17.01.1952
Neðri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

177. mál, fé mótvirðissjóðs

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér inn í þær deilur, sem hér hafa orðið um hina fyrirhuguðu áburðarverksmiðju, en ég verð þó að segja það, að mér finnst dálítið einkennilegur þessi geigur, sem nú er í hv. 2. þm. Reykv., því að ég man ekki betur en hann hafi fyrir nokkru verið því fylgjandi, að byggð yrði miklu stærri verksmiðja en sú, sem nú er fyrirhugað að reisa, og átti hún einmitt að framleiða sömu áburðartegund og þessari er ætlað.

Ég vil nú snúa mér almennt að frv. eins og það liggur hér fyrir á þskj. 634. Þegar ákveðið var fyrir þremur árum að ráðstafa miklum hluta mótvirðissjóðs til þriggja tiltekinna fyrirtækja, þá held ég, að það hafi verið ýmissa mál, að með þessari ráðstöfun væri, ef svo mætti segja, nokkuð misskipt ljósinu milli landsins barna, og það í bókstaflegri merkingu. Ég á hér ekki við áburðarverksmiðjuna, því að hún mun koma öllum landshlutum að notum. En það var einnig ákveðið að verja miklu fé til hinna stóru virkjana við Sog og Laxá. Nú er það svo, að þar voru þegar fyrir hendi stór raforkuver fyrir þá landshluta, sem þar eiga hlut að máli. En svo er stór hluti landsins, sem ekki hefur enn verið séð fyrir rafmagni og litlar líkur til, að svo verði gert á næstu árum. Ég held því, að þeir hafi nokkuð til síns máls, sem segja, að stjórnarvöldin hafi sýnt þessum landshlutum helzt til mikla rausn, á sama tíma og ekkert er gert fyrir þau svæði, sem eru algerlega án raforkuvera. En það var tvennt, sem gerði það að verkum, að menn á hinum rafmagnslausu svæðum gátu sætt sig við þessa ráðstöfun. Í fyrsta lagi var það, að í upphafi átti framlagið úr mótvirðissjóði ekki að vera nema 260–270 millj. kr., svo að vonir stóðu til, að eitthvað yrði eftir í sjóðnum. (Forseti: Ég vil vekja athygli .hv. þm. á því, að fundur á að hefjast í Sþ. kl. 3. Ég vil því spyrja hann, hvort hann treysti sér til að ljúka ræðu sinni á 2–3 mínútum.) Nei, en á svona 5–10 mínútum. — Hitt atriðið var svo, að menn álitu, að þegar þetta fé yrði endurgreitt, mundi því verða varið til að lána til annarra framkvæmda og þá til að framleiða rafmagn annars staðar á landinn. Nú er hins vegar tvennt að gerast. Í fyrsta lagi það, að nú er farið fram á að hækka framlagið til þessara framkvæmda úr 260–270 millj. upp í 350 millj. Þess vegna eru ekki horfur á öðru en að mótvirðissjóðurinn fari allur í þessar stórvirkjanir, og þetta er í sjálfu sér nokkuð alvarlegt mál. Svo er því enn bætt við, að nú er gert ráð fyrir því af ríkisstj., eftir því sem mér skilst á hæstv. fjmrh., að þessi lán frá hinum stóru fyrirtækjum verði endurgreidd mað jöfnum greiðslum, þannig að ekki verða fyrstu árin greiddar að fullu afborganir, sem þeim árum tilheyra, heldur verður þeim jafnað á lánstímann allan, sem þýðir, að fyrstu árin er minna greitt en ella mundi verða.

Ég dreg ekki í efa, að þessi fyrirtæki hafi þörf fyrir það, að þannig sé að þeim búið, en ég vil segja það, að önnur fyrirtæki, sem enn er ekki byrjað á þrátt fyrir ríka þörf íbúanna í þeim landshlutum, sem ekkert rafmagn hafa fengið, hafa enn meiri þörf fyrir, að þeim sé séð fyrir einhverju fé til sinna framkvæmda. Þess vegna er ég fyrir mitt leyti mjög óánægður með þessa ráðstöfun. Það má heita undarlegt, ef þessir landshlutar, sem hér standa að og virðast hafa betri skilyrði en aðrir, ættu ekki að geta séð sér sjálfum fyrir það miklu lánsfé, að eitthvað mætti úr þessu draga. Það getur skeð, að við þetta verði ekki ráðið, en ég tel óþarft að gera hlut þeirra, sem ekkert fá nú, lakari með því að draga úr þeim endurgreiðslum, sem eiga að koma fyrstu árin af þessum lánum. En það sér hver maður, að fé, sem ekki verður til ráðstöfunar fyrr en eftir 10, 15 eða 20 ár, kemur engan veginn að sömu notum og það, sem ráðstafa mætti nú á næstunni. — Ég hef veitt því athygli í þskj., að einstakir nm. í n., sem flytur málið, áskilja sér óbundið atkv. um það. Vil ég ekki heldur láta hjá liða að lýsa þeirri afstöðu minni, að ég hef til athugunar að reyna að koma fram breyt. við frv. í þá átt, sem ég hef nefnt. — [Fundarhlé.]