15.01.1952
Neðri deild: 59. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (1737)

121. mál, ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkisjóðs til vinnuheimila

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseli. Þegar þetta mál kom til 2. umr. í fyrra skiptið, komu fram fyrirspurnir frá hv. þm. A-Sk. um það, og hef ég síðan aflað mér upplýsinga um þau atriði, er spurt var um, og vil ég gera grein fyrir þeim.

Hv. þm. spurði í fyrsta lagi, hvort gerð hefði verið heildaráætlun um stofnun elliheimila samkv. almannatryggingalögum. Slík áætlun hefur ekki verið gerð.

Í öðru lagi spurði hv. þm. um, hve mikið fé væri nú fyrirliggjandi í ellistyrktarsjóðunum. É g hef fengið þær upplýsingar, að um síðustu áramót hafi það verið 2278000 kr.

Í þriðja lagi spurði hv. þm., hvort nokkuð hefði verið greitt úr ellistyrktarsjóðunum til elliheimila í landinu. Svarið er, að engin slík heimili hafa fengið greiðslu úr ellitryggingasjóði.

Í fjórða lagi spyr hv. þm. um, hve mikið Tryggingastofnunin hafi lánað til elliheimila. Tryggingastofnunin gefur upp, að lánað hafi verið til þriggja elliheimila, elliheimilinu í Neskaupstað 100 þús. kr., elliheimili í Hafnarfirði 500 þús. kr. og eiganda elliheimilisins í Skjaldarvík 135 þús. kr. Öðrum hefur ekki verið lánað, en mér skilst, að málaleitanir séu þó um það frá einhverjum elliheimilum núna.

Ég held, að ég hafi þá svarað fyrirspurnum hv. þm. En út af því, sem hann sagði um það, að fjhn. vildi láta samþykkja frv. með breytingum, vil ég benda á það, að ekki er víst, að það sé samt bezta leiðin. En mér skilst, að þetta frv. sé ekki einkum fram borið í þeim tilgangi að koma upp elliheimilum, heldur frekar vinnuhælum fyrir fólk, sem hefur nokkra starfsgetu, en getur þó ekki unnið alla algenga vinnu. Hins vegar er gert ráð fyrir, að ellistyrktarsjóðirnir fari til að koma upp elliheimilum fyrir fólk, sem er orðið alóvinnufært. Þannig er það með flest það fólk, sem er á elliheimilinu hér, að það er ekki fært til neinnar vinnu yfirleitt. Í þessu frv. er hins vegar gert ráð fyrir að koma upp vinnuheimilum hamla þeim, sem hafa einhverja vinnugetu. Ég vildi taka þetta fram almennt um frv. — Hins vegar er ekki að sjá, að áhugi sé mikill á því að koma upp elliheimilum, þar sem ekkert sveitarfélag hefur enn fengið útborgað úr þeim sjóði, sem til er, til þessara hluta, og ber það ekki vott um mikinn áhuga á þessum málum, og er yfirleitt ekki vitað, hvort menn vildu koma upp slíkum vinnuheimilum sem gert er ráð fyrir í þessum l., þótt frv. yrði samþykkt.