18.01.1952
Efri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (1745)

121. mál, ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkisjóðs til vinnuheimila

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. Nd. hefur gert talsverðar breyt. á þessu frv., en þó ekki að því er varðar meginefni þess. Tel ég að vísu, að þær breyt., sem gerðar hafa verið í Nd., séu til lítilla bóta og sumar til hins verra. Samkvæmt frv. skilst mér, að nú sé ekki heimilt Tryggingastofnuninni, þó að samþykki ráðh. komi til, að nota neitt af því fé, sem rennur í þennan sérstaka sjóð af erfðafjárskatti, til þess að byggja heimili. En upprunalega frv. gerði ráð fyrir, að heimilt væri að nota féð þannig, auk þess sem heimilt væri að lána til þeirra aðila, sem um ræðir í 3. gr. — Í öðru lagi var gerð sú breyt. á 2. gr., að gert er ráð fyrir, að þessi lán megi nema allt að 2/3 af stofnkostnaði vinnuheimilis eða vinnustofu og vinnutækja. Mér sýnist augljóst, að það eigi langt í land, að þessum sjóði yrði leyft að lána svo mikinn hluta af stofnkostnaði, og því sé slæmt að gefa þessum aðilum vonir um að geta fengið meira fé en líkur eru til, að þeir geti fengið. — Þrátt fyrir þessa agnúa tel ég frv. vera að meginefni hið sama og þegar það upprunalega fór hér úr d., þ.e., að þetta fé, erfðafjárskatturinn og erfðafé ríkissjóðs, skuli lagt til hliðar í þeim tilgangi að nota það til þess að koma þessum stofnunum upp. Mun ég því ekki gera neinar till. til breyt. á frv., en vil mæla með því, að frv. sé samþ. óbreytt. Tveir nm. heilbr.- og félmn. eru mér sammála um þetta, og veit ég ekki til, að neinn af nm. hafi aðra afstöðu í málinu, en ef svo er, þá kemur það fram.