17.01.1952
Neðri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

177. mál, fé mótvirðissjóðs

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ræða hv. 2. þm. Rang. er ein sú furðulegasta, sem ég hef heyrt. Hann ætlaði að sanna, að engin sprengihætta væri af verksmiðju, sem framleiddi ammoniumnitrat. Hann ætti að lesa skýrslur tveggja verkfræðinga um þetta efni, sem gerðar voru með tilliti til stofnunar áburðarverksmiðju hér, en báðar þessar skýrslur vorn einmitt um sprengihættu af þessu efni. Auðvitað er ammoniumnitrat mikið sprengiefni. Gunnar Böðvarsson verkfræðingur samdi aðra þessa skýrslu og sendi til bæjarstjórnar Reykjavíkur. Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — bæta við nokkrum tilvitnunum úr skýrslu Gunnars Böðvarssonar, en hann segir svo:

„Ammoniumnitrat (NH4 NO3) er yfirleitt talið til hinna öflugustu sprengiefna. Það er mikið notað í hernaði og við nytsamar sprengingar; m.a. er hið kunna sprengiefni Amatol blanda af 80% af ammoniumnitrati og 20% af trinitrofoluoli eða TNT. Sökum þess, hve ódýrt það er, hafa verið gerðar tilraunir til þess að nota það í stað nitroglyserins, en þær munu þó ekki hafa borið neinn árangur, þar sem það hefur ýmsa óþægilega eiginleika.

Hið hlutfallslega sprengiefni ammoniumnitrats miðað við nokkur önnur sprengiefni er gefið í eftirfarandi töflu:

Nitroglyserin ..........14.0

Amatol .................. 42.1

Trinitrotoluol ......... 10.0

Dynamit 50 % ........ 9.8

Ammoniumnitrat .....10.5

Tölurnar eru niðurstöður mælinga í sérstakri tilraunabyssu (ballistk gun) og hafa aðeins hlutfallslegt gildi.

Þær sýna, að ammoniumnitrat er að sprengiafli til jafnt trinitrotoluoli eða TNT, sem er eitt hinna kunnustu sprengiefna.“

Síðan segir hann:

„En ammoniumnitrat er ildandi (oxyderandi) efni, og eykst viðkvæmnin því mjög, ef það er blandað efni, sem það getur íldað. Þannig geta lítil óhreinindi af lífrænum efnum aukið viðkvæmnina til mikilla muna.

Það verður því ætíð að gera ráð fyrir sprengihættu, einkum ef það verður fyrir öflugri forsprengingu, t.d. flugsprengju eða snarpri hitun. Í styrjöld hefur þetta vitanlega úrslitaþýðingu, þar sem gera má ráð fyrir, að vegna hins hernaðarlega gildis efnisins verði reynt að varpa sprengjum á verksmiðjur og birgðir.“

Hann heldur svo áfram skýrslu sinni og tekur dæmi um áhrif sprengingarinnar og miðar þá við mestu sprengingar, sem orðið hafa í heiminum, eða kjarnorkusprengingarnar í Japan á sínum tíma. Hann sundurliðar áhrifin á þessa leið:

„Í ritinu „The Effects of Atomic Weapons“ frá U.S.A.E.C. er talið, að umræddar kjarnorkusprengingar hafi samsvarað sprengingu 20000 smálesta af trinitrotoluoli, þ.e. verið fjórum sinnum öflugri en sprenging 5000 smálesta af ammoniumnitrati, en eins og þegar hefur verið getið, er ammoniumnitrat jafnöflugt og trinitrotoluol.

Undirritaður hefur notað upplýsingar frá U.S.A.E.C. til þess að áætla áhrif sprengingar 5000 smálesta af ammoniumnitrati, sem liggja óvarðar á bersvæði. Niðurstöðurnar eru:

I. svæði: 0–500 metra frá sprengistað. Næst sprengistað algerar og utar verulegar skemmdir á grind húsa og mannvirkja úr járnbentri steypu. Alger eyðing tréhúsa og stálgrindarbygginga. Dauðaslys á mönnum vegna þrýstingsöldunnar og fallandi húsa, brota o.s.frv.

II. svæði: 500–1000 metra frá sprengistað. Verulegar eða algerar skemmdir á grind tréhúsa og stálgrindarbygginga. Einnig verulegar skemmdir á hurðum, þökum og gluggarömmum húsa úr járnbentri steypu. Allar gluggarúður brotna. Dauðaslys á mönnum möguleg vegna hluta og brota, sem rekast á þá, og að öðru leyti mikil slysahætta.

III. svæði: 1000–2000 metra frá sprengistað. Á innri helming svæðisins skemmdir á grindum tréhúsa og stálgrindarbygginga. Skemmdir á hurðum, þökum og gluggarömmum; allar gluggarúður brotna. Slysahætta af brotum.

IV. svæði: Utan við 2000 metra frá sprengistað. Á nokkrum stöðum skemmdir á hurðum og gluggarömmum. Gluggarúður geta brotnað í allt að 8 km fjarlægð.

Með hliðsjón af framangreindum niðurstöðum virðist undirrituðum nauðsynlegt að krefjast þess, að 2000 metrar séu minnsta fjarlægð 5000 smálesta af ammoniumnitrati frá húsum og vistarverum.“

Og svo segir hv. 2. þm. Bang., að það sé engin sprengihætta af þessu efni. — Í skýrslu Jóhannesar Bjarnasonar verkfræðings ér getið um tvær einhverjar mestu sprengingar, sem orðið hafa í heiminum, og orsökuðust þær einmitt af þessu sprengiefni. Ég þarf svo ekki að fjölyrða meir um sprengihættuna af þessu efni. En það er athyglisverð staðreynd, að það er eins og stjórnarflokkarnir vilji láta alla halda, að við sósíalistar séum á móti sjálfri verksmiðjunni. Það er ekki rétt, heldur er ágreiningurinn um, hvaða efni eigi að framleiða. Ég hef ekki vit á að dæma um þetta, en sérfræðingar eins og t.d. Ásgeir Þorsteinsson hafa tekið mjög athyglisverða afstöðu til þessa, og eins má henda á það, sem Valtýr Stefánsson, ritstjóri Morgunblaðsins, sem einna mest hefur brigzlað okkur sósíalistum um kommúnístisk sjónarmið í þessu máli, segir um þetta í Morgunblaðinu sunnudaginn 13. janúar s.l., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Köfnunarefnisáburðurinn er að vísu dýrasta áburðarefnið af þrem aðaláburðarefnum. En eins og allir vita, verður engri jarðrækt komið á með einni tegund áburðar. Íslenzk ræktunarlönd fá áburðarþörf sinni ekki fullnægt, nema þau fái nægilegt magn köfnunarefnis, fosforsýru og kalís.

Það hefur komið í ljós við athuganir á eðli íslenzks jarðvegs á síðustu árum, að fosforsýruskortur er óvenjulega mikill í íslenzkum ræktarlöndum. Er því alveg sérstök ástæða til að minna á tillögu Ásgeirs Þorsteinssonar verkfræðings, sem hann bar fram hér í blaðinu fyrir nokkru, um að slá tvær flugur í einu höggi. hverfa frá einhliða köfnunarefnisframleiðslu og framleiða blöndu fosforsýru og köfnunarefnisáburðar, er koma mun íslenzkum bændum að tvöföldum notum. Efnivöruna, fosforgrjótið, er hægt að fá í Norður-Afríku. Er auðvelt að flytja það hingað til lands með þeim skipum, sem flytja fisk héðan til Miðjarðarhafslanda. Með því að kaupa hingað þessa efnivöru sparast erlendur gjaldeyrir. Að öðrum kosti þarf að kaupa fosforsýruáburðinn tilbúinn til landsins.

Áburðartegund, sem hefur inni að halda tvö aðaláburðarefnin, nitrat og fosforsýru, er bændum hentugust bæði í flutningum og notkun. Þar er sprengihættan ekki lengur fræðilegur möguleiki, hvernig sem að er farið. Og þessi áburðartegund er hin öruggasta í geymslu. En nitrat-tegundirnar eru rakasæknar og því hætt við, að þær rýrni mjög við geymslu, t.d. yfir sumarið í skemmum eða lélegum útihúsum sveitanna.

Með því að snúa sér að hinum hlandaða áburði munn bændur fá ódýrastan, notadrýgstan og meðfærilegastan áburð.“

Þetta segir Valtýr Stefánsson, ritstjóri Mbl., sem er landbúnaðarkandidat og mikill áhugamaður um málefni bænda, og það hefur hvergi verið sýnt fram á. að það sé heppilegra að framleiða ammoniumnitrat en hinar aðrar áburðartegundir, heldur getur það þvert á móti verið hættulegt og sérstaklega í styrjöld. Það eina, sem ég get séð í sambandi við þessa framleiðslu, er. að þetta er ekki aðeins áburður, heldur einnig sterkt sprengiefni í hernaði.