04.12.1951
Efri deild: 37. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (1791)

97. mál, skógræktardagur skólafólks

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil aðeins hreyfa því, að ef þetta frv. yrði lögfest, óttast ég, að framkvæmd þess gæti torveldað að einhverju leyti dvöl barna í sveit að sumrinu og vorinu. Það er gefinn hlutur, að þegar farið verður að halda þennan skógræktardag, þá er víða á landinu ekki hægt að halda hann fyrr en um mánaðamótin maí og júní, og getur þetta jafnvel dregizt fram í júní, en fyrir þann tíma er barnaskólunum lokið og mörg börn fá leyfi til þess að fara til sumardvalar í sveit, áður en skólarnir hætta. Ég óttast, að þetta gæti orðið torveldað með því að hafa hér í l. skyldu til þess að taka þátt í þessum skógræktardegi. Hins vegar var ég fyllilega með því, og landbn. öll, að setja eitthvað inn í frv. um þetta, eftir að fræðslumálastjóri var búinn að lýsa því yfir, að hann teldi, að þessi börn mundu alltaf fá undanþágu og að það mundi á engan hátt verða torvelduð þeirra sveitardvöl, þrátt fyrir það að skógræktardagur yrði ákveðinn svona, enda mundi þá líka vera hægt að láta þau taka þennan skógræktardag í þeirri sveit, sem þau færu í til sumardvalar. Þetta vildi ég láta koma fram, af því að á þessu byggðist m.a. fylgi mitt við frv. Enn fremur byggðist fylgi mitt við frv. á því, að skógræktarstjóri lýsti yfir því, að eins og nú stæði væri langt frá því, að hann væri við því búinn að taka við þessum skógræktardögum og framkvæma þá um allt land, og það mundi þess vegna taka nokkurn tíma, þar til aðstaða skapaðist til þess, og að hann mundi ekki láta þetta koma til framkvæmda nema smám saman, — og þetta þótti mér líka vænt um, — því að ekki yrði farið að senda börn og unglinga landshornanna á milli til þess að taka þátt í þessum skógræktardegi. — Þetta vildi ég taka fram, því að ég treysti á það, að það, sem þessir menn hafa sagt um þetta efni, standi í framkvæmdinni.