17.01.1952
Neðri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

177. mál, fé mótvirðissjóðs

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég sé, að hæstv. fjmrh. er ekki við, og þætti mér vænt um, ef hann væri látinn vita, að ég mundi svara honum nú.

Fyrst er það varðandi áburðartegundina. Ég sagði, að ég bæri sjálfur ekki skyn á áburðartegundir og gæti því ekki dæmt um þetta af eigin þekkingu, heldur styddist við aðra og það slík „autoritet“, að taka yrði tillit til þess, sem þau segðu. En þetta var ekki aðalatriðið í ræðu minni, þó að ég vildi benda á hættuna. Heldur hæstv. ráðh., að bæjarstjórn Reykjavíkur hafi frestað eins lengi að taka ákvörðun um staðsetningu verksmiðjunnar og raun ber vitni um, ef það hefði ekki vakað fyrir henni að ganga úr skugga um, hvort þær aðvaranir, sem fram hafa komið, ættu rétt á sér? Hæstv. fjmrh. veit vel, að bæjarstjórnin hefur um nokkurn tíma frestað að taka endanlega ákvörðun í þessu máli, vegna þess að hún hefur viljað velja staðinn vel vegna sprengihættunnar.

Hitt, sem ég vildi ræða nánar, er það, sem hæstv. ráðh. sagði varðandi eignarréttinn á verksmiðjunni og yfirráðin yfir henni, því að þar ruglar hann saman hlutunum og virðist ekki hafa lesið lögin. Hann segir, að það geti ekki farið saman, að verksmiðjan sé bæði sjálfseignarstofnun og hlutafélag, og það er rétt.

Í 13. gr., sem m.a. mælir fyrir um stjórn verksmiðjunnar, er aðeins vísað til 2. gr., en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkissjóður leggur fram fé til stofnunar áburðarverksmiðju samkv. ákvæðum fjárl., og er fé þetta óafturkræft. Ef fjárveitingar samkvæmt fjárl. hrökkva ekki til stofnkostnaðar verksmiðjunnar, er verksmiðjustjórninni heimilt að taka það fé, sem á vantar, að láni innanlands eða utan með samþykki ríkisstj. og ábyrgð ríkissjóðs. Áburðarverksmiðjan skal standa straum af vöxtum og afborgunum þessara lána.“

Í 13. gr. segir hins vegar, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. er heimilt þrátt fyrir ákvæði 2. gr. að leita eftir þátttöku félaga og einstaklinga um hlutafjárframlög til stofnunar áburðaverksmiðjunnar og leggja fram til hennar hlutafé úr rekstrarsjóði áburðarsölu ríkisins allt að einni millj. kr. Ef slík framlög nema minnst 4 millj. kr., leggur ríkissjóður fram hlutafé, sem þá vantar til, að hlutaféð verði alls 10 millj. kr., og skal verksmiðjan þá rekin sem hlutafélag.“

M.ö.o., það er skýrt, að 13. gr. á eingöngu við það, að heimilt sé að breyta rekstri verksmiðjunnar þrátt fyrir ákvæði 2. gr., en engar breyt. eru gerðar á 3. gr., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Verksmiðjan er sjálfseignarstofnun, er lýtur sérstakri stjórn. Verksmiðjuna má hvorki selja né veðsetja, nema heimild sé veitt til þess af Alþingi.“

Hitt er svo annað mál, að þó að áburðarverksmiðjan sé eign ríkisins og sjálfseignarstofnun, þá er hægt að aðskilja verksmiðjuna sem sjálfseignarstofnun og hlutafélagið, sem rekur hana. Þetta er oft gert. Menn þurfa ekki annað en kynna sér skattskrána í Reykjavík til þess að sjá, að það eru mörg dæmi þess, að eitt hlutafélag sé eigandi fyrirtækisins og annað reki það. En það er í ósamræmi við lögin um áburðarverksmiðjuna, að hlutafélagið sé eigandi hennar, en hins vegar í samræmi við þau, að hlutafélagið reki verksmiðjuna. Þetta er minn skilningur á lögunum, og hann er réttur, enda samrýmist hann bæði 13. ag 3. gr., en hæstv. ráðh. er bara að reyna að breiða yfir það, að skoðanir hans í þessum efnum eru í andstöðu við lögin.

Svo fór hæstv. ráðh. að tala um það, að ríkið bara lánaði hlutafélaginu þetta fé og gæti krafizt þess til baka. En hæstv. ráðh. hlýtur að vera það ljóst, að það fé, sem lánað er, getur tapazt, jafnt og það fé, sem lagt er fram sem hlutafé, og ríkið hefur ekki að neinum að ganga, ef hlutaféð er eytt. Og mætti ég spyrja: Ef ríkið á að leggja fram 90 millj. kr. til verksmiðjunnar, hvers vegna leggur það þá ekki þetta fé fram sem hlutafé, svo að það eigi allt hlutaféð nema 4 millj. kr.?

Svo sagði hæstv. ráðh., að ríkið gæti ráðið meiri hl. í stjórn verksmiðjunnar. Ég vil benda á það, að samkv. 13. gr. skal stjórn verksmiðjunnar skipuð fimm mönnum. Þrír þeirra skulu kosnir hlutfallskosningu af Sþ., en tveir af einkahluthöfum. Hvað snertir þær 4 millj., sem eru eign Sambands íslenzkra samvinnufélaga og annarra einkahluthafa, þá er þar ekki um nein höft að ræða, svo að yfirráðin yfir því hlutafé gætu komizt í hendur tveggja prívatmanna. Í öðru lagi þurfa þeir þrír, sem Alþ. kýs hlutfallskosningu, ekki að standa saman. Þeir eru kosnir sem einstakar persónur, sem taka afstöðu eftir eigin sannfæringu og máske eigin hagsmunum. Það er ekkert, sem hindrar, að tveir einkahluthafar, sem eiga nú t.d. Cocacola-verksmiðjuna, geti eignazt 4 millj. kr. hlutafé í verksmiðjunni og að einn af þeim þremur, sem Alþ. kýs hlutfallskosningu, hafi náið samstarf við þá. Þá ráða þessir þrír menn verksmiðjunni. Ríkisstj. getur ekki, nema með því að breyta lögunum, skipað þessum þremur fulltrúum sínum fyrir verkum. Engin bönd verða á þá lögð, ef 13. gr. á að vera hærra sett en allt annað í lögunum. En frá 1.–12. gr. er gengið út frá því, að ríkið eigi verksmiðjuna, og samkv. ákvæðum þeirra gr. hefur ríkisstj. allt vald yfir verksmiðjunni. En ef 13. gr. á að vera rétthæst, eins og hæstv. ráðh. vill, þá er stuðlað að því, að þessir einstaklingar geti ráðið yfir verksmiðjunni.

Ég vil benda á sem dæmi, að bæjarstjórnin á Ísafirði á meiri hl. af hlutabréfunum í togarafélaginu þar. Bæjarstjórnin kýs þrjá fulltrúa í stjórn félagsins, en einkahluthafar tvo. Nú vill svo til, að sjálfstæðismenn ráða yfir einkahlutafénu og fá með því móti tvo menn kosna í stjórn togarafélagsins, og svo fá þeir einn af þeim, sem bæjarstjórnin kýs. Ef þessir þrír menn standa saman, þýðir það, að bæjarstjórnin getur ekki ráðið yfir félaginu nema með því að gera sérstakar ráðstafanir.

Það er auðvelt að breyta þessu með því að setja inn í lögin, að þrír fulltrúar Alþ. skuli leggja það undir dóm ríkisstj. eða Alþ., hvaða afstöðu þeir eigi að taka. En þegar 13. gr. var smeygt inn, var ekki hugsað um þetta, hún var hugsuð eftir sjónarmiðum þeirra einstaklinga, sem ætla sér að klófesta verksmiðjuna.

Þá er það varðandi það atriði, að engin klásúla er um gengi. Það þýðir, ef krónan fellur, — og hæstv. ráðh. veit, að það hefur verið í undirbúningi að fella gengið, — að verið er að strika út um leið lánin, sem áburðarverksmiðjan fær. Það er verið að gefa hlutafélaginn féð. Og við, sem höfum séð, hvernig krónan hefur fallið undanfarið, erum ekki svo bjartsýnir, að okkur detti í hug, að hún falli ekki meira, sérstaklega þegar þess er gætt, að það eru nú erlendir aðilar, sem ráða gengisskráningunni.

Ég læt þetta nægja varðandi þessi atriði. Ég held, að það sé ótvírætt, að skilningur hæstv. ráðh. sé rangur og að breyta þurfi lögunum eða láta dómstólana skera úr um þetta.

Þá er það varðandi vextina. Ég álít, að rétt að hafa vextina 4%. Það er það hæsta, sem hægt er. Ég hef ætíð hugsað mér, að til þess að koma landinu að fullu gagni, þyrfti áburðarverksmiðjan að vera stórfyrirtæki, sem framleiddi hæði fyrir innanlandsmarkaðinn og til útflutnings. En það er ljóst, að frumskilyrði þess, að hún verði samkeppnisfær á útlendum mörkuðum, er, að hún fái fjármagn með lágum vöxtum. Ég harma það að þurfa að fara svo hátt sem 4%. en ég veit, að það hefur ekki þýðingu að fara lægra.

Svo að síðustu. Hæstv. ráðh. og hv. þm. N-Þ. spurðu, af hverju ég væri alltaf að rífast. Ef til vill er það vegna þess, að ég hef meiri áhuga á áburðarverksmiðjunni en þessir hv. þm. Ég álít, að áburðarframleiðslan muni verða stóriðja á Íslandi, sem framleiði áburð til útflutnings, og því aðeins að framleitt sé í stórum stíl, verður áburðurinn handa íslenzkum bændum svo ódýr, að ódýrara verður að kaupa hann hér heldur en að flytja hann inn. Af þessum ástæðum vildi Sósíalistaflokkurinn hafa verksmiðjuna helmingi stærri. Það hefur reynzt erfitt að koma þessu inn í kollinn á hæstv. fjmrh. vegna þess, hve þröngsýnn hann er, en þetta hefur úrslitaáhrif á framtíð verksmiðjunnar. Ég harma það, að verksmiðjan skuli ekki vera miðuð við meira en 7500 tonna framleiðslu, því að eflaust koma einhverjir og segja, ef verksmiðjan ber sig ekki: Það þýðir ekki fyrir Íslendinga að leggja í framleiðslu á áburði. — Ef verksmiðjan ber sig ekki, þá er það þeim að kenna, sem hafa planlagt hana og byggt hana of litla. Það gerir, að ég vil fá skorið úr um eignarréttinn á verksmiðjunni. Ég er svo bjartsýnn, eftir að við höfum eignazt Þjórsá, að ég tel, að ekki muni langt líða þar til ráðiat verður í framleiðslu í stærri stíl en þetta. Og ég vildi spyrja hæstv. ráðh.: Ef Alþ. samþ. síðar, t.d. eftir tvö ár, að stækka áburðarverksmiðjuna, svo að hún geti framleitt 20–30 þús. tonn, hvað verður þá um rekstur verksmiðjunnar? Ég er illa svikinn, ef það verður þá ekki talinn eðlilegur hlutur, að viðbótin heyri undir gömlu verksmiðjuna, og hvað reksturinn snertir hefur það mikið til síns máls. Ég býst við, að menn mundu segja, að óeðlilegt væri, að tvö fyrirtæki rækju verksmiðjuna, og að bezt væri að fela reksturinn stjórn gömlu verksmiðjunnar, mönnum, sem vanir væru rekstrinum. Og ef málum yrði eins háttað og nú á Alþ., yrði það eflaust talið bezt, að gamla verksmiðjan væri eigandi nýju verksmiðjunnar, en að ríkið lánaði hlutafélaginu 200–300 millj. kr. M.ö.o., félagið hefði þá sölsað allt undir sig, líka stækkunina.

Hvernig sem kann að fara með þessa áburðarverksmiðju, vegna þess að hún er of litil, er það kunnugt, að 50% ágóði er venjulegur hjá slíkum verksmiðjum annars staðar. Ef menn kynna sér voldugasta hring Þýzkalands, l. G. Farbenindustrie, sést það bezt, hve gífurlegan gróða áburðarframleiðslan hefur gefið.

Það er hart, ef áburðarframleiðslan á í framtíðinni að vera gefin í hendur einu litlu hlutafélagi. Ég mótmæli því yfirlýsingu hæstv. ráðh. og lýsi yfir því, að ég skil lögin svo, að áburðarverksmiðjan sé sjálfseignarstofnun, en hlutafélagið, sem hefur með reksturinn að gera, eingöngu rekstrarhlutafélag.