18.01.1952
Neðri deild: 61. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (1824)

177. mál, fé mótvirðissjóðs

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að svo stöddu að fara að ræða meira um það, sem við ræddum við 1. umr. í gær viðvíkjandi því aðalmáli, sem hér er um að ræða, heldur vil ég aðeins leyfa mér, eins og ég hét við 1. umr., að flytja brtt. við 1. gr., 2. málsgr., a:ð í staðinn fyrir 51/2% komi 4%. Ég vil í þessu sambandi minna á, að þeir samningar, sem þegar hafa verið gerðir við Sogsvirkjunina og Laxárvirkjunina, hafa af hálfu þeirra aðila, sem undirskrifuðu þá samninga fyrir hönd Reykjavíkurbæjar og Akureyrarbæjar, verið undirskrifaðir með því fororði, að þetta mál kæmi til kasta Alþ. og yrði útkljáð þar. Ég vil leyfa mér að vænta þess, að hv. þm., sem vafalaust skilja, hve þýðingarmikið það er að reyna að halda lágum vöxtum hjá þeim stóru framkvæmdum, sem við erum hér að leggja út í, geti fylgt þessari till. minni. Þessi till. er skrifleg og of seint fram komin, og vil ég þess vegna biðja hæstv. forseta að gera svo vel að leita afbrigða fyrir henni.