17.01.1952
Neðri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

177. mál, fé mótvirðissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef af hv. fjhn. verið beðinn um að fylgja þessu máli úr hlaði með nokkrum orðum, og get ég um það að mestu vísað til þeirrar grg., sem málinu fylgir.

Það hefur áður verið heimilað að lána úr mótvirðissjóði til þessara þriggja fyrirtækja, sem hér er um að ræða, 120 millj., eins og þær upplýsingar, sem frv. fylgja, bera með sér, en þetta hrekkur skammt. Það er búið að láta 75 millj. af þessum 120 millj., en þessar framkvæmdir þurfa á næsta ári á stórfé að halda, ég er því lagt til í þessu frv., að ríkisstj. verði á næsta ári heimilað að lána þeim enn fremur 95 millj. Og verður þá, ef þetta frv. verður að lögum, búið að láta til þessara fyrirtækja 215 millj. Það hefur orðið að samkomulagi að korna þessum fyrirtækjum upp með því að lána þeim fé úr mótvirðissjóði, og er gert ráð fyrir að lána þeim jafnt í samræmi við stofnkostnað bæði úr mótvirðissjóði og af beinum Marshalllánum.

Ég geri ekki ráð fyrir, að þessi heimild, sem nú er gefin með þessu, muni duga, og muni þurfa síðar að lána þeim meira, en þá er gert ráð fyrir, að hægt verði að lána þeim enn meira úr mótvirðissjóði, en eins og nú stendur á í dag þótti ekki fært að leita heimildar um hærri upphæð en þessar 95 millj., enda ætti það að duga til haustsins, þangað til þing kemur saman á nýjan leik.

Lánskjörin eru þau hin sömu og stjórnin hefur komið sér saman um að lána til þessara stofnana, og verða þau greidd upp með jöfnum ársgreiðslum, sem kallað er, en ekki jöfnum afborgunum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum og mun ekki gera neina till. um nefndarskipun, vegna þess að fjhn. hefur tekið að sér að flytja málið, og vænti ég þess, að það komi fram, að málið er flutt af nefnd.