07.11.1951
Efri deild: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

97. mál, skógræktardagur skólafólks

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Ég flyt ásamt hv. 4. þm. Reykv. frv. til 1. um skógræktardag skólafólks. Eftir því sem ég bezt veit, mun þetta vera ný hugmynd; mér a.m.k. er ekki kunnugt, að hún hafi fyrr verið flutt hér á Alþingi. En frv. er í fáum orðum það, að heimilt skuli vera að kveðja hvern þann nemanda, pilt eða stúlku, sem ókeypis kennslu nýtur í einhverjum ríkisskóla, ti1 að starfa einn dag á ári við skógrækt, meðan viðkomandi unglingur er í slíkum skóla. Til þess er ætlazt, að skógræktarstjóri hafi áður skipulagt starfið á hverjum stað og að hann sjái um góða verkstjórn og góða vinnuaðstöðu og ráði vali verkefna. Það er ætlun flm., að skógræktardagurinn verði ákveðinn með nægum fyrirvara að vorlagi og í samráði við stjórnendur skólanna. Um framkvæmdir vil ég taka fram, til þess að fyrirbyggja misskilning, að við teljum ekki nauðsynlegt, að allir nemendur séu kvaddir á einum og sama degi. Það er ólíklegt, að aðstaða til verkstjórnar og aðrar aðstæður leyfi það. Eðlilegra verður, að allir nemendur fjölmennra skóla taki sinn skógræktardag á nokkrum tíma, jafnvel svo að vikum skipti, en aðeins hæfilegur hópur, við skulum segja ein til tvær bekkjardeildir, á sama degi. Með þessu móti verður þetta alls ekki eins þungt í vöfum og ætla mætti, ef einhverjir létu sér detta í hug, að allir nemendur í fjölmennum skólum ættu að vinna sama daginn. Það er líka sennilegt, að Skógrækt ríkisins yrði það um megn að koma upp skógræktardegi í öllum skólum landsins jafnvel næstu árin. Til þess gæti skort nægilegt magn af trjáfræi, einnig stjórnara og leiðbeinendur, einkum fyrst í stað. En fyrir þessu er gert ráð í frv., þar sem er ákvæði 1. gr. um, að kvaðning nemenda til skógræktar sé aðeins í heimildarformi. Það brýtur því ekki í bága við frv., þó að Skógræktin treysti sér ekki til að framkvæma l. fyrst um sinn nema á einum eða tveimur eða fáum stöðum. Það væri einmitt mjög eðlileg aðferð. Fleira fólk yrði síðan til kvatt frá ári til árs, þar til að lokum öll skólaæskan leggur fram krafta sína einn dag á ári í þjónustu skógræktarinnar í einhverri mynd. Ef þetta gerðist á hverju skólaári, gæti orðið allt að 10 daga þjónusta af hendi hvers nemanda í þágu skógræktarmála. Margir áhugamenn um skógrækt hafa borið kvíðboga fyrir því, að um svo fáa væri að ræða, sem gætu lagt fram vinnuafl til ræktunar nytjaskóga á Íslandi, að ekki yrði nægilegt, einkanlega ef við hugsum okkur að gera þetta á næstu áratugum. Fróðir menn hafa áætlað, að til þess þyrftum við að leggja fram ca. 10 þúsund dagsverk á ári í allt að því eina öld, ef við eigum að verða nokkuð sjálfbjarga um framleiðslu trjáviðar. Það forveldar mjög framkvæmdir, að þessa vinnu þarf að leggja fram á sex vikna tíma að vorinu eða fyrri hluta sumars. Nálega eina færa leiðin til þess að fá þannig nauðsynlegt vinnuafl í þjónustu þessara mála er sú, að áliti okkar flm., að leita til unga fólksins í skólunum, líkt og hér er lagt til, og kveðja það til þessarar þjónustu. Ég hef fengið þær upplýsingar frá fræðslumálaskrifstofunni, að 16200 nemendur séu nú í barnaskólum landsins og að í gagnfræðaskólum og héraðsskólum, að meðtöldum unglinga- og miðskólum, þ.e. á gagnfræðastiginu, séu um 4800–5000 nemendur og í menntaskólunum 800 nemendur. Í háskólanum eru auk þess upp undir 700 nemendur. Nú skulum við gera ráð fyrir, að yngstu börnin í barnaskólunum verði ekki kvödd, heldur sem svarar aðeins helmingi þeirra nemenda, eldri árgangarnir. Ætti þar að vera hægt að taka 8 þúsund börn til skógræktarstarfa. Langflesta nemendur gagnfræða- og héraðsskóla og menntaskólanna ætti að vera hægt að kveðja til þessara starfa, jafnskjótt og Skógræktin treystir sér til að nota svo mikið vinnuafl, hefur aðstöðu til að veita fullnægjandi leiðbeiningar og hefur vel kunnandi stjórnendur og nægilegt trjáfræ. Er þarna um að ræða allt að 14 þúsund manns. Og á þennan hátt teljum við, að hægt sé að leysa þennan vanda, að fá lagt fram milli 10 og 20 þúsund dagsverk í þjónustu skógræktar á Íslandi, án þess að neins staðar komi hart niður.

Annað aðalvandkvæðið í vegi fyrir stórfelldum framförum í skógrækt er vantraust almennings á trjárækt yfirleitt. En ef vel tækist til með árangur af þessum skógræktardögum, er ekki ólíklegt, að því fólki fjölgi allmikið á næstu árum, sem fær nokkra þekkingu og áhuga á þessum málum og leggi síðan hönd á plóginn sem áhugamenn í skógræktarfélögunum, sem nú eru tekin til starfa víðs vegar um land.

Í 3. gr. frv. er vikið að því, hvaða verkefni megi vinna á skógræktardögum í þeim héruðum landsins, sem ekki þættu hafa upp á verkefni að bjóða í skóggræðslu í bókstaflegri merkingu þess orðs. Undir þeim kringumstæðum er gert ráð fyrir samkomulagi milli skógræktarstjórnar og viðkomandi sveitarstjórnar um að fela skólafólki í því byggðarlagi verkefni til fegrunar í kringum kirkjur og skóla, sjúkrahús, elliheimili og aðrar menningar- og líknarstofnanir. Ef þannig væri beint starfskröftum unga fólksins, mun áreiðanlega engin hérað landsins skarta verkefni á þessu sviði, því að þessar stofnanir standa flestar á berangri og er lítið hugsað um að fegra umhverfi þeirra, en á því væri full þörf.

Ég skal ekki í framsögu málsins fara neitt inn á, hvort það sé nokkuð annað en draumórar að hugsa sér að rækta nytjaskóg á Íslandi. Ég held, að menn séu nú orðnir sannfærðir um, að þetta megi takast. Norðmenn halda fram, að hvar sem hægt sé að rækta kartöflur með öruggum árangri, sé líka hægt að rækta skóg. Og sé þetta rétt, þá er hægt hvarvetna á Íslandi að rækta skóg. Tilraunir benda og í þá átt, að menn þurfi ekki að skiptast í „trúaða og vantrúaða“, heldur megi skírskota til reynslunnar, sem fengizt hefur 3–4 síðustu áratugina. En lengra nær ekki reynsla okkar í þjónustu skógræktarmálanna.

Að síðustu skal ég geta þess, að uppkast að þessu frv. var sent skógræktarstjóra, og gerði hann við það eina breyt., sem var að fullu tekin til greina. Að öðru leyti tjáði hann sig fyllilega og eindregið samþykkan frv.

Það er mjög talað um það nú að beina námsstarfi unga fólksins í skólunum meir en áður að verklegum efnum. Þetta frv. stefnir í þá átt. Og ég hygg, að þetta starf, sem frv. ætlast til að unga fólkið leggi hönd að, eigi meiri vinsældum að fagna en nokkurt annað starf, sem hægt er að ætla ungu fólki í skólum að vinna að. Það er að vísu krafizt nokkurrar fórnar af hendi æskulýðsins, ef frv. verður að l. og kemur til framkvæmda. En ég held þó, að sú fórn sé ekki meiri en svo, að við megum gera okkur fullkomlega von um, að unga fólkinu verði ljúft að færa þá fórn í þjónustu þessa málefnis, þeirrar hugsjónar að klæða okkar nakta land. — Ég vil svo leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og landbn.