnanlegra, að hæstv. fjmrh. hefði verið viðstaddur við a.m.k. annaðhvort 1. eða 2. umr. þessa máls hér í hv. d. til þess að láta í ljós sína skoðun um málið og hvort hann telji, að það eigi að fara að ganga inn á þá braut að reyta tekjustofna frá ríkissjóði. Hér á, samkvæmt þessu frv., ef samþ. verður, að taka tvo tekjustofna ríkissjóðs, þótt ekki séu stórir, frá ríkissjóði. Og frv. eru komin fram um að taka marga fleiri af tekjustofnum ríkissjóðs frá ríkissjóði, t.d. þá smámuni, sem eru tekju- og eignarskatturinn.

Ég ætla sem sagt ekki að gera þetta mál að kappsmáli, sem hér liggur fyrir til umr. Og úr því að sá, sem á að gæta hagsmuna ríkissjóðs, er ekki hér við, og þrátt fyrir það að hann hafi verið aðvaraður um, að þetta mál ætti að verða hér til meðferðar, hefur ekki látið sjá sig, þá mun ég ekki skipta mér mikið af þessu máli.

Mér virðist tvennt liggja fyrir í sambandi við þetta mál. Annars vegar það, að ef mál þetta gengur að stefnunni til sama gang og önnur slík mál, þá muni til þessara vinnuheimila eða öryrkjahæla verða varið fé úr ríkissjóði — hvað sem því svo liður hins vegar, að ef ríkissjóður hefur nú einhvern tekjuafgang, sem lítur út fyrir, að þá mun vera nú, í orði a.m.k., og jafnvel búið að ráðstafa þeim tekjuafgangi tvöfaldlega eða þrefaldlega. — Og hitt, sem mér virðist hér liggja fyrir, er það, að ráðamenn ríkissjóðs hreyfa helzt ekkert við þessu máli. Og ætla ég þá ekki við þessa umr. að gera brtt. við frv., en vænti þess, eins og hv. frsm. gat um, að brtt. komi fram við 3. umr., um að svipta þessu fé ekki nú þegar frá ríkissjóði, svo að það sé þá einnig tími til þess fyrir þá að athuga það atriði, sem þetta kemur mikið við, t.d. að arfleifendur viti um það fyrir víst, hvert sá arfur á að fara, sem ekki taka lögmætir erfingjar. En ef ákvæði frv. þessa verða í lög tekin og ef þeir, sem ekki eiga lögmæta erfingja, sem svo er kallað, ekki gera erfðaskrá, þá mundu arfarnir í þeim tilfellum ganga til öryrkjaheimila þeirra, sem um getur í frv. þessu. Og getur verið, að afstaða slíkra arfleifenda breytist eitthvað gagnvart ákvörðun um það, hver erfa skuli eignir þeirra, eða um að gera erfðaskrár, ef frv. yrði að lögum. A.m.k. yrði tími til þess fyrir þá að hætta við að gera erfðaskrár, ef þeir teldu fénu betur varið til þessa málefnis heldur en að féð færi til sérstakra erfingja, sem ekki væru lög fyrir að fengju féð, nema því aðeins að erfðaskrá væri gerð.