09.11.1951
Neðri deild: 25. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (1847)

96. mál, menntaskólar

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er lagt fram, hefur áður legið fyrir hv. d., að vísu upphaflega í nokkuð öðru formi. En það er borið hér fram eins og það var afgr. frá þessari hv. d. á síðasta þingi. Hins vegar náði frv. ekki endanlegu samþykki þá og er því borið fram á ný.

Svo sem kunnugt er, er gert ráð fyrir þeirri tilhögun í hinum nýju fræðslulögum, að menntaskólar séu tveir, á Akureyri og í Reykjavík, og skuli þeir hafa menntadeild, en ekki gagnfræðadeild eða miðskóladeild. Er gert ráð fyrir, að sérstakir skólar taki við því hlutverki, en menntaskólar taki síðan við þeim nemendum, sem nú ná landsprófi með nægilega hárri einkunn til þess að geta haldið áfram námi.

Ástæðan til, að þetta frv. er borið fram nú, er fyrst og fremst sú, að mjög eindregnar óskir hafa komið fram um það frá menntaskólunum, og þá ekki sízt menntaskólanum á Akureyri, að skóli þessi verði ekki skertur og hann fái áfram að starfrækja gagnfræðadeild eins og hann hefur gert til þessa. Auk óska skólans sjálfs virðast einnig ýmis rök styðja að því, að þessi tilmæli séu tekin til greina. Eru þá ekki sízt þau rök, að nú er svo málum háttað, að í ýmsum byggðarlögum er ekki aðstaða til þess að búa nemendur undir gagnfræðapróf, ekki til skólar, sem geta sinnt því hlutverki, og er því ekki komin á sú skipun þessara mála, sem fræðslul. að því leyti gera ráð fyrir. Er því nauðsynjamál fyrir ýmis byggðarlög, ekki sízt á Norðurlandi, að menntaskólinn fái að taka við nemendum til undirbúningsnáms í gagnfræðadeild, enda hefur nú þannig skipazt, að menntaskólinn hefur fengið að reisa veglegt heimavistarhús, sem er gert ráð fyrir að rúmi 160–170 nemendur. Er að sjálfsögðu mikið atriði fyrir þá nemendur, sem þurfa að sækja skólann lengra að, að eiga þess kost að búa í heimavist. Málum er að vísu ekki þannig háttað í Reykjavík, enda öllu meiri erfiðleikar á að taka við nemendum í gagnfræðadeild þar heldur en hjá menntaskólanum á Akureyri. Þar er um mjög mikið húsrými að ræða, og virðist mjög óeðlilegt að tryggja ekki svo sem verða má, að þetta húsrými verði notað. Það er fullkunnugt, að viða er húsnæðisskortur og erfiðleikar á því sviði hjá skólum víðs vegar um land. Og það er einnig mjög um það rætt, að mikið fé sé til skólanna lagt, og virðist í alla staði óeðlilegt, ef ekki er reynt til hlítar að nýta það húsrými, sem til er. Það er ekki ætlunin að nýta þetta mikla heimavistarhús, sem menntaskólinn hefur fengið að reisa, fyrir aðra skóla en menntaskólann sjálfan.

Frá skólans hálfu er og var lögð á það mikil áherzla, að í skólanum fái áfram að starfa miðskóladeild. Vil ég fyrst tilnefna hinn mjög þekkta og þjóðkunna menntamann, Sigurð Guðmundsson skólameistara, sem á sínum tíma varaði mjög ákveðið við því, að gagnfræðadeild skólans yrði af honum tekin. Og það var ekki heldur gert í hans tíð vegna hans ötulu baráttu í málinu. Ég hygg hann hafi leitt mjög sterk rök að því, að slík breyt. væri óskynsamleg. Ég hygg óhætt að segja það um báða menntaskólana, að þeir telji mjög óheppilegt frá uppeldislegri hlið að geta ekki tekið við nemendum sem yngstum til þess að móta þá sem bezt í sínum höndum. Ég hygg, að fyrir þessu liggi allveruleg og veigamikil rök. Um þetta vil ég fyrst og fremst nefna menntaskólann á Akureyri, af því að mér er hann vel kunnur, því að það er tvímælalaust, að til mikillar gagnsemi hefur orðið fyrir nemendur að komast strax í þá deild, og á það sinn þátt í þeim árangri, sem í skólanum hefur náðst yfirleitt. Munu allir geta um það borið, sem þar hafa stundað nám, að á engan hátt væri æskilegt, að gagnfræðadeild starfaði ekki við þann skóla.

Því hefur verið haldið fram sem rökum gegn þessu máli, að það brjóti í bága við það kerfi, sem menn hugsa sér að byggja upp í fræðslumálunum, en í því eiga þessir tveir menntaskólar eingöngu að vera lærdómsdeildir. Ég fyrir mitt leyti tel þetta ekki sérstaklega veigamikil rök gegn till. sem þessari, að hún kunni að brjóta í bága við fyrirhugað kerfi, vegna þess að flestir munu sammála um, að varasamt sé að binda menntun um of í kerfi og mjög vafasamur gróði fyrir þjóðina, að uppeldishættir yfirleitt í öllum skólum séu steyptir í sama mót og engar séu undantekningar þar frá, en allir verði að haga sinn námi eftir einu og sama kerfi.

Ég sé ekki ástæðu á þessu stigi málsins til að ræða almennt um fræðslulögin nýju og kerfið, sem þar er byggt upp. Tækifæri verður til þess á öðrum vettvangi. En ég bendi á það, sem rækilega er vikið að í bréfi frá menntaskólanum á Akureyri, sem birt er með grg. þessa frv., að það er ákaflega vafasamt að breyta skólakerfinu á þann veg, að duglegustu nemendum sé ekki gefið færi á að ljúka námi sínu fyrr. Ég hygg, að í flestum löndum séu skólarnir mismunandi þungir, og að þar séu skólar fyrir duglegustu nemendurna, svo að þeir geti átt þess kost að ljúka námi sínu á skemmri tíma en í öðrum skólum. Er líka vitað, að talsvert er um það, að nemendur í menntaskólum hafa tekið tvo bekki á einu ári. Bendir það ótvírætt til þess, að allverulegur hópur nemenda vill gjarnan leggja meira á sig við nám en venja er og ljúka því fyrr. Auðvitað verður alltaf takmarkaður fjöldi, sem menntaskólinn getur tekið í sína miðskóladeild. En ég held það sé skoðun allra flm. — og væntanlega skoðun fleiri — að ekki sé nema æskilegt, að til séu einhverjir skólar, þar sem nemendur, sem til þess treysta sér, geti lokið námi sínu á skemmri tíma. Þannig er frá þessu máli gengið af hálfu okkar flm., svo sem hv. þm. munu sjá, að það er orðað sem heimildarákvæði fyrir hæstv. ríkisstj. að láta tveggja ára óskipta miðskóladeild starfa við menntaskólana á Akureyri og í Reykjavík, ef húsrými og aðrar aðstæður leyfa, þannig að það er á valdi menntmrh., hvort þessi heimild verður notuð eða ekki. En við teljum tvímælalaust, að þessi heimild eigi að vera til staðar, og teljum einnig, að þessa heimild eigi að nota, eins og aðstæður eru nú.

Samkvæmt því, sem skólameistari menntaskólans á Akureyri hefur skýrt mér frá, hefur engum nemanda á þessu hausti verið synjað um heimavist í menntaskólanum, og er ekki búið að taka í notkun helming heimavistarinnar. Samt eru þar 12 nemendur, að ég hygg, úr miðskóladeild eða síðari bekk hennar. Þegar því þessi heimavist er öll komin til afnota, virðist engin ástæða til að óttast á næstu árum, að menntaskólinn geti ekki, þó að hann fái leyfi til að stórauka miðskóladeildina, veitt móttöku öllum þeim nemendum, sem óska að vera þar í lærdómsdeild. enda er gert ráð fyrir því, sem sjálfsagt er, þar sem þetta er menntaskóli, að utanbæjarnemendur lærdómsdeildar sitji jafnan fyrir heimavistarrúmi í skólanum.

Það virðist því nokkurn veginn augljóst, að þá röksemd sé ekki hægt að færa fram móti þessari till. eða ósk skólans, að hann fái að starfrækja áfram miðskóladeild, að slíta verði til þess að útiloka einhverja nemendur, sem þurfa að stunda lærdómsdeildarnám þar.

Svo mikill áhugi hefur ríkt í þessu máli víðs vegar á Norðurlandi, að það munu hafa borizt hingað til hins háa Alþingis á s.l. þingi allmargar áskoranir og óskir, að frv. um þetta efni hlyti samþykki. Það er einnig svo mikill áhugi hjá skólameistara og kennurum á Akureyri fyrir þessu máli, að þeir fái áfram að taka nemendur til undirbúnings undir lærdómsdeild, að þeir hafa á þessum vetri tekið sig saman um að hafa sérstakan undirbúningsflokk. Að vísu hafa þeir ekki rétt til að hafa 1. bekk í skólanum, en sérstakan undirbúningsflokk hafa þeir, þar sem eru um 30 nemendur, sem þeir hafa tekið að sér að nokkru leyti í sjálfboðavinnu að kenna undir 2. bekk. Þetta virðist mér vera mjög til fyrirmyndar og sýna eindreginn áhuga og fórnfýsi vegna málefnisins. Og nemendur hafa kosið þessa tilhögun, enda þótt þeir þurfi að greiða tiltekið skólagjald. Og kennarar hafa greitt nokkurt fé á mann til þess að kosta þessa undirbúningsdeild.

Mér virðast því öll rök hniga í eina átt, að frv. beri að samþ., bæði með hliðsjón af því, að ekki er æskilegt að steypa alla skóla í sama mót, og einnig með hliðsjón af þeim eindregnu óskum, sem hafa komið fram frá menntaskólanum um þetta mál, einnig með hliðsjón af því, að nægilegt húsnæði er þarna til afnota á mjög hagkvæmum stað á Norðurlandi til að veita stórum hóp nemenda heimavist. Virðast mér engin rök mæla á móti því að veita menntmrh. heimild þessa. ef hann telur, að ástæður leyfi; þ.e., meðan aðsókn að lærdómsdeild er ekki það mikil, megi hann áfram starfrækja sína miðskóladeild. Og mér virðast ekki síztu rökin, hvern fádæma áhuga skólameistari og kennarar hafa sýnt, svo sem ég hef getið um. — Vil ég svo fyrir hönd flm. mælast til, að málinu verði vinsamlega tekið af hv. d. og vísað til nefndar að þessari umr. lokinni.