09.11.1951
Neðri deild: 25. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (1848)

96. mál, menntaskólar

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Vegna þess að þessi lagabreyt. er í heimildarformi og mundi því koma til minna kasta að framkvæma hana, ef ég held áfram að vera í þessu sæti á næsta ári, finnst mér rétt, að ég láti að einhverju leyti í ljós mitt álit á þessu máli eins og það horfir við nú. Þetta mál hefur verið sótt með miklu kappi, sérstaklega af kennurum menntaskólans. Það lá fyrir þinginu í fyrra, eins og öllum er kunnugt. Af sérstökum ástæðum taldi ég ekki rétt að hafa afskipti af málinn þá og lét það þess vegna fram hjá mér fara ást þess að leggja þar nokkurt orð í belg. Hins vegar verð ég að segja það, að eftir því sem þetta mál er meira rætt og meira sótt, verði ég því minna sannfærður um nauðsyn þess sem ég hugsa meir um það.

Eins og hv. frsm. gat um, er skólakerfið þannig, að menntaskólunum er ætlaður alveg sérstakur vettvangur að starfa á, að starfrækja lærdómsdeild. en ekki miðskóladeild. Ég efast um, að heimilt geti verið að ganga gegn þeim fyrirmælum, sem lögin setja í þessu efni. Þess vegna er það að sjálfsögðu á valdi hæstv. Alþ. eingöngu að gera breyt. í þessu efni. Mér skilst, að ústæður skólans til að fá þessa breyt. séu aðallega tvær. Í fyrra lagi sú, að menn telja, að skólinn gangi saman talsvert mikið við það, að miðskóladeildir falla burt, eða að skólinn fari úr 14 deildum niður í 8 deildir. Ef þetta væri meginástæðan fyrir breyt., get ég ekki séð, að ein miðskóladeild bæti mikið úr, þannig að skólinn hafi miklu meira að starfa. Þá er önnur ástæða, sem ég skil vel og ég fyrir mitt leyti get verið fylgjandi. Hún er sú, að menntaskólarnir megi starfrækja miðskóladeild vegna þess, hve mikill kostur það er fyrir þá að hafa nemendur frá byrjun, sem geti haldið áfram í gegnum skólann. Þetta get ég vel skilið að muni vera heppilegt og að mörgu leyti sérstakur stuðningur fyrir skólareksturinn, enda hefur rektor menntaskólans, þegar við höfum rætt um þetta mál, lagt falsverða áherzlu á þetta atriði málsins. En þessu atriði var kippt burt, þegar fræðslulögin voru sett, og því skipulagi komið á, sem nú er. Því hefur verið haldið fram, að það væri varhugavert að binda mál sem þetta í kerfi. hetta kann að vera rétt, en þetta hefur þó verið gert, og við búum nú við kerfi, sem byggt er upp á því, að þessi skipun sé höfð á störfum menntaskólanna.

En þetta atriði, sem ég gat um áðan, að það væri kostur fyrir skólana að ala upp nemendurna, gildir að sjálfsögðu ekki síður við menntaskólann í Reykjavík en við menntaskólann á Akureyri. En þá kemur til greina, að aðstæðurnar eru næsta ólíkar. Menntaskólinn í Reykjavík er svo fjölsóttur, að hann er að springa utan af nemendunum, en menntaskóli Akureyrar getur bætt við sig nemendum. Menntaskólinn í Reykjavík hefur nú 20 deildir og hefur kennslu frá kl. 8–7. Það var svo komið síðastliðið haust, að hann varð að neita 30 nemendum, sem staðizt höfðu landspróf og áttu heimtingu á framhaldsnámi, um skólavist vegna húsnæðisleysis. Á þessu stigi málsins var talið ógerlegt að vísa þessum nemendum til Akureyrar, vegna þess að þeir höfðu gert ráð fyrir að dveljast hér. Þetta var svo leyst á þann hátt, en eingöngu til bráðabirgða til þess að komast hjá leiðindum vegna þess, hve skyndilega þetta kom yfir nemendurna, að stofna sérstaka deild í skólanum. Sá böggull fylgir þó skammrifi, að skólinn getur ekki hleypt öllum þeim nemendum, er standast próf, upp í efri bekkina. Verður þá að sigta úr og láta 20–30 nemendur ganga af eða senda þá til Akureyrar. Ef annar skólinn fengi að taka upp miðskóladeild af uppeldisástæðum, þá vildi hinn það ekki síður, þar sem hann er miklu fjölmennari en Akureyrarskólinn. Þess vegna verður að horfast í augu við það, að það er ekki eins létt að koma þessari breytingu í framkvæmd og virðast kann, nema breytt sé núverandi fræðslukerfi. Það væri því eðlilegt, úr því að menntaskóli Akureyrar hefur nægilegt húspláss, meðan ekki er hægt að bæta úr húsnæðisleysinu hér, að hann taki við utanbæjarnemendum þeim, sem eiga heima utan Reykjavíkur og Akureyrar og því næst þeim Reykvíkingum, sem gætu veitt sér það að stunda þar nám. Það lítur út fyrir, að á næsta ári verði að neita mörgum nemendum um setu í menntaskóla, er staðizt hafa landspróf, eða þyngja prófið, svo að fleiri falli. Að öðrum kosti er ekki sýnilegt annað en að neita verði um skólavist, því að húspláss er ekki fyrir hendi, en það er til á Akureyri. Ég tel það enga frágangssök að vísa nemendum til Akureyrar. Það verður að vísu aukakostnaður fyrir Reykvíkinga, sem annars gætu búið á sínum heimilum með minni tilkostnaði, en eins og ég sagði, þá fel ég það ekki frágangssök.

Mér finnst, að það þurfi að taka þetta mál með meiri viðsýni og á víðtækara grundvelli en gert hefur verið og breyta fræðslulögunum, svo að þetta geti náð fram að ganga. Meðan fræðslukerfið er eins og það nú er, þá finnst mér það ótækt að gera slíka breytingu sem þessa. Með því yrðu raunverulega tveir gagnfræðaskólar á Akureyri, en mér er skýrt frá, að gagnfræðaskólinn þar sé fullnægjandi eins og hann er nú. Nú er skólinn einsettur með 298 nemendum, og hægt er að bæta við 50 manns án þess að tvísetja, en 600 manns, ef allt húsnæði, sem skólinn ræður yfir, væri tekið í notkun, en þá þyrfti að gera við kjallara og tvísetja. Mér sýnist því, að verið væri að koma upp tveimur gagnfræðaskólum þar, sem einn gæti leyst hlutverk beggja. — Vildi ég láta þessa skoðun í ljós við þessa umr. Tel ég og, að athuga þurfi þetta nánar en gert er hér í frv. og hvort ekki sé þá rétt að breyta fræðslukerfinn með þetta fyrir augum. Ég tel þó, að ekki sé rétt að gera það á þessu stigi málsins, þar sem varla er fenginn nokkur reynslutími enn á fræðslukerfinu.