19.01.1952
Efri deild: 65. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

177. mál, fé mótvirðissjóðs

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Eins og sést á nál. á þskj. 681, þá hefur fjhn. rætt þetta mál á einum fundi, og er hún einróma samþykk því, að það nái fram að ganga. Eins og kunnugt er, þá er þetta til að heimila ríkisstj. að lána af fé mótvirðissjóðs til Sogsvirkjunarinnar, Laxárvirkjunarinnar og áburðarverksmiðju um ákveðið tímabil, eins og ákveðið er í 1. gr. Um þetta hefur orðið fullkomið samkomulag í n., og sé ég ekki ástæðu til að ræða þetta mál í einstökum atriðum, en vísa til þeirrar greinargerðar, sem fylgir frv. Legg ég til fyrir hönd fjhn., að málið verði afgreitt eins og það liggur fyrir á þskj. 634.